Fara í efni
Mannlíf

Russelæðið kom undir þau fótunum

Linda og Egill, eigendur Sportvers og Útisports á Glerártorgi. Þau hafa verið í verslunarrekstri á Akureyri í 30 ár. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Verslunarrekstur hefur alla tíð verið samofinn fjölskyldulífinu hjá hjónunum Agli Einarssyni og Berglindi Tulinius, eigendum Sportvers og Útisports á Glerártorgi. Hjónin fagna 30 árum í verslunarrekstri um þessar mundir með ýmsum góðum afmælistilboðum.

„Þetta hefur verið mjög skemmtilegur og þroskandi tími, þó auðvitað hafi þetta stundum reynt á. Það hefur t.d verið lítið um frí, en verslunarreksturinn hefur verið okkar líf og yndi,“ segir Berglind, betur þekkt sem Linda, þegar hún er beðin um að líta um öxl yfir þessi 30 ár í verslunarrekstri á Akureyri. Egill tekur undir þetta en ljóst er að þau hjónin eru kaupmenn af gamla skólanum sem lagt hafa líf sitt og sál í verslunarreksturinn og byggt hann upp með elju. Á þeim 30 árum sem þau hafa verið í verslunarrekstri á Akureyri hefur mikið vatn runnið til sjávar. Verslun þeirra, Sportver, hefur flutt nokkrum sinnum, stækkað og breyst, og þá hafa þau átt og rekið um tíma aðrar verslanir í bænum, en Sportver er sú verslun sem fylgt hefur þeim lengst.

I

Þessi mynd birtist í Degi - Tímanum 23. apríl 1997 í tilefni af því að Sportver flutti sig úr Glerárgötunni og yfir að Dalsbraut 1, þar sem áður var húsgagnaverslunin Öndvegi til húsa. Sportver átti síðar eftir að flytjast á Óseyri áður en verslunin kom inn á Glerártorg árið 2000, þá ein fyrsta verslunin í verslunarmiðstöðinni.  Mynd: Timarit.is

Engin fyrirgreiðsla frá lánastofnunum

Sportvers-ævintýrið hófst fyrst og fremst út frá hjólaáhuga Egils en hann hafði unnið sem verslunarstjóri í reiðhjólaversluninni Erninum í Reykjavík þegar hugmyndin kviknaði og þau hjónin fluttu norður með þrjú börn gagngert til þess að taka við rekstri Sportvers af stofnendum fyrirtækisins, þeim Sigurði Bjarnasyni og Magnúsi Sigurbjörnssyni. Þá var verslunin til húsa við Glerárgötu 28 en flutti sig síðar yfir í húsnæði á Gleráreyrum. Reiðhjól voru þó ekki aðalsöluvaran til að byrja með en skipa stærri sess í dag undir merkjum Útisports, en hjónin eru með umboð fyrir rafhjólamerkin Giant og Liv.

Á árunum 1995 til 2017 áttu hjónin Sportver og ráku í félagi við önnur hjón, þau Sigurð bróður Egils og eiginkonu hans Guðrúnu Elvu Stefánsdóttur, en frá 2017 hafa þau verið ein með reksturinn. „Við erum af kynslóð sem er vön að vinna og börnin okkar og börnin þeirra Elvu og Sigga voru bara með í þessu. Sunnudagsbíltúrarnir voru ekki alltaf vinsælir því oftar en ekki lá leiðin í Sportver til að laga til á lagernum. Þá voru börnin líka fyrirsætur í bæklingum fyrir verslunina og þau unnu sér inn vasapeninga með því að hjálpa til við að dreifa þeim um Akureyri og í nágrannasveitarfélögin,“ segir Linda og heldur áfram að rifja upp fyrstu árin: „Lánastofnanir höfðu litla trú á okkur á þeim tíma þegar við vorum að byrja og við fengum enga fyrirgreiðslu. Við þurftum því að staðgreiða allt frá birgjum þannig það var lítið um laun í byrjun.“

Sunnudagsbíltúrarnir voru ekki alltaf vinsælir því oftar en ekki lá leiðin í Sportver til að laga til á lagernum. Þá voru börnin líka fyrirsætur í bæklingum fyrir verslunina og þau unnu sér inn vasapeninga með því að hjálpa til við að dreifa þeim um Akureyri og í nágrannasveitarfélögin.

