Fara í efni
Mannlíf

Plöntur eru alltaf punkturinn yfir i-ið

„Lifandi plöntur gefa jarðtengingu og betri loftgæði innanhúss, þær eru oft punkturinn yfir i-ið þegar verið er að græja heimilið eða skrifstofuna,“ segir Bára hjá Býflugunni og blóminu. Mynd: SNÆ

Rifblöðkur, jukkur og peningablóm. Allt eru þetta pottaplöntur sem einu sinni ruku út hjá blómasölum. Í dag vill fólk hins vegar frekar aðrar plöntur á heimilið enda sveiflast smekkur fólks á blómum og plöntur í takt við tískusveiflur.

„Við erum búin að vera það lengi í þessum geira að við sjáum alveg og finnum þessar sveiflur koma. Núna eru það lifandi pottaplöntur sem eru í tísku, sem við fögnum, en einu sinni voru það silkiplöntur sem allir keyptu. Þó gerviblóm séu orðin mjög eðlileg og henta í sumum tilfellum betur en lifandi plöntur, þá vill maður sjá þessa breytingu sem verður á plöntunni við það að eitt gult blað dettur af eða grænt bætist við,“ segir Stefáni J.K. Jeppesen sem rekur blómaverslunina Býfluguna og blómið á Akureyri ásamt eiginkonunni Báru Magnúsdóttur. Bára tekur undir þetta og bætir við: „Lifandi plöntur gefa jarðtengingu og betri loftgæði innanhúss, þær eru oft punkturinn yfir i-ið þegar verið er að græja heimilið eða skrifstofuna.“

Býflugan og blómið er gjafavöru- og blómaverslun sem hefur verið starfrækt á Akureyri í tæp 26 ár. Til hægri má sjá tvær af tískuplöntunum um þessar mundir; Sómakólf og Hreindýrahornsburkna. 

Sómakólfur, Indjánafjöður og Hreindýrahornsburkni í tísku

Aðspurð hvaða pottaplöntur séu nú í tísku stendur ekki á svari hjá þeim hjónum. „Grænar plöntur eru málið núna frekar en blómstrandi. Til dæmis tegundir eins og Sómakólfur, Hreindýrahornsburkni, Tannhvöss tengdamamma og Indjánafjöður. Þegar nær líður vorinu vill fólk samt fara að sjá blómstrandi plöntur,“ segir Bára og skýtur inn í að þegar það var 9 stiga hiti á Akureyri um daginn í febrúar kom fólk í verslunina sem vildi fara að setja blóm í ker út á pall. Fólk hrífst með góða veðrinu og gleymir því að veturinn er ekki búinn. Hún heldur áfram; „Sómakólfurinn er með blöðrurætur sem safna vatni og skammta plöntunni vökva. Þetta er því mjög góð sumarbústaðaplanta því þú getur alveg skilið hana eftir í mánuð án þess að vökva hana.“

Þá nefna þau að albinóa plöntur með hvítum eða ljósum blöðum séu líka vinsælar um þessar mundir t.d. Sjómannsgleði. Sú planta þolir töluverða vanrækslu eins og Sómakólfurinn. Þá hafa plöntur sem lifa bara á loftraka verið vinsælar á baðhergjum en þær eru rótarlausar og þurfa aðeins úðun. „Skussarnir eiga fallegustu blómin á veturna því þeir gleyma alltaf að vökva en á veturna þá þurfa plöntur eiginlega enga vökvun. Þeir sem eru alltaf að hugsa um plönturnar eiga það til að ofvökva þær,“ segir Stefán.

Albinóaplöntur með ljósum blöðum á borð við þessa Sjómannsgleði eru vinsælar um þessar mundir.  

