„Menningin sýnir þér sál þjóðarinnar“
Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi, heimsótti Akureyri á dögunum. Akureyri.net notaði tækifærið og tók létt spjall við hana yfir kaffibolla.
„Algjörlega,“ svarar Clarissa þegar hún er spurð hvort henni finnist mikilvægt sem sendiherra að heimsækja staði utan höfuðborgarsvæðisins. „Það er mjög mikilvægt því sem sendiherra vinnur þú fyrir ríkisstjórnina og landið þitt og þú átt samskipti við stjórnvöld í landinu. Þú ert fulltrúi fyrir allt landið þitt, ekki aðeins stjórnmálin heldur einnig menninguna, efnahagsmál og fólkið. Til að sinna þessu starfi þarftu að hitta fólk og ekki aðeins fólk á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig fólk um allt land,“ segir hún og bendir á mikilvægi Akureyrar sem stærsta bæjarins utan höfuðborgarsvæðisins.
Menningin tengir þig við fólkið
Clarissa er nýlega komin til starfa sem sendiherra á Íslandi, raunar í hennar fyrsta embætti sem sendiherra því hún gegndi áður starfi konsúls Þýskalands í Marseille. Þar búa um 50 þúsund Þjóðverjar og starfslið konsúlatsins í Marseille er fjölmennara en það sem hún hefur til taks í sendiráðinu í Reykjavík.
„Ég er stöðugt í þessu öllu,“ svarar hún spurð um hve mikið hlutfall af starfinu snúist um stjórnmálin og hve mikið um annað, eins og menningarmál. „Menningin tengir þig við fólkið. Ef þú ert til dæmis meðvituð um hvað fólk er að gera í myndlist, kvikmyndum og leikhúsunum þá þekkirðu betur sál þjóðarinnar. Mér finnst Ísland svo heillandi staður af því þið hafið svo marga listamenn, svo marga tónlistarmenn. Það er ekki frumlegt af mér að segja þetta því það segja þetta allir. Ég kom hingað fyrst í ágúst og þetta eru fyrstu mánuðir mínir hérna, en ég er heilluð af framboðinu, menningarframboðinu. Menningin er leið til að tengjast fólki,“ segir Clarissa.
Heimsókn í Minjasafnið á Akureyri. Frá vinstri: Haraldur Þór Egilsson safnstjóri, Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi, Karl-Werner Schulte sem gaf Akureyringum stórmerkilegt safn af Íslandskortum, og Ragna Gestsdóttir safnfræðslufulltrúi á Minjasafninu. Ljósmynd: Hörður Geirsson.
Heppin að fá að vera á Íslandi
„Það hljómar svo undarlega að segja að þið séuð svo lítil, því þið eruð alls ekki lítil. Þetta er stórt land, heillandi land, en aðeins 380 þúsund manns gera þetta allt saman. Listrænt framboð er svo heillandi.“
Clarissa var í stuttri heimsókn á Akureyri og hafði meðal annars heimsótt Minjasafnið, sem heillaði hana, en hafði einnig kynnt sér fleira sem Akureyri hefur upp á að bjóða. Clarissa telur sig mjög heppna að fá að vera á Íslandi, sem sé frábær staður til að dvelja á. „Það eru fleiri og fleiri stríð í gangi í heiminum núna, mörg lönd takast á við áskoranir hvað varðar lýðræði. Það er mjög gott að vera á svona stað eins og Íslandi.“
Langar að læra íslensku
Clarissa var konsúll Þýskalands í Marseille eins og áður kom fram og notaði frönsku mikið í vinnu sinni þar. En hvað með íslenskuna, hyggst hún reyna að ná tökum á henni?
