Öskudagssýning á Minjasafninu
Sett hefur verið upp lítil öskudagssýning á Minjasafninu á Akureyri, í tilefni dagsins. Þar eru sýndir nokkrir búningar og munir sem tengjast öskudeginum á Akureyri í gegnum tíðina.
Fáir dagar setja jafn mikinn svip á bæjarlífið á Akureyri og öskudagur, eins og segir á heimasíðu safnsins, þar sem sjá má fjölda mynda frá öskudeginum á árum áður. „Þannig hefur það líka lengi verið. Börnin vakna snemma klæðast skrautlegum búningum og mynda hvert öskudagsliðið af öðru. Liðin arka um bæinn og heimsækja fyrirtæki, verslanir og stofnanir þar sem þau bjóða fram söngva í skiptum fyrir góðgæti. Flestir leggja metnað sinn í lagaval og fagran söng og af þeim sökum hafa farið fram margar fjörlegar æfingar dagana á undan. Uppskera þeirra verður einnig mjög ríkuleg þó deila megi um næringarfræðilegt gildi hennar. Eitt er víst að í febrúar eru nammidagar einum fleiri en venjulega.“
Á heimasíðu safnsins er fjöldi ljósmynda, úr safni KEA, frá ýmsum ljósmyndurum dagblaðsins Dagur og úr einkasöfnum.
Smellið hér til að skoða myndirnar.