Örugg á Akureyri eftir flótta frá Venesúela
Nazeh er frá Venesúela í norðurhluta Suður-Ameríku, en á einnig ættir að rekja til Sýrlands. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni; eiginkonu, tveimur börnum og frænda sínum, í Sómatúni á Akureyri. Ferðalag þeirra á þann stað sem þau eru á í dag hefur verið langt og á köflum mjög erfitt, en þau eru flóttafólk á Íslandi vegna óbærilegra aðstæðna í heimalandinu. Upphafið að þessu ferðalagi mætti rekja til þess, þegar Nazeh fékk þá hugmynd að opna eigið bakarí í borginni Barcelona í Venesúela.
Blaðamaður Akureyri.net ræddi við Nazeh. Fyrri hluti viðtalsins birtist í dag.
- Á MORGUN – „Þú býrð ekki í Venesúela. Þú lifir af. Einn dag í einu“
„Æska mín í Venesúela var góð. Mér leið vel. Þangað til að það var ekki hægt að búa þar lengur,“ segir Nazeh við blaðamann Akureyri.net. Aðstæður í landinu hafa breyst mikið á undanförnum árum, segir hann. Mikill pólitískur óstöðugleiki og kúgun hafi ráðið ríkjum, en Nazeh segir að spilling ríki í landinu og málfrelsi og réttlæti séu fjarlægur draumur. Sjálfur lenti hann í kúgun og hótunum frá glæpasamtökum sem hann segir að njóti stuðnings yfirvalda.
Fyrir utan bakarí Nazeh í Barcelona, Venesúela. Röðin náði lengst aftur fyrir húshornið. Mynd úr einkasafni Nazeh
15.000 snúðar á dag og farsæll einkarekstur
„Ég var búinn að eiga farsælan feril sem verkamaður, þar sem ég sá um að mála bíla og báta. Þegar ég svo hafði tök á því, lét ég drauminn rætast og stofnaði eigið fyrirtæki,“ segir Nazeh. Á þeim tímapunkti var hann giftur og átti tvö börn. „Ég hafði gaman af því að baka, þannig að ég ákvað að koma mér upp bakaríi. Kostnaðurinn við ofna og annan tækjabúnað var of mikill, þannig að ég bjó sjálfur til allt sem ég þurfti.“ Nazeh smíðaði stóra ofna og hefur á orði að hann hafi notað varahluti úr bílum, meðal annars. „Allt var sjálfvirkt og við bökuðum bara eina tegund,“ segir Nazeh. „Brauðið okkar var mjög svipað og snúðar hérna á Íslandi. Nema það var ekki glassúr, heldur sykurbráð ofan á. Snúðarnir okkar voru ofboðslega vinsælir. Þegar mest lét vorum við að selja um það bil 15.000 snúða á dag!“ Nazeh ljómar allur þegar hann segir frá bakaríinu. Hann er stoltur af því sem honum tókst að byggja upp.
Velgengni bakarans vekur athygli glæpasamtaka
Barcelona í Venesúela er stór borg, en tæp milljón manna búa þar við misgóðar aðstæður. Nazeh segir að brauðið sem þau seldu í bakaríinu hafi selst svona vel vegna þess að það var ódýrt, en líka vegna þess að það var mjög gott. „Um það bil tvö þúsund manns komu til okkar á dag til þess að kaupa brauð. Þegar Covid faraldurinn hófst, voru miklar samkomutakmarkanir í Venesúela, en okkur tókst samt að halda dampi,“ rifjar Nazeh upp. Um þetta leyti fór að síga á ógæfuhliðina hjá honum og bakaríinu, en vegna þess að það gekk svona vel að selja, þá fór þekkt glæpaklíka að kúga Nazeh um peninga.
Nazeh gat ekki borgað þannig að hann eftirlét glæpamönnunum bakaríið og flýði til Íslands.
„Þeir byrjuðu smátt. Ég vildi fara með málið til lögreglu, en það þýddi ekki neitt,“ segir Nazeh og ljóminn sem einkenndi svip hans þegar hann sagði frá snúðunum, fölnar skyndilega. „Þeir hótuðu að drepa fjölskylduna mína og mig ef ég myndi ekki hlýða. Ég vissi að þetta væru ekki innantómar hótanir vegna þess að það eru mörg þekkt dæmi um að þeir beiti ofbeldi ef þeir fá ekki sínu fram.“ Eftir stuttan tíma fóru glæpamennirnir að biðja um hærri upphæðir, en Nazeh hafði neyðst til þess að samþykkja kröfur þeirra. Glæpasamtökin eru fjölmenn og valdamikil í landinu. Nazeh segir þau fá vopn sín frá ríkisstjórninni og borgi fyrir það með því að halda mótmælendum gegn yfirvöldum í skefjum með öllum ráðum.
Brauðsnúðarnir sem Nazeh bakaði í bakaríinu sínu í Barcelona. 15.000 seldust á dag þegar best lét. Mynd úr einkasafni Nazeh.
