Fara í efni
Mannlíf

Maður verður að þora og trúa á sjálfan sig

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sverrir Ragnarsson hefur í mörg ár unnið sem stjórnendaþjálfari í Bandaríkjunum, m.a. við það að kenna stjórnendum tölvurisans Microsoft, eins og Akureyri.net greindi frá í fyrradag. Sverrir, sem er búsettur í Denver, kom heim um jólin eins og svo oft áður og ákvað að slá til í þetta skipti og halda námskeið í Hofi 7. janúar. Námskeiðið kallar hann Töfrarnir í aukaskrefinu, eins og fram kom í fyrri grein, og þau verða tvö sama dag – annað fyrir unglinga, hitt fyrir fullorðna.

Spurður hvers vegna hann ákvað að bjóða upp á þetta námskeiðið svarar Sverrir ákveðið: „Ég vil hjálpa fólki að verða betra!“

Lesblindur og kunni enga ensku!

Saga Sverris er skemmtileg; saga um áræðni, stórhug, jákvæðni og óbilandi sjálfstraust. Að ekki sé minnst á aukaskrefin!

Sverrir hélt vestur um haf tvítugur, „lesblindur og kunni enga ensku,“ segir hann og hlær. Hann hafði leikið knattspyrnu hér heima, hugsaði sér gott til glóðarinnar og gerði sér ferð til þjálfara skólaliðs Denver háskóla. „Háskólanám í Bandaríkjunum er mjög dýrt og ég hafði ekkert efni á að borga það.  Ákvað því að prófa þessa leið, en ætlaði reyndar bara að byrja á því að læra enskuna.“

Gaman er að geta þess að Sverrir er með bók í smíðum, The One Question, sem mætti kalla Spurningin eina. Bókin kemur út á næsta ári. „Það er auðvitað aldrei nein ein spurning, en spurning sem þú spyrð dags daglega geta breytt lífi þínu. Ein af stærstu spurningum mínum var þegar ég gekk inn á skrifstofu fótboltaþjálfarans við Denver háskóla í Bandaríkjunum á sínum tíma,“ segir hann.

Svona virkar þetta ekki, væni minn

Honum verður tíðrætt um aukaskrefin sem hann segir svo mikilvæg í lífinu. Eitt stærsta aukaskref hans hingað til er einmitt þegar hann bankaði uppá hjá þjálfaranum í Denver og lagði fyrir hann spurninguna einu. Við skrifborðið sat Norður-Írinn David Clements, náungi sem lék á sínum tíma með Wolves, Coventry, Sheffield Wednesday og Everton í Englandi og var síðar samherji Pelé hjá New York Cosmos!

Samtalið var kostulegur einþáttungur miðað við lýsingar okkar manns. 

  • Sverrir – Ég er Íslendingur og frábær í fótbolta. Viltu veita mér skólastyrk?
  • Clements – (verður eitt spurningarmerki í framan) Nei, það kemur ekki til greina!
  • Sverrir – Ég skil þig ekki! Af hverju segirðu nei? Þú hefur aldrei séð mig spila. 
  • Clements – Svona virkar þetta ekki í Ameríku, væni minn. Við veljum okkar krakka í íþróttaliðin, ekki öfugt.
  • Sverrir – En ég er frá Íslandi, þú hefur aldrei haft möguleika á að sjá hvað ég er góður í fótbolta!
  • Clements – Þú ætlar ekki að gefast upp ... Jæja, fyrst þú sækist svona ákveðið eftir þessu langar mig að sjá þig. Geturðu mætt klukkan níu í fyrramálið?
  • Sverrir – Já, ég mæti.

Sverrir hafði aðsetur í Boulder, borg í um það bil 40 mínútna akstursfjarlægð frá Denver. „Ég fór ekkert heim um nóttina,“ segir hann núna. „Var að sjálfsögðu með fótboltadótið með mér.“

Æfingin hófst á tilsettum tíma. Að henni lokinni lauk í raun samtalinu sem hófst daginn áður.

