Fara í efni
Mannlíf

Ódýrt flug, vinalegt fólk – en kalt

Færeyingarnir voru alsælir í Hlíðarfjalli. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Um helgina var á Akureyri 130 manna hópur frá Færeyjum til að renna sér á skíðum í Hlíðarfjalli. Sömuleiðis nýttu 110 Íslendingar sér flugið til baka og dvöldu í Færeyjum um helgina.

Í samtali við Akureyri.net sagði Jákup Bech Jensen, einn af eigendum ferðaskrifstofunnar Tur, að helgin hafi verið einkar ánægjuleg hjá hópnum. Þetta er tólfta árið í röð, fyrir utan síðasta ár vegna Covid, sem boðið er upp á slíkar ferðir til Akureyrar og í öll skiptin hafa hóparnir lýst yfir mikilli ánægju með upplifunina.

„Það er ekki alltaf hægt að vera á skíðum“, segir Jákup, en fólk hefur einnig til dæmis farið á skauta, skotist austur í Mývatnssveit og notið góðs matar á veitingastöðum bæjarins – „og þau elska það!“

Biðlisti í næstu ferð til Akureyrar

Það er önnur ferð frá Færeyjum til Akureyrar um næstu helgi. Hún er fullbókuð, sem þýðir að 171 manns hefur bókað sér ferð til Akureyrar; og biðlisti hefur myndast. Fólkið í hópnum sem er hér núna hefur verið duglegt að pósta upplifun sinni á Facebook við mjög góðar undirtektir, segir Jákup. Það sé þó viðbúið að einhverjir verði að hætta við för vegna Covid. Jákub á einnig von á að fleiri Íslendingar en nú muni nýta sér ferðina til Færeyja um næstu helgi.

Nú er veðurútlit ekki svo gott um allt land fyrir næsta sólarhring. Hafa Færeyingar áhyggjur af því að komast ekki heim?

Svarið var hressilegt og hiklaust: „Nei. Við erum víkingar eins og þið. Við erum ekki hrædd við neitt!

Og að sjálfsögðu flugu gestirnir heim til Færeyja seint í kvöld!

  • Að ofan: Jákup Bech Jensen og Rúni Hoygaard, sem skipulögðu skíðaferðina frá Færeyjum.

Færeyingarnir á Akureyrarflugvelli við komuna til landsins á fimmtudagsmorguninn. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.