Fara í efni
Mannlíf

Nýtt sjónarhorn á tóna og flugeldasýningu

Flugeldasýningin eftir Sparitónleikana á síðasta ári. Fólk skemmti sér í tívólíinu á meðan eins og sjá má ef vel er að gáð. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Á sunnudagskvöldið geta áhugasamir fengið alveg nýtt sjónarhorn á hina árlegu flugeldasýningu í lok Sparitónleikanna á flötinni neðan við Samkomuhúsið ef þeir stíga á skipsfjöl.

Hefð er fyrir því að Sparitónleikarnir á hátíðinni Einni með öllu um verslunarmannahelgina endi á flugeldasýningu sem Björgunarsveitin Súlur sér um. Við sama tækifæri hafa smábátar þá einnig flykkst út á Pollinn og kveikt á neyðarblysum. Nú bætir fyrirtækið Special Tours um betur og ætlar að bjóða upp á sérstaka skemmtisiglingu út á Pollinn fyrir þá sem vilja njóta þess horfa á flugeldana frá Pollinum þetta kvöld. Að sögn Ríkarðs Svavars Axelssonar, stöðvarstjóra Special Tours á Akureyri, er aðeins um þessa einu siglingu að ræða. Farið verður á tvíbitunni Lilju sem dagsdaglega er nýtt í hvalaskoðunarferðir hjá fyrirtækinu. Báturinn tekur 189 farþega og geta gestir setið bæði úti og inni og keypt sér veitingar á barnum.

Nýtt fyrirtæki á Akureyri

Siglingin tekur um tvær klukkustundir. Farið verður frá starfsstöð Special Tours við hliðina á Hofi og þaðan siglt inn í smábátahöfnina við Sandgerðisbót. Þaðan munu svo smábátaeigendur sem ætla kveikja á neyðarblysum á Pollinum elta Lilju inn á Pollinn. „Þetta er alveg nýtt fyrir okkur en við förum eins nálægt landi og við getum og reiknum með að heyra óminn af Sparitónleikunum,“ segir Ríkarð. Þess má að lokum geta að Special Tours er nýtt fyrirtæki á Akureyri en fyrirtækið, sem sérhæfir sig í hvalaskoðunarferðum, er líka með starfsstöð í Reykjavík. Skemmtisiglingin kostar 3500 krónur.


Skemmtisigling verður farin á Pollinn á sunnudagskvöldið á vegum Special Tours. Barinn verður opinn og hægt að njóta flugeldasýningarinnar og heyra óminn frá Sparitónleikunum frá borði.