Fara í efni
Mannlíf

Hefðbundin, íslensk jól með handboltaívafi

Arnór Þór Gunnarsson og Jovana Lilja Stefánsdóttir á heimili sínu í Þýskalandi.

Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur verið atvinnumaður í Þýskalandi í áratug. Eiginkona hans er Jovana Lilja Stefánsdóttir, dóttirin Díana er átta ára og þeim fæddist sonurinn Alex Þór 29. nóvember síðastliðinn. Þau búa í bænum Haan, stutt frá Düsseldorf. Arnór skrifar pistilinn að beiðni Akureyri.net. Þetta er þriðja grein í flokki sem Akureyringar erlendis skrifa um jólahaldið.

_ _ _

Jólin okkar eru hefðbundin, íslensk jól. Við borðum hamborgarhrygg með sykruðum kartöflum, sósu og salati á aðfangadagskvöld. Ég geri ísinn sjálfur eftir alda gamalli hefð, uppskrift sem fengin er frá ömmu minni frá Ísafirði, og geri svo marssósu til að toppa eftirréttinn.

Þetta verða okkar tíundu jól í Þýskalandi, fyrstu jólin hér úti voru erfið þar sem ég og kærastan mín vorum bara ein, en eftir að dóttir okkar fæddist 2012 þá urðu jólin mikið auðveldari og auðvitað skemmtilegri.

Við höldum í hefðina með okkar íslensku jólasveinum fyrir dóttur okkar. Krökkunum í skólanum hennar finnst mjög spennandi að Díana fái þrettán sinnum í skóinn en þau bara einu sinni! Hérna í Þýskalandi kemur Nikulás 6. desember og gefur í skóinn og auðvitað höfum við byrjað á því fyrir Díönu til að vera með einhverja þýska hefð.

Um klukkan 12 á aðfangadag heimsækjum við Svíana sem eru með mér í liðinu eða þau koma til okkar. Við fáum okkur kannski einn bjór eða eitt rauðvínsglas og spjöllum saman.

Um kvöldið er borðað klukkan sex og um átta leytið eru pakkarnir opnaðir og hringt heim til Íslands til að þakka fyrir gjafirnar og spjallað við fjölskylduna.

Þessi Covid jól verða ekkert öðruvísi en önnur jól þar sem við erum oftast ein. Tengdamamma kom að vísu fyrir tveimur vikum og verður hérna hjá okkur til 29. desember, þannig að hún heldur jólin með okkur þetta árið.

Annars er mikið að gera hjá mér um jólin og í aðdraganda þeirra, margir leikir á dagskrá með tilheyrandi ferðalögum. Við reynum samt alltaf að hafa aðfangadag eftirminnilegan, viljum búa til minningar sem aldrei gleymast.

Við söknum þess auðvitað að halda jólin á Íslandi með fjölskyldum okkar og hlökkum mikið til að geta gert það í framtíðinni. 10 ár er langur tími en þessi 10 ár eru auðvitað eftirminnileg og lærdómsrík – og full af skemmtilegum minningum.

Gleðileg jól, kæru Akureyringar!
Arnór Þór

FYRRI GREINAR

Hildur og Hermann í Brüssel

Bjarki og Elín í Boston