Saknar úkraínskra melóna og sólarinnar

„Mig hefur alltaf langað að skrifa bók, ég hef haft þörf fyrir að skrifa síðan ég var lítill,“ segir Andrii Gladii, Úkraínumaður búsettur á Akureyri, en hann gaf út bók á úkraínsku um Ísland, fyrstu sinnar tegundar, árið 2023. „Þetta er fyrsta bókin mín, en ég hef hingað til verið að leita að efni til þess að skrifa. Ég er vanur að skrifa dagbók, en ég tók það ennþá lengra eftir að ég kom til Íslands. Sennilega bara af því að ég hafði meiri tíma! Það er eitt, sem fylgir því að vera á Íslandi. Maður hefur meiri tíma til þess að skrifa, lesa og hugsa. Mér finnst vera meiri truflun heima og í stóru borgunum í Evrópu.“
Þetta er seinni hluti viðtalsins við Andrii, en hann er búinn að búa á Íslandi síðan 2018.
Í GÆR – GAF ÚT FERÐABÓK UM ÍSLAND Á ÚKRAÍNSKU
Andrii sýndi blaðamanni bókina sína og hinar í bókaflokki úkraínska útgáfufélagsins Vihola, sem gefur út ferðabækur um lönd á norðurhveli. Bók Andrii um Ísland er lengst til vinstri á myndinni. Mynd: RH
Lítið til af bókmenntum sem tengja þjóðirnar tvær
„Ég var stöðugt að hripa eitthvað hjá mér og skrásetja upplifun mína af því að vera á Íslandi. Síminn minn var alltaf fullur af myndum, ég tók svo margar á hverjum degi,“ segir Andrii. „Svo fór ég að forvitnast um það, hvað Íslendingar vissu um Úkraínu, og öfugt. Það var ekki mikið, en skilningur á milli þjóðanna er alltaf að aukast. Ég fór að leita að bókum, rannsaka það hvort að til væru einhverjar bækur sem við ættum saman, þ.e.a.s. hvort það væru til bækur um Úkraínu á íslensku eða öfugt, eða hvort eitthvað hefði verið þýtt á milli til dæmis. Ég fann eina, sem kom mér mikið á óvart. Það er úkraínskt ljóð eftir einn frægasta rithöfund okkar, Mykhailo M. Kotsjúbinski, sem heitir 'Skuggar feðranna'. Guðmundur Daníelsson þýddi þá bók á áttunda áratugnum.“
„Viðfangsefni þeirrar bókar er saga Húzul-þjóðflokksins sem bjó í fjallshlíðum Úkraínu áður fyrr og lifðu á sauðfjárbúskap meðal annars. Þarna eru ýmis áhugaverð líkindi við líf Íslendinga áður fyrr sem lifðu á landinu,“ segir Andrii. „Þetta var semsagt eina bókin sem ég fann, sem fjallaði um eitthvað tengt Úkraínu á íslensku, og ég fann örfáar á úkraínsku þar sem minnst var á Ísland. Mér datt í hug, að þarna væri möguleiki fyrir mig, til þess að leggja eitthvað til málanna, og láta í leiðinni drauminn minn um bókarskrif rætast.“
'Skuggar feðranna' hefur líka fengið sess á hvíta tjaldinu, en Andrii stóð fyrir sýningu myndarinnar á Amtsbókasafninu fyrir tveimur árum. T.v. Stilla úr bíómyndinni. T.h. Kápa íslenskrar þýðingar Guðmundar Daníelssonar á bókinni.
Bókin féll eins og flís við rass í ferðabókaseríu
„Ég fann úkraínskan bókaútgefanda sem var nú þegar á þeirri vegferð að gefa út ferðabækur um lönd á norðurhveli,“ segir Andrii, en bókin hans bættist þar í bókaseríu eftir mismunandi höfunda, ein bók er um Svíþjóð, ein um Spitsbergen í Noregi og ein um Írland. „Nú er mín komin út og ný bók um Kanada líka. Ég hafði mikið frelsi, þó að bókin sé hluti af þessari seríu, en bækurnar eru allar ólíkar. Dagbókin mín er í aðalhlutverki og náttúra Íslands fær mikla athygli, ég upplifi hana næstum því stundum eins og frá annari plánetu.“
„Dagbókarfærslurnar eru blanda af upplifun minni af því sem ég sé og heyri, og svo af persónulegum sögum og fróðleiksmolum,“ segir Andrii. „Ég lagðist í hellings rannsóknarvinnu og fer mikið í sögu staðanna, landnámsfrásagnir og fleira. Stundum er heldur mikið af fróðleik og kannski þætti einhverjum þeir hlutar leiðinlegir.“ Blaðamaður hlær við og spyr hvort höfundinn hvort að bókin hans sé leiðinleg. „Ég veit það ekki, ég er ekki búinn að lesa hana,“ segir hann þá kíminn.
