Fara í efni
Mannlíf

Myndbandagleði boðuð í stað þrettándagleði Þórs

Frá þrettándagleði Þórs fyrir nokkrum árum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þrettándagleði Þórs verður ekki með hefðbundnum hætti að þessu sinni, vegna samkomutakmarkana og sóttvarnareglna. Í stað þess að fólk safnist saman á félagssvæði Þórs hefur verið ákveðið að halda einskonar rafræna þrettándagleði í formi myndbandaleiks. „Þið sendið inn, við birtum,“ segir á heimasíðu félagsins.

Þórsarar hafa staðið fyrir þrettándagleði í áratugi. Hún hefur tekið „ýmsum breytingum í gegnum árin. Allra síðustu ár hefur ekki verið eiginleg brenna né heldur flugeldasýning, en aðrir fastir liðir hafa haldið sér, eins og til dæmis heimsókn jólasveina, púka, trölla og svo auðvitað álfakóngs og álfadrottningar. Söngur og gleði hafa einkennt samkomuna undanfarin ár,“ segir á heimasíðunni. „Nú er staðan hins vegar þannig að við getum ekki boðað til samkomu á Þórssvæðinu, því miður. En við leggjum ekki árar í bát heldur boðum til rafrænnar þrettándagleði – myndbandagleði þar sem hugmyndaflugið fær að ráða ferðinni og sköpunargleðin fær lausan tauminn.“

Nánar hér um málið og sögu þrettándagleði Þórs