Sáu snjó í fyrsta sinn og „elska hann!“
Snjó kyngdi niður á Akureyri í nótt svo þungfært var sums staðar í bænum í morgun en þó var lítið um vandræði í umferðinni. Varla hafa allir fagnað lausamjöllinni sem þakti bæinn svo fallega en fjölmargir áhugamenn um hvít jól glöddust í það minnsta, svo og börn sem mörg hver ruku út og tóku til við að reisa sér snjóhús.
Carolyn Chinguo Munthali frá Malaví og Tshepo Sebake frá Suður-Afríku, sem dvelja tímabundið á Akureyri, glöddust einnig mjög í morgun; brostu raunar út að eyrum þegar Akureyri.net hitti þau. Hvorugt hafði séð snjó með berum augum áður en þau komu til Akureyrar í haust og síðan þá hefur varla verið nema föl í bænum þar til í nótt. Þau kunnu sannarlega vel að meta mjöllina. „Stórkostlegt! Ég elska snjóinn!“ sögðu þau nánast samtímis þegar spurt var. Carolyn og Tshepo stunda bæði nám við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Háskólinn á Akureyri er þátttakandi í skólanum og þar fer kennslan fram.
Tshepo Sebake langaði mikið til að búa til engil í snjónum í morgum, og lét að sjálfsögðu verða af því! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.