  • Clements –  Ég vil láta þig hafa skólastyrk. En ég get það ekki núna af því þú talar ekki ensku. Lærðu hana í sex mánuði og komdu svo aftur.
  • Sverrir – Jess sör. Þeink jú!

„Svona var þetta! Og út á þetta gengur bókin; takið aukaskrefið og spyrjið spurninga. Ég væri ekki starfandi við að halda stjórnendanámskeið í Bandaríkjunum ef ég hefði ekki spurt þessarar spurningar. Maður verður að þora og trúa á sjálfan sig.“

Annað aukaskref

Eftir samtalið við þjálfarann dreif Sverrir sig í að læra ensku og svo fór að hann spilaði fótbolta með skólaliði University of Denver og menntaði sig í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.

Sverrir fluttist heim til Íslands eftir nám, starfaði fyrir nokkur afbragðs fyrirtæki en ákvað árið 2007 að stofna sitt eigið, veita ráðgjöf og halda námskeið. „Þá ákvað ég að 50% af vinnunni yrði á Íslandi og 50% erlendis,“ segir hann og það gekk eftir um tíma. 

Hann nefnir annað mikilvægt aukaskref; þegar hann spurði aftur spurningarinnar einu. Sverrir las þá afar fróðlega og góða bók eftir bandarískan höfund, sem starfar í ráðgjafar- og námskeiðabransanum. Varð sér úti um númerið hjá honum og hringdi.

  • Ég er frábær þjálfari og get unnið fyrir þig.
  • Býrðu á Íslandi? Það er maður í Þýskalandi sem er með umboð fyrir okkur í Evrópu. Hafðu samband við hann.

Næsta símtal var til Þýskalands á föstudegi.

  • Geturðu verið hér á mánudaginn?
  • Já, ekkert mál.

Sverrir flaug út á sunnudegi, hitti Þjóðverjann á mánudegi og skrifaði undir samning! 

Rétt er að rifja upp það sem Sverrir sagði áðan: „Maður verður að þora og trúa á sjálfan sig.“ Og hann segir núna um mikilvægi þessa aukaskrefs: „Ég væri ekki að þjálfa hjá Microsoft nema ég hefði tekið upp símann og hringt í höfund bókarinnar sem ég las.“

Umrætt fyrirtæki var nefnilega með samning við Microsoft um þjálfun stjórnenda þar á bæ og Sverrir fór fljótlega að sinna því verkefni ásamt öðrum. „Ég vinn alltaf í mannlega þættinum, fjalla um samskipti og kenni fólki að verða góðir stjórnendur; kenni góðum stjórnendum að verða enn betri, því menn geta alltaf bætt sig.“

Forstjórar og íþróttamenn

Þegar Sverrir hringdi í höfund bókarinnar bjó hann á Íslandi en flutti aftur til Denver 2011 og hefur verið búsettur þar síðan. Hann starfar þó enn fyrir ýmis fyrirtæki hérlendis og er raunar með alls kyns viðskiptavini víðs vegar um heims. 

„Síðan í lok árs 2011 hef ég verið einn af aðal stjórnendaþjálfurum Microsoft og þjálfa líka stjórnendur hjá mörgum öðrum stórfyrirtækjum; vinn mikið með forstjórum og öðrum í efsta lagi stjórnenda bandarískra fyrirtækja og ég vinn með mörgum af stærstu fyrirtækjum Íslands í high performance coaching; við að hjálpa fólki til þess að ná sem allra bestum árangri,“ segir hann.

„Ég vinn líka með mörgu afreksíþróttafólki og finnst einmitt mjög gaman að vinna með fólki sem þegar er búið að ná árangri og hjálpa því að komast einu skrefi lengra. Ég má ekki nefna nein nöfn en ég vinn með bandarískum atvinnumönnum í íþróttum, ég var með leikmenn sem fóru með íslenska landsliðinu á HM í fóbolta og hef unnið með landsliðsfólki í fimleikum, svo ég nefni einhver dæmi. Svo er gaman að nefna að ég vinn mikið með stjórnendum eins stærsta orkufyrirtækjum Nýja Sjálands. Viðskiptavinirnir eru sem sagt víða!“ segir Sverrir Ragnarsson.