Auglýsing úr Æskunni. Russell Athletic íþróttafatnaðurinn var algjört æði á sínum tíma. Mynd:timarit.is

Russell æðið kom undir þau fótunum

Aðalsmerki Sportvers var á þessum tíma Nike-íþróttavörur, en það sem kom rekstrinum virkilega á flug var Russel-æðið í kringum 1996-97. „Þetta voru bandarískir íþróttagallar sem allir urðu að eignast. Þeir urðu algjört tískuæði og við höfðum ekki undan að panta inn. Allir urðu að eignast Russell Athletic-galla, ef ekki einn þá tvo eða þrjá. Það má eiginlega segja að þetta æði hafi komið undir okkur fótunum.“

Á þessum tíma voru Adidas-íþróttavörur eingöngu seldar á Akureyri í versluninni Toppmenn og Sport sem Þorvaldur Hilmarsson rak ásamt Áskeli Gíslasyni. Verslunin var þá til húsa að Skipagötu 1 og var töluverð samkeppni á milli þessarar verslunar og Sportvers. Svo fór að eigendur Sportvers keyptu sig inn í reksturinn hjá Toppmenn og Sport árið 2002 og tóku svo alfarið við rekstrinum tveimur árum seinna. Verslunin var í kjölfarið færð frá Skipagötunni yfir í Amaro-húsið þar sem rekstrarformið breyttist árið 2019 þegar fyrirtækið gekk til liðs við skandinavísku verslunarkeðjuna Sport24.

Þetta voru bandarískir íþróttagallar sem allir urðu að eignast. Þeir urðu algjört tískuæði og við höfðum ekki undan að panta inn. Allir urðu að eignast Russell Athletic-galla, ef ekki einn þá tvo eða þrjá. Það má eiginlega segja að þetta æði hafi komið undir okkur fótunum.

Á Glerártorgi áður en verslunarmiðstöðin opnaði

Eins og áður segir byrjaði Sportver sinn rekstur í Glerárgötunni en árið 1997 flutti verslunin þaðan yfir að Dalsbraut 1,  þar sem Glerártorg stendur núna. Árið 2000 flutti Sportver svo niður á Óseyri á meðan Glerártorg var í byggingu en kom svo inn á Glerártorg í október árið 2000. Í raun má því segja að Sportver hafi verið á Glerártorgi mun lengur því verslunin var áður til húsa í eigin húsnæði sem stóð á byggingarlandi Glerártorgs. Þegar uppbygging verslunarmiðstöðvarinnar hófst tryggði Sportver sér góðan leigusamning inni á Glerártorgi í 500 fm verslunarplássi í staðinn fyrir húsnæðið á Gleráreyrum og var því ein fyrsta verslunin sem flutti inn í verslunarmiðstöðina þegar hún opnaði.

Í tilefni af 30 ára afmælinu verða ýmis tilboð í boði hjá Sportveri og Útisport út árið. „Við erum þegar byrjuð með frábær tilboð á reiðhjólum, þar sem Giant/Liv Europe er að gefa okkur sérafslætti í tilefni afmælisins sem viðskiptavinir fá að njóta,“ segir Egill. Mynd: Skapti Hallgrímsson 