Gólfhiti ekki góður fyrir plöntur

Viðskiptavinir þeirra Báru og Stefáns eru með misgræna fingur og margir þeirra leita ráða hjá þeim. „Já fólk er oft að koma að spyrja okkur af hverju plantan sé svona eða hinsegin heima hjá þeim. Og þegar við förum að reyna að greina vandann þá sjáum við að plöntur sem eru á heimilum þar sem er gólfhiti hafa það heilt yfir verr en þar sem eru miðstöðvaofnar. Það er þurrara loft í íbúðum með gólfhita og í slíkum aðstæðum þarf að huga betur að rakanum, vera með rakatæki og úða sumar plöntur,“ segir Bára. Hún bætir við að oft kaupi fólk plöntur sem eru í tísku án þess að gera sér grein fyrir því hvað það þýðir að halda slíkar plöntur. Stefán nefnir rifblöðku (Monstera) sem dæmi en hún var mikið í tísku í covid. „Monstera ber nafn með rentu því plantan getur hreinlega rutt fólki út af heimilinu. Hún þarf alveg svakalegt pláss og er kannski ekkert sérstaklega falleg nema hún fái gott pláss til að njóta sín,“ segir Stefán. „Það kom hingað ein kona sem spurði hvort hún mætti ekki klippa allar loftræturnar af plöntunni því þær væri svo ógeðslega ljótar svona út um allt. Ég var að benda henni á að plantan nærist í gegnum þessar rætur því hún er sníkjuplanta sem þarf ekki mikinn jarðveg heldur notar ræturnar til að festa sig utan á tré og taka upp loftraka,“ segir Bára en þetta er bara eitt dæmi um það hvernig við Íslendingar áttum okkur ekki alltaf á þörfum trópískra plantna.

Plöntur sem eru á heimilum þar sem er gólfhiti hafa það heilt yfir verr en þar sem eru miðstöðvaofnar. Það er þurrara loft í íbúðum með gólfhita og í slíkum aðstæðum þarf að huga betur að rakanum, vera með rakatæki og úða sumar plöntur.

Hjón í blómabúðarekstri við stærstu plöntuna í versluninni. Umrædd Strelitzia planta er þriggja metra há og kom í verslunina fyrir mistök. Mynd: SNÆ

Fólk með minnst á milli handanna gjafmildast

Það er þó fleira sem viðskiptavinirnir ræða við hjónin í blómabúðinni en plöntuvandamál en þannig vilja þau einmitt hafa það því verslunin leggur mikið upp úr persónulegri þjónustu. „Bára var danskennari í mörg ár og tók það veganesti með sér úr dansinum að hún getur talað við alla,“ segir Stefán og bætir við að þau gantist stundum með að hún ætti að vera á sálfræðitaxta í blómabúðinni. „Blóm bæta og kæta, og fólk kemur og kaupir blóm bæði í gleði og sorg, og við verðum hluti af stórum og smáum stundum í lífi viðskiptavina okkar. Við erum að sinna mjög stóru svæði t.d. hvað útfarakransa varðar. Þegar við byrjuðum þá voru blómabúðir í öllum bæjarfélögum hér í kring. Á Ólafsfirði, Siglufirði og Húsavík, en nú er engin blómabúð á milli Akureyrar og Egilsstaða,“ segir Bára. Hún játar að með aldrinum sé hún orðin viðkvæmari og eigi alltaf erfiðara og erfiðara með að taka niður blómapantanir sem snúast um jarðarfarir hjá börnum og ungu fólki. „Ég tek það meira inn á mig,“ segir Bára einlæg. En sögurnar úr blómabúðinni eru líka margar afar fallegar og hjartnæmar. Bára nefnir dæmi um mann sem kom alltaf í blómabúðina á föstudögum og keypti reykelsi og blómvönd. Konan hans sem var látin hafði alltaf haft þennan sið og hann hélt honum við eftir andlát hennar. Þegar búið var að þrífa húsið fyrir helgina var blómvöndurinn settur á borðið og kveikt á reykelsi. Þá segir Bára að henni finnist áhugavert að fólk sem er með hvað minnst á milli handanna virðist gjafmildast. Það mætir oft með klinkið í verslunina til þess að gleðja sína nánustu. „Kannski á það minnst af því það er gjafmildast og er með stærra hjarta.“

Skussarnir eiga fallegustu blómin á veturnar því þeir gleyma alltaf að vökva en á veturnar þá þurfa plöntur eiginlega enga vökvun. Þeir sem eru alltaf að hugsa um plönturnar eiga það til að ofvökva þær.

Verslunin flutt fimm sinnum á 26 árum

Sögurnar eru ótal margar enda hafa hjónin rekið Býfluguna og blómið í tæp 26 ár og hafa því séð viðskiptavinina ganga í gegn um ýmislegt. „Það versta við það að vera búinn að vera í þessu svona lengi er þegar maður fer að sjá fasta viðskiptavini falla frá eða börnin sem komu með foreldrum sínum í búðina koma hingað með sínum eigin börnum. Þá áttar maður sig á því að maður er að eldast þó manni finnist maður alltaf vera eins,“ segir Stefán. Hann á sér mun lengri sögu í blómabransanum en bara í Býflugunni og blóminu, því áður en þau hjónin opnuðu eigin blómabúð var hann að vinna hjá Blómavali, fyrst í Reykjavík og svo á Akureyri.

