Fara í efni
Mannlíf

Safnar minjagripum frá Akureyri

María verkefnisstjóri ferðamála hjá Akureyrarbæ safnar minjagripum sem tengjast bænum. Sjálf kaupir hún sjaldnan týpíska minjagripi á sínum ferðalögum en tekur gjarnan matvöru með sér heim. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

María Helena Tryggvadóttir, verkefnastjóri ferðamála hjá Akureyrarbæ, hefur í mörg ár safnað akureyskum minjagripum. Safn hennar er nokkuð fjölbreytt og segir ákveðna sögu.

„Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessir gripir alls ekki allir fallegir, en þeir segja sína sögu og tengjast ferðamálum, sem er málaflokkur sem stendur mér nær. Þess vegna finnst mér að einhver þurfi að halda utan um þetta.,“ segir María sem á orðið dágott safn af minjagripum er tengjast Akureyri. „Margir af þessum gripum tengjast líka sögu Akureyrarbæjar beint þar sem þeir hafa verið framleiddir í tengslum við afmæli bæjarins.“

Uppáhaldsminjagripur Maríu er afsteypa af Akureyrarkirkju sem Lionsklúbbur Akureyrar lét gera árið 1958, úr silfur- og koparlitaðri málmblöndu. Þessar afsteypur voru seldar til styrktar lóðaframkvæmdum við Akureyrarkirkju.

Lítið úrval af akureyrskum minjagripum

María fór ung ómeðvitað að sanka að sér gömlum íslenskum minjagripum en það var ekki fyrr en hún fór að vinna í ferðamálum hjá Akureyrarbæ árið 2007 að söfnunin komst á skrið. „Þá fór ég skipulega að horfa eftir því hvað væri til af minjagripum frá Akureyri. Úrvalið var þá ekki mikið, flestir minjagripirnir sem þá voru í boði tengdust yfirleitt lundanum, víkingum, eða þekktum ferðamannastöðum. Mér fannst leiðinlegt að sjá hversu fáir gripir tengdust Akureyri og því miður hefur þetta lítið breyst,“ segir María og bætir við að það séu helst hlutir á borð við segla og póstkort sem finna má tengt Akureyri. Einhverjir hönnuðir hafa þó nýtt Akureyrarkirkju í verk sín, sem mætti að mati Maríu nýta enn frekar sem og gömlu húsin en fleiri tákn mætti einnig tengja við svæðið. „Til dæmis eins og Þórslíkneskið sem fannst á Eyrarlandi og er nú varðveitt í Þjóðminjasafninu, það segir sögu og myndi henta vel í minjagripagerð. Það sama á við um landvættina í skjaldarmerki Íslands, mér finnst allt of lítið gert af því að segja vættarsögurnar og tengja gamminn við Akureyri.“

Margir af hlutunum í minjagripasafni Maríu hafa verið framleiddir í tengslum við afmæli Akureyrarbæjar.

Þróun minjagripa áhugaverð

María hefur aðallega verið að sanka að sér eldri minjagripum og hefur fengið aðstoð frá fjölskyldu og vinum sem horfa gjarnan eftir hlutum fyrir hana á nytjamörkuðum. Safn hennar samanstendur nú af fjölbreyttum gripum á borð við platta, vasa, bolla, glös o.fl. „Það sem einkennir elstu minjagripina er að þeir eru ekki fjöldaframleiddir. Ég á t.d. nokkra handgerða tréplatta sem eru skreyttir með skeljum og kuðungum. Póstkort frá Akureyri er síðan sniðið inn á plattann og gjarnan bætt við áletruninni „Kveðja frá Akureyri“. Þá voru einnig handgerðir nytjamunir algengir sem skreyttir voru með blómum sem minna á norska rósamálingu og orðið Akureyri skrifað eða brennt á þá,“ segir María sem er ekki viss um aldurinn á þessum munum en telur þá vera frá árunum í kringum 1950-60. „Ég hef reynt að spyrjast fyrir en fá svör fengið. Þá hef ég ekki heldur dottið niður á heimildir um þróun minjagripa á Íslandi sem mér finnst þó vera áhugavert viðfangsefni því þetta er hluti af sögu ferðaþjónustu á Íslandi.“ María fann þó heimild um sinn uppáhalds minjagrip í blaðinu Verkamanninum frá árinu 1958. „Uppáhaldsminjagripurinn minn er afsteypa af Akureyrarkirkju sem Lionsklúbbur Akureyrar lét gera árið 1958, úr silfur- og koparlitaðri málmblöndu. Þessar afsteypur voru seldar til styrktar lóðaframkvæmdum við Akureyrarkirkju,“ segir María. Í greininni segir að kirkjurnar væru heppilegar til tækifærisgjafa og þar segir einnig að gera megi ráð fyrir því að útlendingar sem hingað koma vilji kaupa kirkjurnar sem minjagripi „en af þeim er jafnan fátt á boðstólum hér,“ eins og segir orðrétt í greininni.

Budda með gæru öðru megin og mynd af Akureyrarkirkju hinum megin.

Draumaminjagripurinn stílhreinn nytjahlutur

Talið berst aftur að minjagripum dagsins í dag og er María ekki mjög hrifin af þeim. „Þetta er allt meira og minna fjöldaframleitt. Þú sérð jafnvel sömu gripina í fleiri löndum, áletruninni er bara breytt á milli landa úr t.d. Norway í Iceland,“ segir María og bætir við að þessi fjöldaframleiðsla sé auðvitað til þess gerð að halda verðinu niðri. „Samkvæmt minjagripaverslunum bæjarins sækja gestir skemmtiferðaskipanna mest í þessa litlu fjöldaframleiddu minjagripi sem kosta lítið og eru ekki plássfrekir. Þetta eru minjagripir á borð við segla og „mjúk-lunda“. Sem betur fer eru einnig til ferðamenn sem vilja borga aðeins meira fyrir séstæða hönnun, handverk og list. Þar er tækifæri fyrir aðila hér á svæðinu og sem betur fer eru nú þegar einhverjir að sinna þessari eftirspurn en þeir mættu vera fleiri.“

Aðspurð hverskonar gripi hún kaupi sjálf á sínum ferðalögum þá segist hún sjaldan kaupa týpíska minjagripi. „Ég hef mest gaman af því að taka matvæli með mér heim úr mínum ferðalögum. Það mætti einmitt vera meira af handhægari matarframleiðslu hérna sem er merkt svæðinu og ferðamenn gætu auðveldlega tekið með sér, ég held að margir myndu nýta sér það. En fyrir utan hverskyns matvöru þá er drauma minjagripurinn minn líklega einver stílhreinn nytjahlutur, hannaður á viðkomandi stað/landi. Gjarnan hlutur sem nýtist í eldhúsi eins og viskustykki, bolli eða skál. Persónulega er ég ekki hrifin af plasthlutum og alls ekki af munum þar sem alls konar litasamsetningum og öllum frægustu byggingum og táknum viðkomandi staðar er hrúgað saman á einn grip. Grip sem á að gefa allar minningarnar frá viðkomandi stað í einum pakka.“

Söfnun sem vatt upp á sig

Hvað hennar eigið minjagripasafn varðar þá segist María Helena ekki geta svarað því hvort safnið verði gert almenningi aðgengilegt, hún sé einfaldlega ekki farin að hugsa svo langt. „Ég hef því miður ekki haldið skrá yfir þessa muni og sé svolítið eftir því. Það helgast af því að ég fór ekki í upphafi af stað með þetta með eiginlega söfnun í huga, heldur vatt þetta bara upp á sig. En ég þarf að fara að skrásetja þetta núna, líka vegna þess að mér þykir vænt um það þegar fólk hefur verið að gauka hlutum að mér og maður veit aldrei hvar þetta safn endar í framtíðinni, og þá þarf að fylgja einhver skrá með þessu.“