Fara í efni
Mannlíf

Sagan af því, hvernig Dilla eignaðist nöfnu í Ekvador

Dýrleifar tvær og Rúnar, á sófanum í Arnarsíðu. Mynd: RH
Ekvador er spænskumælandi land. Þar búa ótal Maríur, Esmeröldur, Gabríellur og Ramónur. En þar býr bara ein Dýrleif. Sagan af því, hvernig nýfædd stúlka í Ekvador var skírð í höfuðið á skeleggri konu á Íslandi, er bæði hjartnæm og skemmtileg. Blaðamaður hittir Dillurnar tvær á rólegu haustkvöldi í Arnarsíðu, þar sem sú eldri, Dýrleif Skjóldal, er til heimilis ásamt manni sínum, Rúnari Arasyni. Sagan hefst á því þegar Dilla eldri var sautján ára og fékk þá flugu í höfuðið að það gæti verið gaman að fara sem skiptinemi til útlanda.
Á þessum tíma kostaði tvær milljónir að fara, og mér tókst að safna þeim, hætti í skólanum og mætti í frystihúsið allt vorið
„Ég fór fyrst sem skiptinemi seint á síðustu öld,“ segir Dilla. „Það var árið 1980, ég byrjaði um haustið í Menntaskólanum og sá auglýsingu frá AFS. Ég fékk leyfi frá pabba til þess að fara ef ég myndi borga það sjálf. Ég kláraði prófin um veturinn og fór svo niður á Útgerðarfélag og fékk mér vinnu. Á þessum tíma kostaði tvær milljónir að fara, og mér tókst að safna þeim, hætti í skólanum og mætti í frystihúsið allt vorið.“ Dilla fór svo til Noregs um haustið og var fyrst til þess að fara á vegum AFS til Norðurlandanna.
 

Dilla er þekkt fyrir að vera hress og opinn karakter, og hérna bregður hún á leik í ferð til Suður-Ameríku. Það er ekki víst að hún hefði farið þangað ef ekki væri fyrir skiptinemaævintýrin! Mynd: Facebook

„Á þessum tíma voru eiginlega allir að fara til Bandaríkjanna með AFS, en mig langaði til Evrópu,“ segir Dilla. „Þegar ég kom heim aftur var verið að stofna AFS deild á Akureyri og ég hellti mér í að starfa fyrir félagið, átján ára gömul. Þar sinnti ég allskonar verkefnum; ég tók viðtöl við krakka sem vildu fara út, fann fjölskyldur hérna á Akureyri og var tengiliður við skrifstofuna fyrir sunnan.“ Dilla segist ennþá hafa verið krakki þegar hún svo giftist Rúnari sínum, árið 1984 og fljótlega buðu þau fyrsta skiptinemanum á heimilið sitt. Þeim fyrsta af sjö, sem áttu eftir að koma til þeirra allsstaðar að úr heiminum.

Ivan bætist í fjölskylduna

Mörgum árum síðar fór svo elsti sonur Dillu og Rúnars, Sævar, sem skiptinemi. Það mætti segja að það hafi verið komin hefð fyrir því í fjölskyldunni að fara í skiptinám! „Þetta var fyrir tuttugu árum síðan, árið 2004,“ segir Dilla. „Við fengum þá skiptinema á heimilið í staðinn fyrir Sævar, enda lítið pláss í húsinu og ómögulegt að taka skiptinema án þess að losna við einhvern út á meðan.“ Dilla hlær að þessu, en heimili hennar og Rúnars við Arnarsíðu hefur ætíð verið líflegt, en þau eiga þrjá syni. Svo ekki sé minnst á skiptinemana sem hafa komið og farið.

Þegar hann kom var eins og við hefðum alltaf átt hann. Hann bara gekk inn og passaði inn í fjölskylduna

„Það var hann Ivan Alfredo Valarezo Calle, sem kom til okkar frá Ekvador og settist að í herberginu hans Sævars,“ segir Dilla. „Rúnar var búinn að segja að hann nennti þessu nú eiginlega ekki, að taka einn enn, en það bráðvantaði fjölskyldu og við létum slag standa. Sem betur fer, vegna þess að þegar hann kom var eins og við hefðum alltaf átt hann. Hann bara gekk inn og passaði inn í fjölskylduna. Steinar og Sindri, yngri strákarnir okkar voru strax eins og litlu bræður hans og það var frekar skondið að Sævar kvartaði svolítið yfir því þegar hann kom loksins heim – hvað við töluðum mikið um Ivan og mærðum hann stöðugt.“

Hér er Ivan kominn aftur suður á bóginn eftir Íslandsdvölina, með kærustu sinni Gaby, og lítilli dömu sem átti eftir að koma íslensku foreldrum hans á Íslandi töluvert á óvart. Mynd: úr einkasafni Dillu