„Ég kom á sínum tíma hingað norður úr Blómavali í Reykjavík til þess að reka verslun Blómavals sem opnaði í glerhúsinu við Hafnarstræti árið 1996. Þetta átti að verða miðstöð fyrir bæði ferðamenn og heimafólk með gróðri og veitingastað. Þessar hugmyndir voru svolítið á undan sinni samtíð, þetta hefði verið geggjað í dag enda er verið að byggja svona hús víða núna,“ segir Stefán.

Þegar Blómaval varð hluti af Húsasmiðjunni árið 1999 var spurning hvort fjölskyldan ætti að flytja aftur suður eða vera áfram á Akureyri. Bára er Akureyringur og Stefán á reyndar líka ættir að rekja norður en langafi hans, Stefán Stefánsson, var skólameistari Gagnfræðaskólans á Akureyri (sem síðar varð Menntaskólinn á Akureyri) 1908 - 1921. „En þá vildu synirnir ekkert flytja aftur suður svo úr varð að við opnuðum Býfluguna og blómið því þetta var það sem maður kunni og hafði gaman af,“ segir Stefán.

Bára hafði verið að vinna sem danskennari og hjá Náttúrufræðistofnun en ákvað að stökkva í djúpu laugina með eiginmanninum. Verslunin var fyrst opnuð í Glerárgötunni, við hliðina á gamla Ásprenti, en hefur á þessum tæpum 26 árum flutt fimm sinnum. „Við höfum alltaf verið í leiguhúsnæði og alltaf náð að vera í fjögur ár á öllum stöðum áður en húsnæðið hefur verið selt. Svo síðast þegar selt var ofan af okkur þá ákváðum við að annað hvort myndum við bara hætta rekstri eða kaupa eigið húsnæði. Þá bauðst okkur þetta húsnæði að Dalsbraut 1 og við keyptum það og þetta er fimmta árið okkar hér.“

Hjónin voru rétt búin að kaupa húsnæðið þegar covid skall á. „Covid var ekki slæmur tími fyrir okkur því þá voru allir heima að rækta garðinn sinn. Þessi ræktunaráhugi landans hófst eiginlega í heimsfaraldrinum því þá fóru allir að reyna að hafa eitthvað fyrir stafni heima,“ segir Stefán og bætir við að fólk sé enn mikið að sá og rækta sjálft, það hafi ekki dvínað.

Blóm bæta og kæta bæði í sorgum og sigrum lífsins. Mynd: SNÆ

Draumur um dreitil úr eigin vínvið

Talið berst aftur að tískuplöntum og hvers vegna sumar tegundir ná vinsældum á heimilum fólks en aðrar ekki. „Ef einhver vinsæll áhrifavaldur byrjar að babbla um ákveðna plöntu þá má alveg búast við því að sú planta verði vinsæl, við höfum alveg slíkar holskeflur,“ segir Stefán. En svo eru til plöntur sem virðast alltaf vera í tísku, a.m.k hjá ákveðnum hópi. „Hamingju bambus (Lucky bamboo) var um skeið tískuplanta hjá Íslendingum en fólk frá Asíu kaupir hana enn og gefur þegar vinir og ættingjar flytja á milli húsnæða því plantan færir heimilinu svo mikla gæfu,“ segir Bára.

Það er ekki hægt að sleppa hjónunum án þess að spyrja þau út í það hvaða plöntur þau hafi sjálf á sínu heimili. Segja þau að heimili þeirra sé sannarlega ekki fullt af blómum eins og einhverjir myndu eflaust halda. „Við erum það mikið innan um blóm og plöntur í vinnunni að okkur finnst gott að fara í annað umhverfi heima en vissulega er heimili okkar ekki plöntulaust," segja þau. Nýlega létu þau byggja glerskála við húsið sitt og þar hefur Stefán sett niður nokkrar vínberjaplöntur. „Ég sé í hyllingum fyrir mér að í framtíðinni sitji ég úti í glerhúsi undir vínviðnum með glasið tilbúið,“ segir Stefán og Bára bætir kímin við; „Það þarf bara að kreista þrúgurnar ofan í glasið“, og þar með er botninn sleginn í þetta spjall með draum um dreitil úr eigin vínvið.