Fara í efni
Mannlíf

Nýtt lag Röggu Rix: „Fæ mér ís þó það sé ískalt”

Akureyrski rapparinn Ragga Rix var að senda frá sér nýtt lag. Lagið kallast Sumar og fjallar um sumarið 2023.

Ragnheiður Inga Matthíasdóttir – þekkt sem Ragga Rix – ætlar að flytja nýja lagið á Sparitónleikunum um verslunarmannahelgina en hún treður þar upp ásamt tónlistarmönnum á borð við Frikka Dór, Birki Blæ og Herra Hnetusmjör.

„Þið megið eiga von á mega stuði og ekki væri leiðinlegt ef áhorfendur myndu syngja með. Textinn er í youtube myndbandinu svo það er hægt að æfa sig heima,“ segir Ragga. „Hugmyndin að þessu lagi kom einn daginn í sumar þegar það var búið að vera ömurlegt veður í fjóra daga í röð. En svo lét sólin sjá sig og ég ákvað þá að drífa mig út í ísbúð. Þegar ég var komin þangað var orðið skýjað og frekar kalt og ég var farin að sjá verulega eftir því að hafa skellt mér í stuttbuxur. Mér fannst þetta alveg fáránlegt atvik og datt þá viðlagið í hug: Sumar sumar sumar, átta gráður og skýjað! Þetta er Ísland! Fæ mér ís þó það sé ískalt ... Því þetta er týpískt íslenskt sumar! Restina af laginu samdi ég svo um hvernig sumarið mitt hefur verið og skellti í smá flex,“ segir Ragga Rix, sem segist þó nokkuð ánægð með sumarið þrátt fyrir að veðrið hafi ekki staðið undir væntingum undanfarið.

Lagið á Youtube

Lagið á Spotify