Fara í efni
Mannlíf

Malik – Nýr staður með skálar og súrdeigspítur

Malik Kebab & Pizza opnaði um mánaðamótin í miðbæ Akureyrar. Ali Hyder Malik á og rekur staðinn ásamt fjölskyldu sinni en fyrir á hann líka staðinn Taste, sem er einnig í miðbænum.

Súrdeigspítur, skálar, kebab og pitsur eru í boði á nýjum skyndibitastað í miðbæ Akureyrar, Malik Kebab & Pizza. Það er Ali Hyder Malik sem er eigandi staðarins en hann rekur líka annan skyndibitastað í miðbæ Akureyrar, Taste.

Vinur minn er með mjög gott veitinga konsept í Danmörku með pítum og skálum (bowls) sem mig langaði mikið til að koma með til Íslands. Ég var búinn að  leita að staðsetningu í meira en ár en svo keyptum við þetta húsnæði í október. Hér var áður skyndibitastaður með kebab og pitsur. Við ákváðum að halda því konsepti en bæta pítunum og skálunum við,“ segir Ali en veitingastaðurinn er til húsa að Skipagötu 2. Nafnið á staðnum, Malik, er fjölskyldunafn hans, og  segir Ali að þar sé eitthvað fyrir alla; þeir sem eru að hugsa um heilsuna velja pítu eða skál, en þeir sem ekki eru á þeirri línu geta fengið sér franskar, vefjur og pitsur.

Súrdeigspíta á leið úr ofninum. 

Súrdeigspítur eftir danskri uppskrift

Píturnar á Malik eru úr súrdegi, þær eru heimagerðar og bakaðar á staðnum eftir danskri uppskrift. Vinur minn frá Danmörku var hér að hjálpa til við að starta staðnum. Húsnæðið var allt tekið í gegn á fjórum dögum, við vorum hér öll fjölskyldan að vinna frá morgni til kvölds,“  segir Ali sem er afar sáttur við útkomuna og viðbrögðin sem hann hefur fengið við matnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ali kemur nálægt veitingastaðarekstri. Síðan 2022 hefur hann rekið skyndibitastaðinn Taste við Ráðhústorgið. Þá á hann hlut í tveimur stöðum í Danmörku undir nafninu Hafla Burger & Shakes og sams konar staður er í startholunum í Englandi.


Píturnar á Malik eru úr súrdegi, þær eru heimagerðar og bakaðar á staðnum eftir danskri uppskrift. Þá eru allar sósurnar á staðnum gerðar frá grunni. Lamba- og nautakjötið er íslenskt en kjúklingurinn kemur frá Danmörku. 

Matarástríðan kviknaði á Bautanum

Ali, sem er 33 ára, er fæddur og uppalinn í Pakistan en bjó á Ítalíu og í Danmörku áður en hann flutti til Íslands árið 2015. Ég hef verið að vinna í veitingahúsageiranum nær allt mitt líf. Mitt allra fyrsta starf var sem skósali í Pakistan en eftir að ég flutti þaðan árið 2012 þá hef ég eingöngu verið að vinna á veitingastöðum.“

Í Danmörku kynntist Ali íslenskri eiginkonu sinni, Guðbjörgu Söndru Gunnarsdóttur, sem var þar í námi en starfar nú hjá Norðurorku. Fyrir 9 árum fluttu þau til Akureyrar. „Ég fór  að vinna á Bautanum og það var besti tími lífs míns, vinnulega séð og það var allt eigendum Bautans þeim Gumma og Helgu að þakka. Ástríða mín á matargerð kviknaði vegna þeirra. Ég er þeim afar þakklátur. Ég var hjá þeim í tæp þrjú ár en hætti þegar nýr eigandi tók við staðnum árið 2018.“ 

Eftir tímann á Bautanum fór Ali að vinna hjá Norðlenska og á veitingastaðnum Verksmiðjunni en opnaði svo eigin hamborgarastað, Taste við Ráðhústorg í mars árið 2022.

Ég fór að vinna á Bautanum og það var besti tími lífs míns, vinnulega séð og það var allt eigendum Bautans þeim Gumma og Helgu að þakka. Ástríða á matargerð  kviknaði vegna þeirra. Ég er þeim afar þakklátur.

Ali er mikill matgæðingur og ferðast reglulega erlendis í leit að matarupplifunum. Hann vill þó hvergi annar staðar búa en á Akureyri. 

Endurgreiðsla á Taste ef viðskiptavinur er óánægður

Aðeins eru nokkrir metrar á milli Malik og Taste en að sögn Ali eru staðirnir ekki í samkeppni við hvorn annan, enda gjörólíkir. Taste er fyrst og fremst hamborgarastaður. Þar erum við með heimagerða hamborgara og allar okkar níu sósur eru gerðar á staðnum. Við bjóðum líka upp á „dirty fries“ sem ég held að enginn annar á Íslandi sé að bjóða upp á, þ.e.a.s. franskar sem eru bakaðar með þremur mismunandi tegundum af osti og svo getur viðskiptavinurinn valið milli nokkurra hráefna til að setja ofan á. Vinsælasta útgáfan er „dirty fries“ með kjúklingi,“  segir Ali og bætir við að á Taste sé það þannig að ef viðskiptavinurinn er ekki ánægður með borgarann sinn þá fær hann endurgreiðslu. Við erum með 4,8 stjörnur á Tripadvisor og eigum okkur dyggan aðdáendahóp. Ég borða sjálfur á mínum stöðum, fjölskyldan borðar á mínum stöðum, því við notum eingöngu gæðahráefni, alltaf.“ 

Frá opnunardeginum, 31. október. Starfsmenn eru venjulega ekki svona útlítandi en fyrsti opnunardagur var á Hrekkjavökunni.

Akureyri í uppáhaldi

Talið berst nánar að fjölskyldunni en Guðbjörg og Ali eiga tvö börn, annað er þriggja og hálfs ár og hitt er nýfætt. Akureyri er uppáhaldsstaðurinn minn. Þegar fjölskyldan er annars vegar þá hef ég ekki fundið neinn betri stað en Akureyri fyrir fjölskyldu mína. Ég myndi ekki vilja ala börnin mín upp annars staðar,“  segir Ali sem veit hvað hann er að tala um því hann ferðast mjög mikið og hefur nú þegar komið til 44 landa. Ég hef t.d. komið 22 sinnum til Tyrklands, bara vegna þess að ég elska tyrkneskan mat,“ segir Ali en kebab, sem er einn af aðalréttunum á Malik, er einmitt upprunninn í Tyrklandi. 

Það er annars ekki hægt að sleppa Ali án þess að biðja hann um meðmæli af matseðlinum. Hann svarar að bragði að píturnar séu eitthvað sem allir verða að smakka, en annars er líka Mr. Malik vefjan í uppáhaldi hjá honum. „Hún er með bláberjasultu. Kebabarnir okkar eru svolítið fusion,“ segir Ali. Það hugtak er notað þegar fleiri matarhefðum er blandað saman. 

Tveir staðir á Akureyri í eigu Ali og fjölskyldu: Malik við Skipagötu og Taste við Ráðhústorg. Næturopnun er á báðum stöðum um helgar.