Samheldin fjölskylda með sænskar hefðir
Lára Magnúsdóttir hefur lengi búið í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum og starfar við stefnumótun í málefnum barnafjölskyldna í ríkinu. Eiginmaður hennar heitir Tim og eiga þau dótturina Lonnie og soninn Ara. Lára skrifaði þessa grein að beiðni Akureyri.net, þá fimmtu í flokki sem Akureyringar erlendis skrifa um jólahaldið.
_ _ _ _
2020 sko! Planið var nú eiginlega að koma heim um þessi jól. Ég hef ekki verið á Íslandi um jól í u.þ.b. 25 ár og hlakkaði svo til. En þá er bara að gera jólahaldið í Kaliforníu eins hefðbundið og hægt er!
Ég bý í borginni Santa Rosa í Sonoma sýslu sem er 100 km norður af San Francisco. Þetta svæði er þekkt fyrir vínekrur og nýlegar fyrir skógareldana miklu fyrir þremur árum og eiginlega á hverju ári síðan. Við höfum verið heppin hingað til og sloppið, stundum naumlega. Sonoma er alveg í útjaðri stór-San Francisco svæðisins. Við erum eiginlega soldið sveitó, en á móti kemur að það er rólegt, falleg náttúra og fjölskylduvænt.
Maðurinn minn, Tim, er bandarískur, og af sænskum og norður-evrópskum ættum. Fjölskyldan hans er samheldin og hefur haldið í sænskar jólahefðir, t.d. eru flestar gjafir opnaðar á aðfangadagskvöld. Við erum yfirleitt milli 25 og 35 manns í stórfjölskyldunni sem koma saman á aðfangadag. Hver kjarnafjölskylda kemur með fyrirfram ákveðinn rétt. Á borðum eru alltaf sænskar kjötbollur, síld, skinka, og kartöflustappa ásamt með hinum ýmsu smáréttum. Og fullt af smákökum.
Ólíkt mörgum fjölskyldum hérna, þá erum við öll í sparifötunum um jólin. Tengdamóðir mín heitin saumaði jólabindi handa öllum körlunum, svo þeir eru alltaf gasalega glerfínir og jólalegir. Önnur hefð er að jólasveinninn bankar upp á á aðfangadagskvöld með gjafir fyrir öll börnin.
Á jóladag koma svo minni hópar saman og borða saman bröns, þar sem fólk opnar gjafir hvert frá öðru.
Á síðasta ári var hópurinn orðinn of stór til að rúmast á einhverju heimilanna, svo við leigðum stórt hús og komum þar saman.
Ein af gömlu hefðunum frá bernskujólunum á Akureyri er blessaður möndlugrauturinn. Síðan ég byrjaði jólahald með fjölskyldu Tims hefur mitt framlag yfirleitt verið möndlugrautur og hefur það vakið mikla lukku. Ég verð þó að viðurkenna að ég er alltaf oggolítið bitur út í möndlugrautinn því ég hef ALDREI fengið möndluna! Ég sakna stundum hversu hátíðleg jólin voru á Akureyri hér í den. Kirkjuklukkurnar hringdu klukkan sex og þá byrjuðu jólin. Sálmarnir í útvarpinu, kveikt á öllum ljósum og allir í sínu fínasta pússi.
Þessi jól verða öðruvísi og skrýtin. Það verður í fyrsta skipti í manna minnum sem stórfjölskyldan kemur ekki saman. Ansans kóvítið. Svo litla fjölskyldan mín ætlar að bruna suður til San Jose á Þorláksmessu, sem er tveggja tíma keyrsla héðan, til að henda gjöfum og mat út um bílgluggann og opna skottið svo öðrum verði hent inn. Við stoppum nú auðvitað í nokkrar mínútur en verðum með grímur og höldum okkar fjarlægð. Svo brunum við til baka og verðum bara fjögur saman á aðfangadag.
Þrátt fyrir öll þessi skringilegheit getur maður ekki annað en verið þakklátur fyrir fjölskyldu, hefðir, og heilsu. Þetta Covid dæmi líður hjá og sólin rís á morgun.
Gleðileg jól!
Lára Magnúsdóttir
Lára, Tim, Lonnie og Ari – karlpeningurinn með jólabindin sem tengdmóðir Láru saumaði – Lára, önnur frá vinstri, í einu jólaboðinu.
FYRRI GREINAR