Fara í efni
Mannlíf

Samið um skáldahús og þjónustu Minjasafnsins

Sigfús Karlsson, formaður stjórnar Minjasafnsins, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, „olnboga“ samningana eftir undirritun. Ljósmynd: Ragnar Hólm.

Gengið hefur verið frá samningum til þriggja ára um þjónustu Minjasafnsins á Akureyri og rekstur skáldasafnanna, Nonnahúss og Davíðshúss.

Í samningnum er getið er um starfsemi, hlutverk og tilgang safnsins, en það „safnar á markvissan hátt munum og ljósmyndum sem endurspegla lífshætti og menningu á starfssvæðinu skv. söfnunarstefnu samþykktri af stjórn safnsins,“ segir í tilkynningu. Safnið er í eigu sveitarfélaganna Hörgársveitar, Akureyrarbæjar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Grýtubakkahrepps.

„Munir sem tekið er á móti eru varðveittir um ótiltekinn tíma í varðveislumiðstöð safnsins. Safnið skráir safnkostinn í miðlægan gagnagrunn, stendur fyrir eða á samstarf um rannsóknir á menningarminjum á starfssvæði safnsins og birtir rannsóknarniðurstöður. Hlutverk safnsins er einnig að miðla menningararfnum, standa fyrir ýmsum viðburðum og sinna fræðslu og efla menningarlæsi.“

Í rekstrarsamningi vegna skáldasafnanna er kveðið á um hlutverk Minjasafnsins við umsjón með söfnum skáldanna, faglegu safnastarfi, varðveislu safngripa, miðlun og fræðslu.