„Algjörlega. Það er pirrandi að geta ekki talað tungumálið. Það er erfitt að geta ekki lesið dagblöðin til að fylgjast með fréttum því mig langar virkilega að lesa meira en bara fyrirsagnirnar. Ég reiði mig á þýðingarþjónustu og það er bara smá hluti sem er þýddur af því sem er í gangi í landinu. Mig langar að sjá lengra en bara það sem stendur í fyrirsögnunum. Í fyrsta lagi langar mig að geta borið nöfnin ykkar rétt fram, nöfnin á bæjunum og stöðunum, og til að skilja landið betur finnst mér nauðsynlegt að læra tungumálið. Mig langar að leita að kennara til að læra dálítið. Ég veit ekki hve langt ég næ, en að minnsta kosti langar mig að geta borið nöfnin rétt fram og geta talað eitthvað. Ég get ekki búið hérna árum saman og haldið áfram að tala ensku þegar ég fer í búðir, ég verð að breyta því.“
Aðspurð segist Clarissa vonast til að verða jafnvel í fimm ár sem sendiherra á Íslandi. Venjulega er skipunartíminn þrjú ár, en á hennar aldri sé hann fjögur ár. „Það er alltaf verið að segja mér hve erfiðir veturnir eru hérna, en ég er enn jákvæð gagnvart landinu. Ég get ekki ímyndað mér, sama hve erfiðir veturnir verða, að þeir breyti áliti mínu á Íslandi, sem er mjög jákvætt.“
Mælir með heimildamynd um kvennaverkfallið
„Ég er fulltrúi stjórnvalda, ég má ekki fara í verkfall sem sendiherra,“ segir hún spurð um þátttöku í verkfalli kvenna og kvára nýverið. Sjálf átti hún bókaðan hádegisverð á þriðjudeginum sem ekki var hægt að fresta, en hádegisverðurinn varð hins vegar mjög afslappaður því fundir sem fólkið átti bókaða eftir hádegið voru allir færðir til vegna verkfallsins.
Hún segist hins vegar hafa orðið vitni að atburðinum og fundist mikið til koma. „Ég verð að segja að ég var vel undirbúin því ég er ein af fáum virðist vera sem hefur séð kvikmyndina The Day Iceland stood still. Hún var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík á þessu ári og fjallar um kvennaverkfallið 1975. Ef ég ætti að mæla með einhverju fyrir lesendur ykkar, endilega horfið á þessa mynd. Ég keypti miða á sýninguna því mig langaði að fræðast um Ísland árið 1975. Málið er að ég lærði mikið af henni og þetta er mjög góð og skemmtileg mynd, gaman að horfa á hana. Hún fjallar um allar þessar konur sem gerðu þetta árið 1975, segir sögur, fjallar um fólk í dag og hún er fyndin. Ég vona að hún komi fljótlega í kvikmyndahús því það er svo gaman að horfa á hana.“
Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi, og dr. Karl-Werner Schulte hittust í fyrsta skipti á Akureyri í liðinni viku. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Gott veður, gott útsýni, góð heimsókn
„Akureyri hefur tekið á móti mér með frábæru veðri og frábæru útsýni,“ segir Clarissa spurð um dvöl sína hér nyrðra. „Ein af ástæðum þess að ég kom í þessari viku er að herra Schulte er staddur hérna, sá sem gaf Minjasafninu safn sitt af sögulegum landakortum af Íslandi. Hann hafði beðið mig um að skoða safnið og ég vildi sjá þau í eigin persónu. Það gekk fullkomlega upp, ég gat komið hingað núna í vikunni og hitt hann.“
Clarissa var yfir sig hrifin að lokinni heimsókn á Minjasafnið, ekki aðeins vegna Íslandskortanna heldur heillaði safnið í heild og framsetning þess hana einnig. „Mér finnst að sérhvert íslenskt skólabarn ætti að heimsækja safnið, ekki bara ferðamenn, heldur Íslendingar. Þið eruð með fjársjóð hérna á Akureyri, ég vona að margir heimsæki safnið, mér finnst það heillandi,“ segir Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi.
- Umfjöllun Akureyri.net í gær um Íslandskortasafnið:
Einstakt kort bætist í Schulte safnið
Þýski sendiherrann hreifst af kortasafninu