Rokkararnir í Focus fóru á kostum – MYNDIR
Hollenska rokkhljómsveitin Focus hélt tvenna tónleika á Græna hattinum um helgina, á föstudags- og laugardagskvöld. Þetta er í þriðja skipti sem Thijs van Leer og félagar leika á staðnum og stemningin var ekki síðri en 2015 og 2017; frábær, í takt við frammistöðu tónlistarmannanna.
Stofnandi hljómsveitarinnar, van Leer, gefur ekkert eftir í söng, orgel- og þverflautuspili þótt orðinn sé 75 ára, hvað þá trommarinn Pierre van der Linden, tveimur árum eldri. „Besti trommari veraldar,“ sagði van Leer um það bil sem van der Linden lauk á að giska 10 mínútna, snilldarlegum einleik og enginn mótmælti því ... Hver og einn fjórmenninganna átti sviðið um stund á tónleikunum og tók slíkt sóló en hinir nutu með áheyrendum; van Leer settist til dæmis á stól við sviðið og brosti breitt á meðan van der Linden lamdi húðirnar.
Menno Gootjes fór hamförum á gítarinn og Udo Panekeet ekki síður á bassann. Thijs van Leer lék sjálfur á als oddi að vanda.