Fara í efni
Mannlíf

Pakkaður jólafundur Maltviskífélagsins

Stjórn Maltviskífélags Norðurlands, f.v.: Björn Grétar, Snorri Guðvarðar, Daníel Starrason, Elvar Freyr og Bjarni Helgason. Mynd RH

Rúmlega sjötíu manns safnast saman á ísköldu miðvikudagskvöldi í desember. Staðurinn er Vitinn á Akureyri og innan skamms munu gestirnir ekki þurfa að hafa áhyggjur af kulda, vegna þess að flestir ætla að smakka að minnsta kosti eina, og allt upp í níu tegundir af viskí þetta kvöld. Það hleypir yl í jafnvel köldustu hjörtu. Blaðamaður Akureyri.net fékk boð á þennan hátíðlega fund og tók myndavélina með. 

Daníel Starrason kynnir fyrstu smakk-flösku kvöldsins. Mynd: RH 

Maltviskífélag Norðurlands hittist einu sinni í mánuði, alltaf fyrsta miðvikudag mánaðarins. Vitinn er þeirra heimahöfn og þar er snæddur ljúffengur kvöldverður að hætti hússins áður en dagskrá fundarins hefst formlega. Desemberfundurinn, eða jólafundurinn er yfirleitt fjölmennastur, segir Snorri Guðvarðarson, sem er einn af stjórnarmeðlimum félagsins.

Sessunautur minn er kona að nafni Hjörtína og hún segist hafa fallið algjörlega fyrir viskíinu, en á milli sjússa grípur hún í prjónana sína.

Blaðamaður var þjakaður af fordómum fyrir fundinn og bjóst ekki við því að sjá eins margar konur og raun ber vitni. Sessunautur minn er kona að nafni Hjörtína og hún segist hafa fallið algjörlega fyrir viskíinu, en á milli sjússa grípur hún í prjónana sína. Félagahópurinn er gríðarlega fjölbreyttur en myndar skemmtilega og litríka heild.

Viskíið er borið fram í sérmerktum, fallegum glösum. Á bak við glasið glittir í prjónadót sessunautar blaðamanns. Mynd: RH

Heimasíðan Guðaveigar sem aldrei varð

„Mig langaði til þess að deila viskíást minni með einhverjum,“ segir Snorri, aðspurður um tilurð félagsins. „Ég hafði hugsað mér upphaflega að vera með heimasíðu til heiðurs viskí sem átti að heita Guðaveigar. Það varð ekki, en hins vegar kynntist ég frábærum drengjum, sem gætu reyndar verið synir mínir, sem deildu ástríðu minni á viskí.“ Þar á Snorri við félaga sína í stjórn Maltviskífélagsins sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Upp úr þeirra vinskap varð félagið til árið 2018. „Það var strax mikill áhugi, við auglýstum bara inn á fésbókinni og það voru um það bil sextíu félagar skráðir upphaflega,“ segir Snorri. Félagið er aldeilis búið að blómstra og vaxa og nú, fimm árum síðar, sitja sjötíu manns rúmlega við átta hringborð á Vitanum og sötra viskí í sameiningu.

Snorri í góðra vina hópi á Vitanum. Mynd: RH

„Árgjaldið okkar er fimm þúsund krónur, og síðan borga félagar vægt verð fyrir hvern sjúss af flöskunum. Þannig getum við haldið áfram að kaupa flöskur og rekið félagið“

„Yfirleitt borðum við saman hérna á Vitanum á milli 19 og 20, en síðan hefst dagskrá fundarins. Við byrjum á því að kynna tvær eða þrjár flöskur sem allir félagarnir hafa valið í sameiningu í facebook-hópnum okkar,“ segir Snorri. „Yfirleitt er það Daníel sem sér um að kynna flöskurnar og síðan smökkum við.“ Flöskur mánaðarins fara á barinn, en á hringborði inni í salnum er svo viskísafni félagsins stillt upp. „Árgjaldið okkar er fimm þúsund krónur, og síðan borga félagar vægt verð fyrir hvern sjúss af flöskunum. Þannig getum við haldið áfram að kaupa flöskur og rekið félagið,“ segir Snorri.

Gestabók félagsins er virðulegt eintak og algjört listaverk. Mynd: RH 

Hátíðlegur jólafundur

Það er ekki að spyrja að því að í ár er jólafundurinn einstaklega glæsilegur og vel sóttur. Kokkurinn býður upp á purusteik með öllu tilheyrandi og áður en borðhald hefst, ávarpar Snorri samkomuna og býður alla velkomna. Síðan fara gestirnir hver af öðrum eftir skipulagðri röð, byggða á borðaskipan, til þess að fá sér af matnum. Borðhaldið er óneitanlega hátíðlegt og á hverju borðinu á fætur öðru glymja við hlátrasköll og glaðar raddir.

Sumir drukku ekki dropa af áfengi á fundinum. Ekki ber á neinni ofdrykkju og fundi er slitið klukkan tíu.

Maltviskífélagið opið öllum

Snorri ítrekar að félagið er öllum opið og hægt er að finna félagið á hér á Facebook hér   eða hafa samband við einhvern í stjórninni. Blaðamaður kemst að því eftir stutta, óformlega könnun, að áhugi gestanna á hinum gyllta vökva er misjafn. Einhverjir taka þátt í félaginu vegna þess að það er svo skemmtilegur félagsskapur. Sumir drukku ekki dropa af áfengi á fundinum. Ekki ber á neinni ofdrykkju og fundi er slitið klukkan tíu. Þá fellur fólk í faðma og óskar félögum sínum gleðilegra jóla.

Flöskuborðið er miðpunktur fundarins. Hér geta félagar nælt sér í sjússa af uppáhalds viskíinu ef það er ekki á dagskrá í smakki. Mynd: RH 

Björn Grétar stóð vaktina á barnum og skenkti úr flöskum mánaðarins. Mynd: RH 

Félagar í Maltviskífélaginu fá jólagjöfina sína. Mynd: RH