Fara í efni
Mannlíf

Rannvá Olsen tónlistarkennari

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

11. desember – Rannvá Olsen

Jólaminningar úr Færeyjum

Í minningunni um jólin og barnæskuna þá eru það margar ljúfar minningar sem skjóta sér fram. Ég man að ég gisti oft hjá föðurforeldrum mínum á þessum tíma þar sem að foreldrar mínir voru að vinna og ég var komin í jólafrí í skólanum. Amma mín hafði einstakan hátt að búa til jólahlýju með því að skreyta, kveikja á kertum, hlusta á jólakveðjur frá útlöndum á meðan jólabaksturinn fór fram, hlátur innanúr eldhúsinu þegar einhver kom í innlit í smá tesopa í hvíld úr bæjarrápi.

Jólastemning í bæjarrölti

Einn dagur fór í jólagjafaleiðangur og byrjaði ferðin frá Ulvarhúsinu í Nils Finsens götu og gengið var niður Áarvegin og allt kláraðist í einni ferð. Í minningunni var oft logn og smá snjór sem féll til jarðar um þetta bil. Fólk heilsaðist og tók sér tíma til að spjalla við hvert annað og hittumst í búðinni hjá Katrinu Christiansen, Essaba, Kissa og Mariu Poulsen.

Jólin og afmæli ömmu

Amma mín átti afmæli á aðfangadag og snemma morguns vaknaði ég við ilminn úr eldhúsinu þar sem hún bakaði afmælisbollur og bjó til heitt súkkulaði. Hún tók fram sparistellið sitt og fallegu dúkana sína og skreytti allt með listarinnar hefð og upp úr sjö byrjuðu gestirnir að koma. Kertaljósin loguðu allan þennan dag og hátíðleikinn hékk í loftinu. Seinna um kvöldið voru jólin haldin með allri fjölskyldunni með sinni venjuföstu dagskrá og matseðli sem næstum því mátti ekki breyta og allir fóru að sofa saddir, ánægðir og með þakklæti í huga yfir að geta varið jólunum með öllum þeim sem maður þótti vænt um og í friði og næði.

„Svo var keyrt út á spítalan í Tórshöfn þar lúðrasveitin í Hjálpræðishernum spilaði og söng fyrir þeim konum og börnum sem höfðu fæðst á jólanótt.“

En jólin voru ekki búin ennþá því að snemma á jóladag vaknaði maður, klæddi sig í nýju fötin sem maður hafði fengið í gjöf, og svo var keyrt út á spítalann í Tórshöfn þar lúðrasveitin í Hjálpræðishernum spilaði og söng fyrir konurnar og þau börn sem höfðu fæðst á jólanótt. Þetta var fyrir mér hápunkturinn á jólunum og ég veit að þessi hefð er ennþá í gildi bæði á jólunum og á páskadagsmorgun og þessar hefðir hafa einnig sinn sess enn þann dag í dag á mínu heimili. Með þessum orðum óska ég öllum gleðilegrar jólahátíðar.