Fara í efni
Mannlíf

Margir jólamarkaðir með handverk og mat

Kerti frá Hjartalag og jólaskraut frá Öxnhól handverk, en hvor tveggja verður fáanlegt á jólamarkaðinum í Hlíðarbæ 30. nóvember og 1. desember.

Það er orðinn fastur siður hjá mörgum að fara á jólamarkaði á aðventunni. Á Akureyri og nágrenni er hægt að skella sér á fjölda markaða  fram að jólum, þar sem selt er handverk, listmunir og matvara beint frá býli. Akureyri.net hefur tekið saman lista yfir helstu markaði í bænum og nágrenni hans en ekki er tekin ábyrgð á því að listinn sé tæmandi.

  • 23. nóvember – Jólabazar Ylfu

Lionsklúbburinn Ylfa stendur fyrir jólabazar í Aðalstræti 6, milli kl. 13 og 17.  Á staðnum verður til sölu jólahandverk, jólakökur bæði tertur og smákökur og fleira jólatengt. Eldri barnakór Akureyrarkirkju kemur klukkan 14 og syngur nokkur lög. Allur ágóði rennur til barna og ungmenna á Akureyri og nágrenni. 

  • 23. nóvember – Jólamarkaður Kvenfélags Svalbarðsstrandar

Jólamarkaður Kvenfélags Svalbarðsstrandar verður haldinn í Valsárskóla Svalbarðsströnd, laugardaginn 23. nóvember milli kl. 12 og 16. Á boðstólum verður handverk, hönnun, matvara og ýmislegt annað notað og nýtt. Kaffihúsastemning í skálanum þar sem félagið verður með kaffi, kakó og vöfflur til sölu. Ath. enginn posi, en hægt verður að leggja inn á reikning eða greiða með peningum.

  • 23. nóvember - Basar í Glerárkirkju

Kvenfélagið Baldursbrá verður með basar í Glerárkirkju milli kl. 11 og 15.  Lukkupakkar, hannyrðir, jólavara og kökur. Allur ágóði rennur til líknarmála. 

Jólasveinninn mætti á jólamarkað Holtsels í fyrra og hefur boðað komu sína aftur í ár: Mynd: Facebooksíða Holtsels

  • 24. nóvember – Jólailmur í Hofi

Í menningarhúsinu Hofi verður hönnunar- og handverkshátið sunnudaginn 24. nóvember. Húsið fyllist af fallegu handverki og hönnun, sem og góðum mat beint frá býli. Hátíðin stendur yfir milli kl. 12 og 19.

  • 30. nóvember – Jólamarkaður í Holtseli

Milli kl. 13 og 17 verður jólamarkaður í Holtseli, Eyjafjarðarsveit. Þar verður hægt að kaupa handverk og ýmsa matvöru. Jólasveininn kíkir í heimsókn og tónlistaratriði verður í boði.  Þá verða fleiri aðilar með opið hús í Eyjafjarðarsveit þennan dag og þvi tilvalið að fá sér bíltúr þangað. HÉR má sjá lista yfir umrædda staði, en til að mynda verður Kvenfélagið Iðunn með kökubasar, kaffi og kjólasölu þann dag.

 

  • 30. nóvember og 1. desember – Aðventusýning - Norðlenskt handverk og hönnun í Hlíðarbæ

Á fyrstu helgi aðventu verður markaður í Hlíðarbæ með vandaðar vörur úr héraði sem seldar verða milliliðalaust úr höndum hönnuða, handverksfólks og sælkerameistara. Kökubasar góðgerðarfélaga, kertasala og fleira.  Opið verður báða dagana milli kl. 11 og 17.

  • 1. desember – Jólamarkaður Zonta

Zontaklúbbur Akureyrar heldur markað í húsnæði sínu við Aðalstræti þann 1. desember milli kl. 11 og 16. Á markaðnum verður handverk, jólasmákökur, sultur og fleira góðgæti. Allur ágóði fer í verkefni Zonta er stuðla að bættum hag kvenna.

Skógarlundur er hæfingarstöð fyrir fullorðið fatlað fólk. Í starfinu er meðal annars mikil áhersla lögð á sköpun. Jólamarkaður Skógarlunds verður dagana 5. og 6. desember.  Mynd: Facebooksíða Skógarlundar

  • 5.-6. desember – Jólamarkaður Skógarlundar

Hinn árlegi jólamarkaður Skógarlundar verður haldin milli kl. 12 og 17 þann 5. desember og föstudaginn 6. desember milli kl. 12 og 18. Til sölu verða fallegar jólavörur úr leir og tré ásamt fleiru sem notendur í Skógarlundi hefur verið að vinna að unnið að síðasta árið.

  • 14.-15. desember – Lista og handverksmessa í Deiglunni

Lista- og handverksfólk selur vörur sínar á Jólamarkaði í Deiglunni helgina 14. og 15 desember. Lífleg stemning og fjölbreyttur varningur. Listafólk sem vill taka þátt geta sett sig í samband við tereza.kocianova@gmail.com.

  • Jólatorg á Akureyri þrjár helgar desember

    Á Ráðhústorgi verður markaðsstemming um helgar í desember. Jólatorgið verður opið 1. desember kl. 15 -17 (ljós verða kveikt jólatréinu á torginu, kórsöngur, lúðrablástur og jólasveinar). Helgarnar 7.-8. og 14.-15 desember verða söluborð opin milli kl.13 og 17.