Margt rætt og skapað í prjónaklúbbnum

Þriðjudagar og fimmtudagar eru handavinnudagar í Sölku, félagsmiðstöð fólksins í Víðilundi. Blaðamaður Akureyri.net heimsótti Sölku á dögunum og komst að því að þar eru tveir prjónaklúbbar sem hittast og prjóna á milli 9-12 þessa daga. Konurnar í klúbbunum segja það af og frá að það sé einhver rígur á milli klúbba, og meira að segja séu nokkrar sem flakki á milli til þess að missa ekki af neinu. Hér kynnumst við öðrum prjónaklúbbinum, en þær eru margar hverjar að prjóna bangsa fyrir sjúkrabílana eða fatnað fyrir Rauða krossinn.
„Það vantar reyndar tvær eða þrjár núna sem koma venjulega,“ segir Snjólaug Sigurðardóttir, sem fellst á það eftir stuttar samningaviðræður að tala fyrir hópinn. „Við erum að prjóna allt á milli himins og jarðar. Við framleiðum talsvert af böngsum fyrir sjúkrabílana, sem er mjög skemmtilegt verkefni. “
Á morgun kynnumst við hinum prjónaklúbbnum í Sölku:
- Á MORGUN – HITTAST Í SÖLKU OG PRJÓNA EINS OG VINDURINN
Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku. Fyrri umfjallanir:
- KYNNUMST BIRTU OG SÖLKU Í PÁLÍNUBOÐI
- HEKLAR KOLKRABBA FYRIR LITLAR HENDUR
- PÚLA Í HRÚTAKOFANUM Í GÓÐRA VINA HÓPI
Snjólaug, hér til vinstri á mynd, fellst á að tala fyrir hópnum í þetta skiptið. Ásta Margrét situr við hlið henni í sófanum og er að búa til ermi á peysu. Mynd: RH
Prjónahópurinn er líka öryggisnet
„Hér er allt rætt, daglegt líf, það sem er á döfinni í bænum og það sem skeður hjá hverri og einni,“ segir Snjólaug, og hinar taka jákvætt undir þegar blaðamaður spyr hvort þær séu þá ekki farnar að vita allt um líf og hagi allra í hópnum. „Jú,“ segir Ásta Margrét, sem situr hjá Snjólaugu í sófanum. „Og það sem meira er, þá fylgjumst við líka með og pössum við upp á hver aðra. Ef ein kemur ekki, sem alltaf kemur, þá athugum við málið.“
„Ég er til dæmis flogaveik og bý ein, þannig að ef ég kem ekki í hópinn þá athuga vinkonur mínar með mig,“ segir Lilja Guðrún. „ Það er mikið öryggi í því. Ég missti manninn minn 2023 og þessi hópur er mér afskaplega dýrmætur.“ Vinkonurnar búa út um allan bæ, en Lilja býr í blokkunum nyrst við Mýrarveginn. „Ég bý í bláa húsinu, en ég er ekki sjálfstæðismanneskja! Það er gott að taka það fram.“
Lilja Guðrún er hér til vinstri á myndinni. Hún er að prjóna sjúkrabílabangsa og framleiðir marga slíka sem gleðja að öllum líkindum þau börn sem þurfa að ferðast í sjúkrabíl. Sæunn Gestsdóttir situr hjá Lilju. Mynd: RH
Hér má sjá fríðan hóp sjúkrabílabangsa sem eru framleiddir af prjónahópum Sölku. Mynd: RH
Hlakka til þess að mæta í prjónaklúbbinn
„Það er lífsnauðsynlegt að ná sér í félagsskap á mörgum stöðum,“ segir Snjólaug, en hún og Ásta Margrét byrja alla daga á sundi. Þar er skemmtilegur hópur líka sem gerir sundæfingar. Á þriðjudögum og fimmtudögum fara þær þó snemma úr sundinu til þess að mæta í prjónahópinn. Ásta segir að sundið og prjónahópurinn gefi sér ofboðslega mikið, annars væri hún bara ein heima að prjóna.
„Ég hlakka alltaf mikið til þriðjudagsins, að hitta prjónahópinn og spjalla um það sem á daga okkar hefur drifið síðan síðast,“ segir Sæunn að lokum og hinar taka undir. Prjónatifið er einstaklega róandi og blaðamaður gæti vel hugsað sér að kúra hérna ofan í sófann og hlusta á skrafið í konunum í takt við prjónana. Prjónaklúbbarnir í Sölku eru opnir öllum, og ef einhver er að lesa sem situr oftar en ekki ein við prjónaskap, væri þjóðráð að koma í Sölku og setjast með þessum hlýju konum. Maður er manns gaman.
Í prjónaklúbbinn þennan daginn voru mættar Snjólaug Sigurðardóttir, Ásta Margrét Eggertsdóttir, Lilja Guðrún Finnbogadóttir, Kolbrún Ásta Ingólfsdóttir, Sæunn Gestsdóttir og Þórveig Hallgrímsdóttir.
Fátt er fallegra en hendur sem hafa unnið margt og skapað. Mynd: RH
Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku. Fyrri umfjallanir: