Lundeyri í Þorpinu – In memoriam
Á dögunum var húsið Lundeyri í Glerárþorpi rifið í þeim tilgangi að rýma fyrir nýjum hlutum Holtahverfis. Um var að ræða látlaust, múrhúðað timburhús á einni hæð, frá 5. áratug sl. aldar, en fyrst var byggt á Lundeyri árið 1917. Í nýjum Hús dagsins-pistli stiklar Arnór Bliki Hallmundsson á stóru í sögu Lundeyrar, sem spannar alls 106 ár.
Elsta heimildin um Lundeyri er mögulega brunabótamat frá árinu 1918. Þá eru eigendur og íbúar tvær húskonur, Jóhanna Jónasdóttir og Jónína Jónatansdóttir. Það hlýtur að vera óhætt að leiða líkur að því, að þær hafi fyrstar byggt á býlinu Lundeyri. Þar var um að ræða torfhús með timburþili en steinhúsið sem rifið var á dögunum byggðu hjónin Vigfús Guðjónsson og Björg Guðmundsdóttir árið 1946.
Arnór rifjar upp þá sögu að Gestur, eitt barna Vigfúsar og Bjargar, hafi verið yrkisefni eða innblástur Davíðs Stefánssonar er hann orti ljóðið Barnið í þorpinu og olli það uppátæki nokkrum deilum. Munu íbúar Glerárþorps hafa talið að sér vegið, enda verður ekki sagt, að þarna sé farið sérlega fögrum orðum um Þorpið.
Smellið hér til að lesa pistil Arnórs Blika
Lundeyri, vinstra megin fyrir miðri mynd, rifin á dögunum. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson