Norðurlandameistari byrjaði 45 ára í frjálsum

Anna Sofia Rappich er sjúkraþjálfari og íþróttakona. Hún er upphaflega frá Svíþjóð en hefur búið á Íslandi í tæp þrjátíu ár. Hún býr á Kristnesi, þar sem hún vinnur sem sjúkraþjálfari, en eftir að börnin hennar tvö fóru að heiman er hún ein með tveimur kisum. Anna lætur sér þó aldeilis ekki leiðast, en auk vinnunnar stundar hún hestamennsku og skíði. Svo fór hún heldur óvænt að æfa frjálsar íþróttir við 45 ára aldurinn. Það vatt upp á sig, og í dag er hún nýkrýndur Norðurlandameistari í flokki 60-64 ára í langstökki og spretthlaupi. Einnig hreppti hún silfur í stangarstökki, sem henni datt í hug að prófa heldur nýlega. Blaðamaður Akureyri.net þáði kaffibolla hjá Önnu í kyrrðinni í Kristnesi og forvitnaðist um þessa orkumiklu og síungu íþróttakonu.
Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Önnu Sofiu Rappich.
Á MORGUN – ÍÞRÓTTIR KRAKKANNA KVEIKTU Í KEPPNISSKAPINU
„Þetta var þriðja skipti sem ég hef farið á NM Norðurlandamót fyrir 30+,“ segir Anna, en mótið var haldið í Osló að þessu sinni, helgina 15.-16. febrúar. „Þetta er aldursflokkamót og ég er nýkomin í 60-64 ára flokk. Elsti flokkurinn er 95-100 og það var keppandi þarna sem var 95 ára! Ég er ekkert að grínast þegar ég segi að það er aldrei of seint að byrja!“ segir Anna, en hún náði sínum besta árangri hingað til á mótinu. „Það svo sjarmerandi í frjálsunum, hvað það er pláss fyrir alla.“
Ég er ekkert að grínast þegar ég segi að það er aldrei of seint að byrja
Anna náði frábæru starti í 60 m spretthlaupi á mótinu og bætti eigið Norðurlandamet með tímanum 8.88 sek. Mynd: aðsend
Íslenska liðið á mótinu taldi tólf keppendur, sem er mesti fjöldi sem hefur farið hingað til. „Sá yngsti keppti í 45-50 ára flokknum, en sá elsti keppti í 80-84 ára flokki, þannig að það er 40 ára aldursmunur innan okkar hóps og mikil stemning,“ segir Anna. Hún hefur áður keppt í langstökki og 60 metra spretthlaupi, en það eru sterkustu greinar Önnu, en í ár ákvað hún að reyna sig í stangarstökkinu líka. „Ég lenti í öðru sæti, en sú sem vann var mjög fagmannleg! Hún kom með sínar eigin stangir, þrjár mismunandi, en ég fékk bara lánaða einhverja stöng. Ég kann ekkert stangarstökk almennilega, en mér finnst það bara svo gaman!“
Bætti eigið Norðurlandamet
„Ég vissi að ég ætlaði ekki að gefa mig fyrr en ég fengi gullið!“ segir Anna um sigurinn í spretthlaupinu á mótinu, en hún varð önnur á síðasta móti sem var haldið í Reykjavík fyrir tveimur árum síðan. Hún bætti eigið Norðurlandamet í aldursflokknum, og hljóp á 8.88 sek. „Ég hef ekkert sett þetta á Facebook eða neitt, þetta snýst ekkert um það, þetta er allt saman bara fyrir sjálfa mig.“ Anna er bersýnilega hógvær og lítið fyrir að trana sér fram, en hún samþykkti þó viðtalið með það fyrir augum að geta kannski verið góð fyrirmynd fyrir aðra sem klæjar í lófana að fara að æfa íþróttir á fullorðinsaldri.
Anna hefur alltaf verið virk, segir hún, en hestamennska og skíði hafa fylgt henni um langt skeið. Myndir: aðsendar
Ævintýraferð til Íslands upphafið að öllu
„Ég kom fyrst til Íslands í einhverri ævintýramennsku árið 1991. Þá var ég með vinkonu minni og við fórum með fjallahjólin okkar í Norrænu,“ segir Anna. Hún kom svo aftur til Íslands árið 1994 og hefur ekki farið síðan, en hún kynntist barnsföður sínum, Þorsteini Egilson og ílengdist á eyjunni norður í hafi. Enn sér ekki fyrir endann á því, þó að leiðir hennar og Þorsteins hafi skilið. Anna segist elska að búa á Íslandi.
Mig grunaði nú reyndar ekki þá að ég yrði svona lengi á Íslandi, en mér líður svo vel hérna
„Þó ég hafi byrjað seint í frjálsum, hef ég alltaf verið mikið á hreyfingu,“ segir Anna. „Ég hef verið á kafi í skíðum og hestamennsku, auk þess sem ég var í fótbolta á yngri árum í Svíþjóð. Það var eiginlega enginn í frjálsum þar sem ég ólst upp, allir í fótbolta. Öll útivist er í rauninni áhugamál hjá mér.“
Börnin hennar Önnu, Sara og Jakob Atli, voru lítil þegar foreldrar þeirra skildu. „Ég flutti út, en Þorsteinn bjó á Grund í Eyjafjarðarsveit,“ segir Anna. „Ég fékk íbúð til leigu hérna í Kristnesi, þar sem ég var að vinna, og börnin fóru svo í leikskóla og skóla í Hrafnagili. Ég sætti mig bara við það, að setjast alveg að hérna á Íslandi, þar sem ég vildi ekki fara með börnin út og gat ekki farið frá þeim heldur. Mig langaði líka að vera og ég vissi að þetta var það besta fyrir okkur öll. Mig grunaði nú reyndar ekki þá að ég yrði svona lengi á Íslandi, en mér líður svo vel hérna.“
Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Önnu Sofiu. Á morgun birtum við seinni hlutann, og förum ofan í saumana á því, hvernig frjálsíþróttaferillinn byrjaði og hvernig frjálsar íþróttir fyrir fullorðna eru að sækja í sig veðrið.
Á MORGUN – ÍÞRÓTTIR KRAKKANNA KVEIKTU Í KEPPNISSKAPINU