Fara í efni
Mannlíf

„Geturðu ekki gefið ömmu karl í skóinn?“

Skúli Lorenzson fyrir utan heimili sitt á Akureyri. Þar er að sjálfsögðu jólasveinn til skrauts þessa dagana. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Skúli Lorenzson klæddist fyrst jólasveinabúningi á nýársdag 1959, rétt að verða 12 ára. Fór þá með hlutverk Stúfs á jólatrésskemmtun Karlakórsins Geysis í Lóni og hefur verið í nánu samstarfi við jólasveina allar götur síðan.

Skúli hóf snemma að koma fram á jólatrésskemmtunum og Þrettándagleði Íþróttafélagsins Þórs, undir ýmsum nöfnum en Kjötkróki kynntist hann fyrst náið fyrir rúmum fjórum áratugum og þeir hafa verið nánast óaðskiljanlegir síðan. Jafnvel má segja að þeir hafi verið sem einn maður í desember, Skúli og Kjötkrókur.

„Það má segja að síðustu 40 ár hafi desember meira og minna farið í þetta. Kjötkrókur og bræður hans, sem hafa verið nokkrir í gegnum tíðina, hafa komið víða við; auk þess að vera hjá Þór, höfum við oft farið á barnadeild sjúkrahússins, á jólaböll hjá langveikum börnum, komum fram á svölunum í göngugötunni á vegum Pennans, á Ráðhústorginu á vegum bæjarins þegar kveikt var á jólatrénu, vorum á Glerártorgi og mun víðar. Við höfum líka farið bæði út í Hrísey og Grímsey.“

Kjötkrókur mun hafa kynnst Theodór Júlíussyni, þeim kunna leikara, fyrir margt löngu og þá var nafnið Súlusveinar fyrst notað. Jón Knutsen og Felix Jósafatsson hafa svo verið nánir samstarfsmenn karlsins með hangikjötslærið árum saman. Hvar sem hann fer býður Kjötkrókur fólki að smakka dýrindis hangikjöt. Kjötiðnaðarstöð KEA gekk til liðs við hann á sínum tíma og þá brugðu sveinarnar gjarnan á leik í KEA verslunum bæjarins. Norðlenska tók við hangikjötskeflinu síðar.

Spurt er: hvað fær menn til að standa svona lengi í þessu? 60 ár er býsna langur tími.

„Ég hef í fyrsta lagi mjög gaman að þessu og það gefur mér líka mikið vegna þess að börnin eru svo þakklát. Og ég hef sérstaklega gaman að því núna á seinni árum að börn sem ég skemmti í gamla daga eru nú orðin afar og ömmur, mæta með barnabörnin og reyni að gleðja þau!“

Árum saman fóru þeir Skúli á jólaböll í skólum bæjarins og heimsóttu leikskólana líka. „Eitt árið tókum við að okkur að keyra út jólapakka fyrir Samherja á aðfangadag, mikinn fjölda konfektkassa. Allir áttu að vera heima en svo reyndist ekki vera þannig að við þurftum margar ferðir í sum húsin. Kjötkrókur kom ekki heim til sín fyrr en klukkan hálf átta – og var ekki vinsælasti maðurinn á heimilinu í það skiptið!“

Skúli segir líka frá ógleymanlegu atviki við ónefnda götu bæjarins. „Við fórum heim til konu sem ég þekki, sáum inn um gluggann að krakkar voru að horfa á barnaefni í sjónvarpi og rukum inn í forstofu. Þá verður einn guttinn svo hræddur að hann verður alveg brjálaður. Sú gamla heldur að hann hafi stórslasast og snarast fram af baðherberginu en hafði verið að koma úr sturtu og hljóp því fram allsnakin. Það fyrsta sem hún sér eru tveir jólasveinar í forstofunni! Þetta er gömul skólasystir mín og ég stríði henni stundum með því að þegar ég hætti sem jólasveinn fari ég í að skrifa bók, og þá verði sagan sögð ...“

Eitt sinn hlupu Kjötkrókur og félagar inn á jólaball hjá Flugbjörgunarsveitinni í Galtalæk en ekki vildi betur til en svo að Skúli steig á plastkassa, datt og handleggsbrotaði. „Svo er ógleymanlegt þegar verið var að taka upp jóladagtal fyrir Stöð 2 í Kjarnaskógi, Bjarni Hafþór Helgason fréttamaður hélt á hangikjötslærinu, sem var auðvitað með í för, en stakk hnífnum laust í það. Henti svo lærinu til mín, hnífurinn losnaði og stóð í einni tánni. Ég var keyrður upp á spítala og tvö spor voru saumuð í tána!“

Skúli lumar á annari ógleymanlegri sögu. „Það var fyrir fjórum árum er við vorum á jólaballi að lítill drengur kemur til mín og spyr afskaplega einlægur: Kjötkrókur, geturðu ekki gefið ömmu karl í skóinn? Hún er alltaf ein.“

Að síðustu rifjar Skúli upp atvik þegar einn jólasveinanna steingleymdi nafni Kjötkróks, en bjargaði sér snaggaralega og spurði þrumandi röddu: Skúli, á ég að syngja núna?“

Kjötkrókur ræðir við ungan dreng fyrir fáeinum árum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

  • Að ofan: Kjötkrókur og félagar í Grímsey.