Fara í efni
Mannlíf

„Reyni að vera dugleg, það er engin miskunn!“

Snjólaug Jóhannsdóttir: Ég kem oftast þrisvar á dag og hjóla samtals í tvo og hálfan tíma. Þær leyfa mér það – ég er svo frek! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Fulltrúar Hlíðar á Akureyri urðu í öðru sæti í alþjóðlegri hjólakeppni á milli hjúkrunarheimila sem stóð í fjórar vikur og lauk á föstudaginn. Akureyringarnir hjóluðu um langan veg en fóru þó hvergi; ferðuðust á staðnum á sérstökum hjólum fyrir framan sjónvarp og lögðu að baki um 10.500 kílómetra. Hjúkrunarheimili í Kanada sigraði í keppninni.

„Ég reyni að vera dugleg, það er engin miskunn!“ sagði einn hjólagarpanna, Snjólaug Jóhannsdóttir, þegar Akureyri.net sótti Hlíð heim á föstudaginn. Hún var með þeim duglegri. „Ég kem oftast þrisvar á dag og hjóla samtals í tvo og hálfan tíma. Þær leyfa mér það – ég er svo frek!“

Snjólaug segist hafa ákaflega gaman af því að hjóla, ekki síst vegna þess hve það sé góð hreyfing. „Þá hefur maður líka eitthvað fyrir stafni.“

Hjólað í Vancouver

Norskt fyrirtæki stendur fyrir keppninni. Það hannaði búnað sem gerir fólki kleift að hjóla á staðnum en njóta í leiðinni fallegs útsýnis með tilheyrandi hljóði. Búnaðurinn var þróaður með með eldri borgara í huga í því skyni að hvetja þá til meiri hreyfingar en ella.

„Hægt er að fara til margra landa og skoða landslag, borgi og bæi. Það eru nokkrar myndir frá Íslandi, þar á meðal frá Akureyri,“ segir Ásta Þórhallsdóttir, sjúkraþjálfari á Eflingu, sem hefur veg og vanda af keppninni.

Þegar blaðamaður staldraði blasti við sólríkur staður í útlandinu á sjónvarpsskjánum. Það reyndist Vancouver á Kyrrahafsströnd Kanada og svo skemmtilega vildi til að tveir af fjórum sem þá hjóluðu höfðu mikil tengsl við borgina.

„Ég hef komið þangað, fjórum sinnum,“ segir Snjólaug. Þar á hún nefnilega fjölda ættingja. „Systir pabba flutti út þegar hún var 17 ára og átti hvorki meira né minna en 12 börn. Þegar ég fór fyrst út hitti ég níu þeirra, en nú er þetta allt farið nema einn bróðir,“ segir hún, um þá kynslóð en afkomendur systkinanna eru fjölmargir eins og nærri má geta.

„Alsæl með annað sætið“ 

Hjúkrunarheimili í Kanada sigraði í hjólakeppninni sem fyrr segir. Ásta sjúkraþjálfari upplýsir að það megi fyrst og fremst þakka gömlum maraþonhlaupara sem býr á heimilinu og hjólar 12 klukkutíma á dag!

„Þeir í Kanada eru búnir að hjóla 14.000 kílómetra en við 10.500. Þessi eini maður í Kanada eru búinn að hjóla helminginn af öllum kílómetrunum! Það getur enginn keppt við hann, en við erum alsæl með annað sætið, enda taka þátt 240 lið frá 11 löndum.“

Um 60 keppa fyrir hönd Hlíðar, þar af voru 20 mjög duglegir, segir Ásta. „Fólk gerir sitt besta, og jafnvel aðeins betur ...“ segir hún.

Keppninni lauk á föstudag eins og áður sagði. „Það er aldrei að vita hvað maður gerir í næstu viku,“ segir Snjólaug í léttum dúr. Þá verður mikill tími aflögu miðað við síðustu fjórar vikur. „Kannski maður fari á flakk til Kanada og hitti manninn sem hjólar og hjólar. Hann gæti verið frændi minn!“

Keppnisskap

Torfi Leósson var hjólandi á sama tíma og Snjólaug. „Ég er ekki vistmaður, ég bý í Austurbyggðinni hérna rétt hjá og kem hingað yfir til að hjóla. Hef reyndar komið hér lengi; ég fór í bakaðgerð og ekki vildi betur til en svo að ég þurfti á sjúkraþjálfun að halda og hef verið hér síðan. Það held ég,“ segir Torfi.

Vancouver er enn á skjánum. „Þetta er himnaríki á jörð – var það að minnsta kosti á meðan við bjuggum þar,“ segir Torfi. Segja má að hann hjóli á „heimavelli“ því Torfi var búsettur í borginni í fjögur ár, frá 1957 til 1961. „Ég fór þangað í tækniskóla og til að kynna mér fjöldaframleiðslu í húsgagnasmíði,“ segir hann, en Torfi stofnaði ásamt fleirum húsgagnasmiðjuna Valbjörk á Akureyri, sem var landskunn á sínum tíma.

Ásta Þorsteinsdóttir, sjúkraþjálfari, er mjög ánægð keppnina og segir hjólreiðarnar gera heilmikið fyrir gamla fólkið. „Stemningin er mjög skemmtileg og meiri en venjulega. Þetta dregur fram keppnisskapið, fólkið hjólar lengra en áður og leggur meira á sig,“ segir Ásta.

Þetta er fjórða árið sem Hlíð tekur þátt í hjólakeppninni. Fyrsta árið varð lið heimilisins í fimmta sæti, þá í fjórða, í fyrra urðu Akureyringarnir í þriðja sæti og nú í öðru. Ekki er vafi á því að þeir taka þátt að nýju að ári. Af augljósri ástæðu ...

Torfi Leósson bjó í Vancouver í fjögur ár og hjólaði á „heimavelli“ á föstudaginn.