Fara í efni
Mannlíf

Samábyrgð, kærleikur og trú – 1915 og nú

Í fyrstu viku desember árið 1915 urðu þeir atburðir í lífi fjölskyldu minnar sem hafa haft mikil áhrif á mig og leita alltaf á mig í desember. Frásögn af atburðunum var mér sögð þegar ég var barn en hafa orðið mér ljósari eftir því sem árin hafa liðið.

Þannig hefst áhrifaríkur pistill Kristínar Aðalsteinsdóttur, fyrrverandi prófessors, sem Akureyri.net birti í kvöld.

Langamma Kristínar og langafi, Þorbjörg Hallgrímsdóttir og Páll Jónsson, bjuggu á heiðarbýlinu Svínadal í Kelduhverfi, skammt frá Hljóðaklettum.

Árin liðu og lífið var auðugt og hamingjusamt þrátt fyrir harða lífsbaráttu. Í byrjun desember árið 1915 voru börnin orðin sjö, afi minn Jón var elstur, orðinn 15 ára piltur og enn var von á barni, segir Kristín í pistlinum.

Að þessu sinni fæddi Þorbjörg þrjú börn og þótt úti geisaði stórhríð sólarhringum saman var hlýtt og bjart í bænum. 

En skjótt bregður sól sumri, segir Kristín. Sex dögum eftir fæðinguna er Þorbjörg langamma mín liðið lík. Það gerðist eins og hendi væri veifað. Nýfædd börnin kalla á hjálp, tilveran á bænum er barátta um líf og dauða. Tíu börn eru orðin móðurlaus og þar af þrjú nýfædd, á einangruðu heiðarbýli, fannkyngi á jörð og lífshætta að reyna að ná sambandi við byggð.

Kristín spyr: Hvað gerir fólk sem lendir í raunum sem þessum? Hún segir frá því hvernig brugðist var við í desember 1915 og veltir fyrir sér hvað sé hægt að gera fyrir fólk sem á erfitt nú til dags.

  • Kristín Aðalsteinsdóttir mun skrifa reglulega pistla fyrir Akureyri.net á næstunni. 
  • Pistill dagsins: Desember 1915