Mikill áhugi á að búa til eigin snyrtivörur
Aukin umhverfisvitund meðal almennings kallar á nýjar lausnir í neyslumálum. Það er ekki lengur hallærislegt að kaupa sér föt í Hjálpræðishernum og Rauða krossinum. Það sýnir einfaldlega að almenningur er í auknum mæli að líta sér nær og draga úr sóun. Húsgögn eru gerð upp í stað þess að kaupa ný og ýmsir munir öðlast nýtt líf. En hvað með snyrtivörur?
Margir kannast við að hafa keypt sér andlitskrem fyrir fúlgur fjár og á sama tíma velt því fyrir sér hvað sé raunverulega í þessari vöru og hvort dýr hafi verið notuð í tilraunaskyni við gerð hennar. Til allrar lukku hefur þó orðið vitundarvakning og úrval umhverfisvænna afurða orðið fjölbreyttara. Eftirspurn eftir vörum sem skaða ekki umhverfið er sífellt að aukast.
Fram úr björtustu vonum
Bryndís Óskarsdóttir (Dísa) grafískur hönnuður, matartæknir og markþjálfi og Brynja Birgisdóttir, snyrtifræðingur, markþjálfi og jógakennari hafa einlægan áhuga á að bæta líf sitt og annarra. Þær fóru að ráða ráðum sínum og prófa sig áfram við húðvöruhönnun. Því næst fóru þær með afurðina inn í klúbb Dísu, Úr geymslu í gersemi. Úr varð þróunarhópur þar sem fólki var kennt að búa til sínar eigin snyrtivörur úr eiturefnalausum hráefnum; sem auðvelt er að nálgast. „Aðsókn inn í þróunarhópinn fór fram úr björtustu vonum. Það var mjög gleðilegt að sjá hve áhuginn er mikill á þessari þörfu vakningu,“ segir Dísa í samtali við Akureyri.net.
Niðurstaðan varð sú að þær settu saman námskeið sem þær kalla Dekur alla daga. Þar sem þær kenna að búa til snyrtivörur fyrir allan líkamann. Á námskeiðinu fá þátttakendur aðgang að kennslugátt á heimasíðunni Dekuralladaga.com þar sem húðvöruhönnunin er kennd undir leiðsögn fagaðila.
Einnig er lögð áhersla á efnisnotkun, húðumhirðu og að líða vel í eigin skinni.
Samkennd og náungakærleikur
Dekur alla daga er með lokaðan Facebook-hóp þar sem zoom-fundi er streymt einu sinni í viku. „Þátttakendur eru dreifðir um allt land og elska að geta hist og spjallað um þetta sameiginlega áhugamál,“ segir Brynja, sem er búsett í Hafnarfirði, en var í heimsókn hjá Dísu í Skjaldarvík norðan Akureyrar á dögunum.
Dísa og Brynja segja að eftir því sem líður á námskeiðið eflist konurnar, fari að þekkja virkni hráefnanna betur og betur og verði öruggari í vörublönduninni.
„Bónusinn við þetta allt saman er svo samfélagið sem þær elska að vera í til að spyrja hver aðra, gefa ráð og spyrja okkur. Það er svo ótrúlega mikil samkennd og náungakærleikur í hópnum,“ segir Dísa.
„Það sem kemur þátttakendum mest á óvart er hvað þetta er fáránlega einfalt og virkar,“ bætir Brynja við.
Ef fólk hefur áhuga á að prófa, getur það farið inná www.dekuralladaga.com og kíkt á myndband þar sem þær kenna að búa til sitt eigið andlitsvatn.
Fyrir áhugasama má finna Dekur alla daga á Instagram og Facebook
Snyrtivörur úr smiðju þeirra Dísu og Brynju. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.