Lagt á flótta
„Þeir fóru að biðja um meira og meira þangað til ég hafði ekki ráð á því að borga,“ segir Nazeh niðurlútur. „Einn daginn komu þeir í bakaríið til mín og heimtuðu stóra upphæð á einu bretti. Ég átti ekki slíka peninga. Þeir hótuðu mér, sögðust vita hvar dóttir mín væri í skóla, að þeir myndu fara og ræna henni þaðan ef ég myndi ekki borga.“ Nazeh gat ekki borgað þannig að hann eftirlét glæpamönnunum bakaríið og flýði til Íslands. „Ég kom konu minni og börnum í eins öruggt skjól og ég gat og fór einsamall að leita að nýju lífi fyrir okkur í öðru landi.“
Löng og grýtt leið til Íslands
Nazeh hafði verið á leið til Spánar, en tilviljanir réðu því að sjónir hans beindust að eyjunni köldu norður í Atlantshafi í staðinn. „Ég dreif mig til Íslands, en fjölskylduvinur hafði farið þangað og sagði að það væri tekið vel á móti fólki þar. Flugið var erfitt, mörg tengiflug og alls staðar vildu flugvallarstarfsmenn leita vel og lengi í farangrinum mínum.“ Nazeh minnist þess að hann var með lítinn bangsa í handfarangrinum sem dóttir hans, þá fjögurra ára, lét hann hafa þegar hann fór. Svo að hann þyrfti ekki að ferðast aleinn, sagði hún. „Kannski fannst öryggisvörðunum undarlegt að fullorðinn karlmaður, einn á ferð, væri með svona bangsa,“ segir Nazeh og hlær. Eflaust hefur ferðalagið verið þungt, að skilja fjölskylduna eftir á hættulegum stað og halda út í óvissuna í ókunnugu landi.
„Það eina sem ég hugsaði um var fjölskyldan mín sem ég varð að skilja eftir og það að tryggja öryggi þeirra. Sama hvar það væri.“
Þegar maður hefur ekki upplifað óöryggi í eigin landi, er erfitt að setja sig í spor flóttafólks. „Mér var í raun sama hvert ég var að fara,“ segir Nazeh, aðspurður um skoðun sína á áfangastaðnum. „Það eina sem ég hugsaði um var fjölskyldan mín sem ég varð að skilja eftir og það að tryggja öryggi þeirra. Sama hvar það væri.“
Akureyri góður meðalvegur á milli þorps og borgar
„Ég lenti á Íslandi 20. október 2021. Ég bjó fyrst um sinn í flóttamannabúðum fyrir sunnan, en 19. desember fékk ég samþykkta vernd á Íslandi. Þá flutti ég til Akureyrar,“ segir Nazeh. Hann segist ekki vera hrifinn af mikilli mannmergð og Akureyri sé góður meðalvegur á milli þess að vera þorp og borg.
„Ég held að ég hafi verið einn af þeim fyrstu sem kom hingað sem er frá Venesúla. Ég fékk vinnu um leið, ég fór að vinna á veitingastað en það gekk ekki alveg upp. Síðan fór ég að vinna hjá Sæplasti á Dalvík, þar leið mér ofboðslega vel. Starfsfólkið er yndislegt.“
Nazeh vann í tvo mánuði hjá Sæplasti en fjarlægðin við Akureyri var erfið til lengdar.
„Þá fékk ég loksins tækifæri til þess að vinna við eitthvað sem ég hef reynslu af og er góður í. Þegar það þarf að mála eitthvað sérstakt og flókið, þá er sent eftir mér.“
„Ég er stoltur af vinnunni minni“
„Félagsþjónustan hjá Akureyrarbæ hjálpaði mér mikið með húsnæði og vinnu. Ég er mjög þakklátur fyrir það,“ segir Nazeh. Eftir að hann hætti hjá Sæplasti fékk Nazeh vinnu í Slippnum. „Til að byrja með var vinnan erfið. Við vorum að mestu leyti úti við og ég var alls ekki vanur veðráttunni. En það vandist og ég hef náð góðum árangri í vinnunni,“ segir Nazeh, en hann hefur fengið stöðuhækkun og núna sér hann um málningarvinnu á skipunum, en hann vann einmitt við að mála bíla og báta í Venesúela áður fyrr.
„Þá fékk ég loksins tækifæri til þess að vinna við eitthvað sem ég hef reynslu af og er góður í. Þegar það þarf að mála eitthvað sérstakt og flókið, þá er sent eftir mér,“ segir Nazeh og það hljómar eins og Slippurinn hafi fengið réttan mann á réttan stað.
„Ég er stoltur af vinnunni minni, þau eru heppin með mig og ég er heppin með þau,“ segir Nazeh og brosir, loksins glittir aftur í ljómann sem einkenndi fas hans þegar hann sagði frá bakaríinu í Venesúela. „Í rauninni er ég ekki að vinna. Ég fæ bara borgað fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegt!“