Allur rekstur nú kominn á sama stað

Haustið 2023 færði síðan Sportver sig um set innan Glerártorgs og opnaði þar enn stærri og glæsilegri verslun. Í kjölfarið voru síðan aðalmerkin, sem höfðu verið til sölu í Sport24, færð inn í nýju verslunina á Glerártorgi og verslunin í miðbænum var lögð niður. „Það var einfaldlega hagkvæmara að hafa þetta allt á sama stað og svo hefur miðbærinn líka verið að breytast. Hann hefur verið að byggjast upp meira fyrir ferðamenn með veitingastöðum, gistirýmum og ferðamannaverslunum,“ segir Linda og Egill bætir við að það hafa verið rökrétt skref að færa starfsemina alfarið á Glerártorg. Þá hafði Útisport verið deild innan Sportvers sem hafði vaxið það mikið að árið 2020 ákváðu þau hjónin að opna sérverslun fyrir þá deild við Dalsbraut. Samhliða stækkun Sportvers á Glerártorgi færði Útisport sig svo af Dalsbrautinni og inn á Glerártorg árið 2024 og þar með færðist allur rekstur þeirra hjóna alfarið inn í verslunarmiðstöðina. „Þá var jafnframt ákveðið að að bæta við skíða- og brettadeild hjá Útisport og auka þannig við úrvalið af vetrartengdri vöru,“ segir Egill. Þau segja að breytingarnar sem farið var í hjá Sportver árið 2023 hafi verið mjög spennandi og þau séu stolt af versluninni eins og hún er í dag. „Með breytingum fengum við aðgengi að fleiri tískutengdum íþróttavörum. Þá er líka gaman að öll starfsemin okkar er aftur komin á sama stað og við Egill aftur farin að vinna í sama húsi,“ segir Linda.

Fullorðnir sem keyptu hjól þegar við vorum að byrja með Sportver og hjóluðu á því allt árið voru mjög fáir. Þá voru aðalviðskiptavinirnir krakkar og unglingar sem notuðu hjól sem fararskjóta yfir sumartímann. Þetta hefur sannarlega breyst.

Ráku barnafataverslun um tíma

Verslun Sportvers á Glerártorgi er núna um 800 fm að stærð og verslunin Útisport við hliðina um 300 fm, svo samanlagt eru þau hjónin með verslunarrekstur í 1100 fm af húsnæði Glerártorgs. Gaman er að rifja upp að Sportver var ein af fyrstu verslununum sem fluttu inn í verslunarmiðstöðina á Glerártorgi þegar hún opnaði árið 2000 en á sama tíma opnuðu eigendurnir einnig barnafataverslunina Rollinga á Glerártorgi. Barnafataverslunina ráku þau í ár í samstarfi við heildverslun Ágústs Ármanns í 70 fm plássi við hliðina á Sportver. „Á þeim tímapunkti fengum við til liðs við okkur hana Sillu sem hefur staðið traust við hliðina á okkur í 25 ár,“ segir Linda.


Hjónin Linda og Egill ásamt Sillu, Sigurlaugu Stefánsdóttir, sem starfað hefur hjá þeim í 25 ár. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Rafhjólin sannað sig sem ferðamáti

Í dag er sala á reiðhjólum stór þáttur í rekstri þeirra hjóna, en reiðhjólin voru í raun það sem kveikti neistann í upphafi fyrir verslunarrekstri þeirra, eins og áður segir. „Það hefur orðið algjör viðsnúningur í hjólunum. Fullorðnir sem keyptu hjól þegar við vorum að byrja með Sportver og hjóluðu á því allt árið voru mjög fáir. Þá voru aðalviðskiptavinirnir krakkar og unglingar sem notuðu hjól sem fararskjóta yfir sumartímann. Þetta hefur sannarlega breyst,” segir Egill og bætir við að nú er fullt af fólki sem hjólar allan veturinn og setur bara nagladekk undir hjólin. „Þá voru meiri fordómar í byrjun gagnvart rafhjólunum sem nú eru alveg horfnir enda hafa rafhjólin heldur betur sannað sig sem ferðamáti og breytt miklu í því að koma á jafnvægi. T.d. geta hjón sem ekki eru á sama getustigi nú hjólað saman. Það er hægt að fara allt á rafmagnshjóli, það er bara hausinn sem segir stopp,“ segir hann.

Það er ekki hægt að sleppa þeim hjónum án þess að spyrja þau út í hver sé annars draumurinn eftir svona mörg ár í verslunarrekstri? „Ætli draumurinn sé ekki sá að við náum að halda áfram með stæl og þegar kemur að því að segja þetta gott að það séu einhverjir tilbúnir að taka við keflinu,“ segir Egill og Linda bætir við: „Þetta er jú eitt af börnum okkar sem hefði ekki vaxið svona vel úr grasi nema vegna þess að við höfum haft frábært starfsfólk og trausta viðskiptavini, án alls þessa fólks hefði þetta aldrei orðið að veruleika.“