Rólegt um hátíðarnar við heimskautsbaug
Heldur rólegt en afar góðmennt var í Grímsey um hátíðarnar, segir á vef Akureyrarbæjar. „Um 30 manns dvöldu í eyjunni og var haldið jólaball í félagsheimilinu Múla á milli hátíðanna auk þess sem árleg brenna var haldin á gamlárskvöld. Vont veður kom í veg fyrir að hægt væri að halda hátíðarmessu út í eyju á milli jóla og nýárs en til stóð að hún færi fram í félagsheimilinu. Þess í stað verður messað 6. janúar og af þeim sökum flyst föstudagsflugið sem vera átti 7. janúar fram um einn dag,“ segir þar.
Ferðamenn í svartasta skammdeginu
„Það verður stöðugt algengara að ferðamenn heimsæki Grímsey í svartasta skammdeginu þótt enginn hafi dvalið þar yfir sjálfar hátíðarnar að þessu sinni. Dálítið var um ferðamenn í desember og von er á fleirum nú strax í byrjun árs, sækjast þeir festir eftir að komast yfir heimskautsbauginn og skoða kennileitið Orbis et Globus / Hringur og kúla,“ segir á vefnum.
Þrjú gistiheimili eru opin í eyjunni allt árið auk verslunar og afþreyingar. Flogið er þrisvar sinnum í viku frá Akureyri á þessum árstíma og siglt frá Dalvík þrjá daga vikunnar og um miðjan mánuðinn bætist við fjórði dagurinn. Hægt er að skoða þjónustu og afþreyingu í Grímsey hér – á vef eyjarinnar.
Listaverkið Orbis et Globus / Hringur og kúla eftir Kristin E. Hrafnsson og Studio Granda.