Fara í efni
Mannlíf

Plöntubingó í Krossanesborgum

Krossanesborgir eru eitt af uppáhalds útivistarsvæðum Akureyringa, en um þessar mundir eru 20 ár síðan svæðið var friðað sem fólkvangur. Endanleg staðfesting þess efnis var gefin út í janúar árið 2005. Þar er blómlegt fuglalíf, en samkvæmt vef Umhverfisstofnunar verpa um 27 tegundir fugla þar árlega. Gróðurinn er líka mjög fjölbreyttur, sama heimild segir að það hafi fundist 190 mismunandi plöntutegundir á svæðinu. Enda mikið um votlendi á milli ávalra klappana sem rísa upp úr borgunum. 

Það er óneitanlega farið að verða napurt, enda stutt í að september gangi í garð. Það er þó upplagt að gera sér ferð í Krossanesborgir á afmælinu. Þó að mörg af blómum og plöntum sumarsins séu farin að láta á sjá, á það svo sannarlega ekki við um þau öll.

Blaðamaður fór í síðdegissólinni og tók myndir af tuttugu plöntum af ýmsu tagi í Krossanesborgum, og hér er svo hægt að ná sér í 'Plöntubingó', sem væri ef til vill gaman að prenta út og fara svo í ævintýraleit með fjölskyldunni. Bingóið virkar þannig að þegar þú finnur plönturnar á myndinni, krossar þú yfir á blaðinu og heldur áfram leitinni. Kannski finnur þú allar tuttugu!

Lesendur geta látið ljós sitt skína á Facebook síðu Akureyri.net, þar sem væri gaman að heyra frá þeim sem eru fróð um plöntur - hvað þessir meistarar heita. 

  • Hægrismelltu á myndina hérna fyrir neðan til þess að niðurhala henni.