Öruggt að nú eru fleiri í Úkraínu sem vita meira um Ísland
Bókin hefur vakið verðskuldaða athygli, en til að byrja með voru prentuð 1.500 eintök sem seldust upp. „Þau prentuðu meira, og ég held að salan sé um 1.600 bækur núna,“ segir Andrii. „Ég hef fengið góð viðbrögð á netinu og í persónu, en ég hef líka fengið gagnrýni, sem er gott. Það þýðir að fólki er ekki sama. Ég held ég geti alveg fullyrt að nú séu töluvert fleiri í Úkraínu sem vita meira um Ísland en áður! Það eru auðvitað margir landar mínir sem hafa flutt hingað vegna stríðsins, sem flóttamenn, en ég veit svosem ekki hvort að bókin hefur eitthvað aðstoðað einhverja við að taka ákvörðun um að koma hingað frekar en eitthvað annað.“
Mig langaði líka til þess að bókin mín myndi kannski hvetja aðra samlanda mína til þess að skrifa um Ísland og lífið hérna
„Ég er farinn að horfa á heiminn og heimalandið mitt aðeins öðrum augum eftir að búa hérna um hríð,“ segir Andrii. „Ég er kominn með annað sjónarhorn á landið mitt og ég sé kosti þess núna í svo miklu skýrara ljósi en áður. Veðrið til dæmis, er dásamlegt í Úkraínu. Það er langt sumar og allskonar kostir sem fylgja því. Ég áttaði mig ekki á því, hvað við erum til dæmis heppin með alla ávextina og plönturnar sem vaxa heima. Ég sakna þess til dæmis ótrúlega mikið, að fá vatnsmelónu! Samstarfsfólk mitt hérna á Akureyri, í háskólanum, trúði ekki að það væru risastórar og safaríkar vatnsmelónur sem yxu í Úkraínu.“
„Ég fann líka sögulegar tengingar á milli landanna okkar í grúski mínu. Höfuðborgin okkar, Kiev, kallast Kænugarður á íslensku,“ segir Andrii. „Oft kemur Kænugarður við sögu í Íslendingasögunum og margar frægar persónur úr þeim fóru á milli Íslands og Kænugarðs á söguöld. Þessar tengingar eru dýrmætar, finnst mér.“
Heillaðist af málvernd íslenskrar tungu
„Ég er mjög hrifinn af íslenska tungumálinu, en ég er með sér kafla í bókinni um það,“ segir Andrii. „Þar má kynnast minni sýn á tungumálið og upplifun minni af því að reyna að læra það. Saga þess heillar mig líka, vegna þess hve lítið það hefur breyst. Mér finnst stórkostlegt að þið getið í raun ennþá lesið eldgamla texta, sökum þess hve íslenska er ennþá nálægt fornnorrænu. Úkraínska hefur breyst miklu meira á þessum tíma, við gætum ekki lesið svona gamla texta. En ég var svo hrifinn eftir þetta grúsk, að ég fór að grafa eftir gömlum orðum í mínu tungumáli og nota þau í bókina mína. Ég er svo með orðabók aftast í bókinni, þar sem lesendur geta flett upp því sem þeir skilja ekki. Hver veit, kannski næ ég að lífga einhver af þessum orðum við aftur!“
„Ég er líka hrifinn af því, hvað þið eruð dugleg að búa til ný orð,“ segir Andrii. „Við gerum þetta líka í Úkraínu, en svo notar fólk orðin ekki. Hérna eru þau svo vel innleidd og vandað til verka. Tökuorð komast ekki svo auðveldlega á legg. Heima eru enskuslettur, til dæmis, mjög algengar.“
Andrii líður vel í Eyjafirði og er ánægður með að vera hér eins og staðan er. Hann tekur mikið af myndum, eins og þessa af tvöföldum regnboga yfir Pollinum. Mynd úr einkasafni.
Næsta bók myndi beina kastljósinu að persónulegum sögum
Andrii hefur ekki hugsað sér að láta þýða bókina sína, eins og staðan er, en hann segir ekki þörf fyrir fleiri bækur um Ísland á ensku, t.d. „Þar væri bókin mín bara ein af þúsundum, en hún er sú eina af mjög fáum á úkraínsku um Ísland. Markaðurinn er allt öðruvísi. Mig langaði líka til þess að bókin mín myndi kannski hvetja aðra samlanda mína til þess að skrifa um Ísland og lífið hérna. Við erum mörg, og okkur hefur fjölgað hratt.“ Andrii segir að hann myndi vilja beina athyglinni meira að fólkinu á Íslandi ef hann myndi skrifa aðra bók, en í þessari er meiri athygli á náttúrunni. „Ég er hrifinn af persónulegum sögum, og mig langar að skoða það næst.“ Andrii bætir við að hann hafi trú á því að samskipti milli Íslands og Úkraínu muni halda áfram að styrkjast, bæði almennt og í bókmenntum.
„Ég sakna þess að geta labbað um á kvöldin á stuttermabol og fá mér vatnsmelónu,“ segir Andrii að lokum, um veðrið og muninn á Íslandi og Úkraínu. „En það er mitt val, að vera hérna í norðrinu, og ég kann vel við mig hérna.“ Blaðamaður bendir á að það fáist vatnsmelónur í búðum á Akureyri, en þær komast víst ekki með tærnar þar sem úkraínskar vatnsmelónur eru með hælana.
Þetta var seinni hluti viðtalsins við Andrii, sá fyrri var birtur á Akureyri.net í gær.