„Ivan talaði nánast enga ensku þegar hann kom, bara spænsku,“ rifjar Dilla upp. „Hann var mjög duglegur að læra íslenskuna, til dæmis hlustaði hann á íslenska tónlist og las textana með til þess að læra þá. Hann gekk í Menntaskólann og var einn af nokkrum skiptinemum á Akureyri á þessum tíma. Hann smellpassaði inn í lífið hérna.“ Dilla segir að það sé sérstakt að fá skiptinema á heimilið, þetta sé náttúrulega ekki gestur. „Maður á ekkert að vera að þjóna fólki til borðs og sængur í heilt ár. Þessi einstaklingur verður fjölskyldumeðlimur.“

Óvænt símtal frá Ekvador

Eftir að Ivan fór svo aftur út til Ekvador, þegar dvölinni í Arnarsíðunni var lokið, var svolítið flókið að halda sambandi. „Fyrst voru eiginlega engar tölvur í Ekvador þannig að við gátum ekki verið í tölvupóstsambandi eða neitt þannig,“ segir Dilla. „Við hringdumst á annað slagið, en það var flókið vegna þess að ég varð að hringja og hann að vera staðsettur þá á einhverri símstöð til þess að taka við símtalinu.“ Það kom því svolítið á óvart, segir Dilla, þegar síminn hringir einn daginn og Ivan er á hinni línunni.

Ég svaf eiginlega með risastórt bros á smettinu alla nóttina og var alltaf að vakna og skildi varla að þetta hefði átt sér stað!

„Hann segir mér þarna strax að hann sé pabbi,“ segir Dilla, og hún hélt að hann vildi tala við Rúnar, íslenska pabbann sinn. „Nei nei, þá ítrekaði hann það, að hann væri orðinn pabbi. Ég var alveg steinhissa, ég vissi ekki einu sinni að hann ætti kærustu. Þá hafði hann eignast litla stúlku.“ Dilla segist hafa orðið alveg orða vant þegar Ivan svo segir að dóttir hans hafi fengið nafnið Dýrleif, í höfuðið á henni.

Fyrsta og eina Dýrleifin í Ekvador. Fyrsta myndin sem Dilla fékk senda af Dillitu litlu frá Ivan og fjölskyldu. Mynd: úr einkasafni Dillu

„Það er víst einhversskonar mannanafnanefnd í Ekvador, en önnur amman þekkti konu á skrifstofunni og mútaði henni til þess að skrá nafnið Dýrleif,“ segir Dilla hlæjandi. „Þannig að hún heitir Dýrleif Joaquina Valarezo Castro. Mér sem kommúnista þótti náttúrulega stórkostlegt að það væri til Dýrleif Castro í heiminum. Ég svaf eiginlega með risastórt bros á smettinu alla nóttina og var alltaf að vakna og skildi varla að þetta hefði átt sér stað!“

Ég lít á hana sem ömmubarn og hún var náttúrulega eina ömmu- og afabarnið okkar í langan tíma

Fjölskyldan kallar Dýrleifu yngri gjarnan Dillitu, sem þýðir eiginlega litla Dilla. „Ég lít á hana sem ömmubarn og hún var náttúrulega eina ömmu- og afabarnið okkar í langan tíma. Hún var orðin sex ára þegar Sævar eignaðist elsta barnið sitt,“ segir Dilla. „Eftir þetta örlagaríka símtal pantaði mér nú bara ferð og fór strax um sumarið til Ekvador til þess að hitta litlu fjölskylduna. Ég varð að sjá þetta fyrirbæri! Þá fór yngsti sonur minn, Sindri, með mér og við hittum Ivan, Gaby konuna hans og litlu Dillitu í fyrsta skipti. Þá var hún bara hálfs árs gömul.“

Er ekki bara best að koma sem skiptinemi?

„Ég fór aftur í heimsókn fyrir tíu árum síðan og svo ákváðu þau að koma til Íslands,“ segir Dilla. „Það var vesen að fá þau í heimsókn, það var allskonar pappírsfargan sem við þurftum að fylla út í og skrifa undir. Okkur langaði alltaf að bjóða Dillitu að koma og vera hjá okkur og upplifa Ísland, en ég sá að það yrði enn og aftur vesen og skriffinnska, þannig að ég sagði við Ivan að það væri bara langbest að hún myndi sækja um sem skiptinemi.“ Það varð úr, og nú er Dilla litla er mætt á sófann í Arnarsíðunni!
_ _ _

Dilla yngri var ekki lengi að ákveða sig og fylgdi í fótspor föður síns til Íslands. Og auðvitað til þess að koma til nöfnu sinnar og ömmu, og Rúnars afa. Viðtalið við Dillurnar tvær heldur áfram á Akureyri.net á morgun.

  • Á MORGUNSKIPTINEMAR VERÐA HLUTI AF LÍFINU TIL FRAMBÚÐAR

Það að eignast fjölskyldu í Ekvador býður upp á ferðalög! Í næsta hluta segir Dilla frá ævintýrum þeirra í framandi heimsálfu. Hér eru Rúnar og Dilla með Gaby, Dillitu og Ivan að skoða Inka-minjar. Mynd úr einkasafni Dillu.