Nýtt fatamerki ungra hönnuða á Akureyri
CRANZ er nýtt fatamerki sem kynnt var á tískusýningu í Deiglunni á Akureyri um helgina. Hönnuðirnir á bak við CRANZ eru tveir 12 ára vinir, þeir Helgi Hrafn Magnússon og Kjartan Gestur Guðmundsson, og þeir ætla sér stóra hluti í bransanum.
Helgi Hrafn og Kjartan byrjuðu að hanna sín eigin föt undir nafninu CRANZ fyrir um einu og hálfu ári síðan. „Okkar föt eru flottari en það sem fæst í búðunum og það er líka bara skemmtilegra að búa til sín eigin föt,“ segir Kjartan þegar strákarnir eru spurðir út í það hvernig fatahönnunin hafi byrjað hjá þeim „Við kunnum alveg að sauma og eigum báðir saumavélar. Helgi hann á tvær, eina venjulega og eina overlock vél.“
Dæmi um hönnun CRANZ. Helgi Hrafn er fyrirsætan. Hægt er að sjá fleiri myndir á Instagram síðu CRANZ.
Endurvinna gamlar flíkur
Strákarnir hanna mest föt á sjálfa sig, en eins og sást á tískusýningunni þá hafa þeir líka hannað töskur og föt sem henta báðum kynjum. Þeir segja að þeim finnist skemmtilegast að sauma peysur og buxur en flest eru fötin endurhönnun á flíkum sem strákarnir hafa keypt eða fengið gefins hjá Rauða krossinum. Sumar flíkurnar eru þó unnar alveg frá grunni. Oft skissa þeir hugmyndir sínar upp áður en þær eru útfærðar, en stundum láta þeir bara vaða beint í saumaskapinn.
Tískusýningin í Deiglunni var lífleg og mikil tilþrif hjá strákunum sem sýndu fötin sjálfir ásamt tveimur öðrum fyrirsætum.
Önnur tískusýning framundan í Hofi
Aðspurðir út í stíl þeirra og fyrirmyndir þá segjast þeir vera hrifnastir af götutísku („street wear“) og þeirra helsta fyrirmynd er berlínska fatamerkið Huni.design. Þeir sem voru viðstaddir tískusýninguna í Deiglunni voru sammála um að hér væru á ferðinni efnilegir fatahönnuðir sem eru ekki bara hugmyndaríkir og áhugasamir um föt og tísku, heldur líka mjög metnaðargjarnir. „Við ætlum að vera með aðra tískusýningu á Akureyri í apríl á Barnamenningarhátíðinni. Hún verður í Hofi. Svo ætlum við að fara til Tókýó á næsta ári, á fashion week til þess að fá innblástur. Við ætlum að sækja um styrk fyrir tískusýningunni en svo erum við að bera út Dagskrána til að safna pening en flugmiðinn til Tókýó kostar 365 þúsund krónur,“ segja þessir upprennandi fatahönnuðir.
Fyrirsæturnar Kría og Hanna stóðu sig vel á tískusýningunni í Deiglunni. Hér eru þær í hönnun CRANZ.
Stuð ríkti á tískusýningu CRANZ. Það er vissara að leggja nafnið CRANZ á minnið því ungu hönnuðurnir ætla sér stóra hluti.