Fara í efni
Mannlíf

Margra grasa kennir á Jólatorginu

Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Jólatorgið á Ráðhústorgi er opið um helgina og þar kennir margra grasa. Í skreyttum jólahúsum verður til sölu ýmis varningur sem minnir á  hátíðina framundan, hvolpasveitin mætir í jólaskapi til að skemmta yngstu gestunum og jólasveinar verða einnig á ferðinni. Tónlistarfólkið Jónína Björt og Valmar Väljaots, sem og Barnakór Akureyrarkirkju, flytja jólalög.

Meðal annarra verða á torginu í dag og á morgun þessir sjálfboðaliðar  á vegum Rauða krossins að selja Velferðarstjörnuna til styrktar Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis. Jólatorgið er opið til kl. 17.00 í dag og aftur kl. 13.00 til 17.00 á morgun.

„Þetta er fjölþjóðlegur hópur sjálfboðaliða á vegum Rauða krossins að selja Velferðarstjörnuna auk auk þess sem sjálfboðaliðar úr prjónahópnum selja prjónavörur og Sigurður H. Ringsted er hér að selja dagatöl sem hann hannaði sjálfur til styrktar mannúðarstarfs,“ segir Róbert Theodórsson, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð, við Akureyri.net á torginu eftir hádegi, og bætir við: „Frír kakóbolli með hverri seldri stjörnu!“

Á myndinni eru, frá vinstri: Noelia, Laura, Sigurður, Sergii, Osama, Ragnhildur, Bryndís Alena og Róbert.

Sigurður H. Ringsted með dagatalið sem hann hannaði og lét prenta og selt er til styrktar Rauða krossins við Eyjafjörð. 

Dagatalið sem Róbert nefndi hannaði og lét prenta Sigurður H. Ringsted sjálfboðaliði Rauða krossins við Eyjafjörð, til styrktar Rauða krossins við Eyjafjörð. Dagatalið er prýtt fallegum myndum sem hann tók sjálfur af fuglum. Allur ágóði af sölu þess rennur til mannúðarstarfs deildarinnar. Dagatalið kostar 3.500 krónur, af því fara 2.000 kr. í framleiðslukostnað og 1.500 kr. til Rauða krossins við Eyjafjörð. Hægt er að kaupa dagatal með því að hafa samband við Sigurð sjálfan í sima 847 4259 eða koma við á skrifstofu Rauða krossins á Akureyri.
 
Vert er að geta þess að verslanir og önnur fyrirtæki í miðbænum taka óformlegan þátt í dagskránni að ýmsu leyti. Hér má sjá alla dagskrá Jólatorgsins: www.jolatorg.is