Fékk kennslu á lífið frá afleitum fyrirmyndum – eldri bræðrunum!
Óskar Pétursson varð sjötugur í gær eins og kom fram á Akureyri.net. Fyrsti hluti hátíðarviðtals við þennan söngelska og lífsglaða Skagfirðing og bifvélavirkja birtist þá og hér er spjallinu haldið áfram. Þriðji hluti viðtalsins birtist á morgun og sá fjórði og síðasti á fimmtudaginn.
Þegar manneskja stendur á tímamótum, á borð við sjötugsafmæli, er ekki úr vegi að spyrja hvað sé eftirminnilegast hingað til. „Það var náttúrlega rosalega sérstakt að eignast þessa krakkaorma,“ segir Óskar hugsi. „Vera allt í einu kominn með einhverjar eftirprentanir. Það var stórfurðulegt. Mér fannst það vera töluvert álag, þó að það bitnaði náttúrulega minnst á mér.“
Jónína Sveinbjörnsdóttir, konan hans Óskars, sest hjá okkur þegar hér er komið sögu og minnist þess þegar þau hjónin eignuðust fyrsta barnið. „Manstu að þú tókst þér klukkutíma frí til þess að sækja mig á sjúkrahúsið?“ segir Jónína og þau hlæja. „Þú varst reyndar viðstaddur fæðinguna, sem var ekki endilega sjálfsagt á þessum tíma.“
- Í GÆR – Óskar 70 ára: Röddin að skána ef eitthvað er!
-
Á MORGUN – Ekkert merkilegra að vera söngvari en eitthvað annað
Óskar hlær og segir bleyjuskiptanámskeiðið eina fæðingarorlofið sem hann hafi fengið.
Óskar rifjar upp að hann hafi nú fengið ákúrur þennan dag í vinnunni, vegna þess að þetta klukkutíma frí sem hann fékk til þess að sækja konu sína og barn á sjúkrahúsið, dróst heldur á langinn. „Ég mætti ekki aftur fyrr en þremur tímum seinna, vegna þess að þarna kom kona til þess að kenna okkur hvernig ætti að skipta á gripnum og svoleiðis. Ég hafði verið allt of lengi í þessu fæðingarorlofi mínu!“ Óskar hlær enn og segir að þetta bleyjuskiptanámskeið hafi verið eina fæðingarorlofið sem hann hafi fengið. „En það var vel nýtt til fræðslu og var mjög eftirminnilegt!“
Blaðamaður verður að nýta sér það að hafa eiginkonuna viðstadda og aftur víkur umræðan að æskudögum Óskars. „Ég furða mig reyndar oft á því að þeir skyldu komast lífs af frá uppeldinu í Álftagerði,“ segir Jónína. „Þeir léku til dæmis lausum hala með haglabyssur og léku sér á dráttarvélum.“
Það var mikið líf og fjör í Álftagerði þegar Óskar var að alast upp. Hér eru Álftagerðisbræður í hljóðveri árið 2007 við upptökur á söng sem kom út á geisladiski. Frá vinstri: Sigfús, Óskar, Pétur og Gísli.
„Ég furða mig reyndar oft á því að þeir skyldu komast lífs af frá uppeldinu í Álftagerði,“ segir Jónína.
Blaðamaður, sem ofverndar börnin sín líkt og flest ungt fólk í dag, furðar sig á þessum upplýsingum og spyr hvort að Óskar hafi ekki örugglega átt foreldra. „Jú jú! Þau voru nú bara í öðru,“ segir hann og finnst ekki mikið mál að hafa byrjað að keyra traktor níu ára, eða um leið og hann náði niður á pedalana með þokkalegu móti. „Ég upplifði það nú reyndar að vera á heyvinnutækjum sem voru dregin af hestum. Ég var reyndar svo lítill að ég datt oft af þessum tækjum.“ Fyrsta dráttarvélin kom í Álftagerði þegar Óskar var sex ára.
Óskar segist hafa helst fengið kennslu á lífið frá bræðrum sínum sem hafi verið afleitar fyrirmyndir. „Ég lifi nú samt. Þeir bera því við að hljóðin í mér megi þakka fyrir það að ég hafi verið svo mikið pyntaður.“ Tæra tenórrödd drengsins má því rekja beint aftur í barnæsku, ef eldri Álftagerðisbræður eru spurðir.
Aumingja afi
Óskar minnist þess að þeir bræður hafi haft sérstakt yndi af því að hrella fjörgamlan afa sinn. „Við höfðum gaman af því að gera hann alveg brjálaðan,“ rifjar Óskar upp. „Við spiluðum mikið við hann og hann var svona svindlari, þoldi ekki að tapa, sjáðu til. Þannig að við urðum að svindla á honum líka. Svona gat þetta gengið þangað til hann varð alveg brjálaður. En þá átti hann það til að fá flog, vegna þess að hann var flogaveikur.“ Það fylgir ekki sögunni hvort að afinn hafi lifað af þessar spilastundir við barnabörnin, en Óskar tekur fram að karlinn hafi nú verið töluvert erfiður.
„Þeir bera því við að hljóðin í mér megi þakka fyrir það að ég hafi verið svo mikið pyntaður.“
Óskar fæst nú við það verkefni að gera upp gamla Volkswagen Bjöllu á verkstæði sínu, eins og fram kom í fyrsta hluta viðtalsins í gær. Hann fékk mjög snemma áhuga á vélum og tækjum.
Vélarnar og hundarnir heilluðu mest
Í Álftagerði var mikill búskapur og foreldrar Óskars voru bændur. „Við vorum með rollur, hesta og beljur. Allt í torfkofum fyrst, ég er nú fæddur í torfkofa.“ Óskar er fæddur 1953 og steinhúsið í Álftagerði er byggt 1956. „Ég hef alveg verið laus við að hafa þörf fyrir að vera bóndi. Ég hafði ekkert á móti því að vera innan um skepnur - en það voru tækin sem heilluðu mig mest. Ég var strax heillaður af því að grúska með dráttavélarnar og bílana.“ Af skepnunum voru það helst hundarnir sem Óskar var hrifinn af, en þeir voru miklir vinir hans. Sennilega kærkomin lognmolla í kring um þá, miðað við sögurnar af samskiptum við eldri bræður.
„Ég náði að gera eina traktorinn á bænum óganghæfan í hádeginu einn daginn. Bara með því að rífa hann í sundur og rugla öllu saman.“
Ástin á tólum og tækjum kviknaði snemma hjá Óskari, eins og áður sagði. „Ég byrjaði heldur snemma með einhverja tilraunastarfsemi,“ segir hann. „Ég náði að gera eina traktorinn á bænum óganghæfan í hádeginu einn daginn. Bara með því að rífa hann í sundur og rugla öllu saman. Það þurfti að fara með hann í viðgerð út á Krók þarna í miðjum heyskap.“ Óskar segist ekki hafa verið vinsæll eftir þetta fikt. „Mjög langt í frá! En ég hafði gaman af þessu. Ég hafði einhverja brennandi þörf fyrir að sjá undir húddið á þessu dóti og finna út úr því.“ Það voru ekki bara vélarnar sem heilluðu Óskar við bílana, það greip hann líka mikil númeradella á þessum árum. „Ég varð að muna bílnúmerin sem ég hafði séð. Og gerði það. Ég man þessi númer enn. Ætli það þyrfti ekki bara að greina mig með eitthvað!“ segir Óskar og hlær. „Förum varla að gera það úr þessu,“ bætir hann við.
Númerameistarinn
Flestir geyma símanúmer fólks í farsímanum sínum, en Óskar er ekki einn af þeim. „Það er alveg eins og með bílnúmerin, að ég man símanúmer. Og ég vil halda því við, þannig að ég geymi aldrei símanúmer, nema þá kannski hjá þeim sem ég þarf mjög sjaldan að ná í.“ Hins vegar segist Óskar vera einstaklega ómannglöggur, þannig að ef að mann skyldi langa til þess að vera eftirminnilegur í huga hans, væri ef til vill skynsamlegt að kynna sig frekar með kennitölu heldur en nafni.