Fara í efni
Mannlíf

Metfjöldi sækir um í kennaradeild HA

Mynd af vef Háskólans á Akureyri

Í fyrra voru 30 ár síðan kennaradeild Háskólans á Akureyri var stofnuð, en markmiðið var að fjölga kennaramenntuðu fólki á landsbyggðunum. Í frétt á vef Háskólans segir að í ár hafi borist metfjöldi umsókna um nám í deildinni, en umsóknir voru 387 talsins og fjölgaði um 22% á milli ára. 

Þetta þýðir að háskólinn á Akureyri stefnir hraðbyri í 3000 stúdenta markið

„Við erum mjög ánægð með þessa aukningu enda þriðji stærsti árgangur frá upphafi,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor. „Þetta þýðir að háskólinn á Akureyri stefnir hraðbyri í 3000 stúdenta markið og hefur því vaxið stöðugt síðastliðin tíu ár. Háskólinn á Akureyri er svo sannarlega háskóli landsins alls og það sést á búsetu stúdentahópsins.“

Frestur til umsókna í skólann rann út þann 5. júní, og heildarfjöldi umsókna fjölgar um 7% frá því í fyrra og um 22% frá árinu 2022. Það eru fleiri deildir en Kennaradeildin sem eru óvenju vinsælar. Metaðsókn er í hjúkrunarfræði og fjölgun í grunnnám í sálfræði, en í þessum deildum eru takmarkarnir á fjölda nemenda þannig að eftir vormisseri fækkar í hópnum eftir samkeppnispróf, sem eru oft kölluð 'klásus'. 

Háskólinn er eini skólinn á landinu sem býður upp á BS gráðu í líftækni, en það er mikil aukning í fjölda umsókna. „Á undanförnum árum hafa fjölmörg líftæknifyrirtæki skotið upp kollinum á Íslandi og eftirspurn eftir útskrifuðum líftæknum er mikil,“ segir Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent og tilvonandi deildarforseti við Auðlindadeild.

HÉR má lesa alla fréttina um fjölgun umsókna á heimasíðu Háskólans á Akureyri.