Mannlíf
Sandra María kjörin best í Bestu deildinni
05.10.2024 kl. 14:05
Sandra María Jessen - besti leikmaður Íslandsmótsins að mati leikmanna Bestu deildarinnar. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, var kjörin besti leikmaður Bestu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu þetta árið! Það eru leikmenn liðanna í deildinni sem kjósa.
Sandra María fékk verðlaunin, Flugleiðahornið, afhent fyrir nokkrum mínútum, fyrir leik Þórs/KA og Víkings sem hófst kl. 14.
Oftar en ekki verður einhver úr Íslandsmeistaraliði fyrir valinu en líklega kemur fáum á óvart að Sandra María hafi verið kjörin best að þessu sinni því hún hefur verið frábær með Þór/KA í sumar.
Auk þess að þykja besti leikmaður Íslandsmótsins er Sandra María lang markahæst, með 22 mörk í jafn mörgum leikjum, 10 mörkum meira en sú næsta. Það er því næsta víst að gullskórinn verði hennar í lok dags.