Margar óskir rættust að vanda – MYNDIR
Glatt var á hjalla í Akureyrarkirkju að kvöldi föstudagsins þegar árlegir óskalagatónleikar voru haldnir. Sem fyrr sungu Óskar Pétursson og Ívar Helgson lög sem tónleikagestir völdu, að þessu sinni af 200 laga lista sem lá frammi í kirkjunni. Eyþór Ingi Jónsson lék með á píanó og Hammond orgel.
„Leynigestur“ – sem búið var að tilkynna um fyrirfram – var Birkir Blær, fóstursonur Eyþórs Inga, sem sló í gegn þegar hann sigraði í sænsku Idol söngkeppninni í árslok 2021. Söng hann tvö lög með glæsibrag við frábærar undirtektir.
Kirkjan var þéttsetin að vanda, fólk skemmti sér konunglega við sönginn og skemmtisögur Óskars eins og jafnan áður, og tók oft vel undir í söngnum.
Í lok þessarar fallegu stundar tilkynnti Eyþór Ingi að sú hugmynd yrði brátt að veruleika að þeir félagarnir héldu einnig óskalagatónleika í aðdraganda jóla. Búið væri að bóka kirkjuna um miðjan desember. Vakti sú yfirlýsing mikla lukku.