Fara í efni
Mannlíf

Sennilega allir komnir af Jóni, þeim graðkarli!

„Íslendingar hafa löngum haft mikinn áhuga á ættfræði, sérstaklega þegar þeir byrja aðeins að eldast, og þegar eldri Íslendingar hitta yngri Íslendinga spyrja þeir oft að því hverra manna þeir eru, og eru þá oftast að leita eftir upplýsingum um foreldra þeirra eða jafnvel afa og ömmur.“

Þannig hefst bráðskemmtilegur pistill Kristínar M. Jóhannsdóttur, dósents við Háskólann á Akureyri, sem birtist á Akureyri.net í dag.

Kristín kynntist ættfræði þegar föðurætt pabba hennar hélt í fyrsta sinn ættarmót og hún tók að sér að rekja framættina sem lítið sem ekkert var vitað um. Þetta var fyrir daga Íslendingabókar svo hún kom sér vel fyrir á Amtsbókasafninu og rakti sig í gegn um alls kyns kirkjubækur á filmum.

„Ég fann langafa minn Frímann Þorvaldsson og föður hans Þorvald Þorvaldsson, föður hans Þorvald Þorvaldsson og hans föður, Þorvald Þorvaldsson ...“

Nú er hægara um vik, eftir að Íslendingabók varð til. Kristín komst auðveldlega að því að hún er bæði komin af Helga magra og Ingólfi Arnarsyni – eins og sennilega þúsundir annarra – í þrítugasta og fyrsta ættlið, og af Agli Skallagrímssyni í tuttugasta og áttunda. 

„Og svo var það karlinn Jón Þorvaldsson, fæddur 1510, sem eignaðist 15 skilgetin börn og 15 launbörn. Ég efast um að nokkur sleppi við að vera kominn af þeim graðkarli.“

Pistill Kristínar: Aðeins um ættfræði