Fara í efni
Mannlíf

Listakonan, aktívistinn og amman í Speslandi

„Eftir að ég fór að koma til Hjalteyrar í sjósund var ekki aftur snúið. Ég heillaðist af staðnum,“ segir Hrönn. - Myndir Rakel Hinrikdsdóttir

Hrönn Einarsdóttir listakona kemur úr stórum systkinahópi og ólst upp á listrænu og skapandi heimili. Í dag er hennar uppáhaldsstaður uppgerð verbúð á Hjalteyri, sem er heimilið hennar að heiman. Í dag birtist seinni hluti viðtals við Hrönn um listina og lífið á Hjalteyri.

Fjallað var um listaverk Hrannar, Hásæti Mammons, í SunnudagsMogganum í maí 2010. „Ég gat ekki boðið upp á neinar veitingar því allur peningurinn fór í verkið,“ sagði hún þar. „Ég bauð öllum pólitíkusunum hér á Akureyri og ráðherrum en enginn mætti. En ég fékk hringingu þar sem Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afboðaði sig; mér fannst frábært að hún skyldi láta vita.“ 

Lífið breytti um stefnu

„Ég lagði listina eiginlega alveg frá mér þangað til ég var orðin fjörutíu og fimm ára,“ segir Hrönn. Hún á þrjú uppkomin börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Sigþóri Heimissyni. Það eru þau Atli, Olga og Einar. „Ég hafði farið á myndmenntabraut í VMA þarna skömmu áður og fór alveg á flug. Upp úr því ákvað ég að breyta lífi mínu alveg. Skildi við manninn minn og fór í Myndlistarskólann á Akureyri.“ Enn er mörgum í minni, þegar Hrönn útskrifaðist úr skólanum. Lokaverkefnið hennar, Hásæti Mammons, vakti verðskuldaða athygli á landsvísu.

Árið var 2010 og Ísland ennþá að sleikja sárin eftir Hrun. Hrönn komst að því að peningur sem hún hafði átt í Landsbankanum var horfinn. Fokinn í svartholið sem Hrunið skildi eftir sig. Hrönn tók skyndiákvörðun á þessari stundu, þar sem hún stóð svikin í bankanum. Hún greip veglegan hægindastól í anddyrinu og hljóp með hann út. Tók hann í pant, eins og hún orðaði það sjálf við fjölmiðla á þeim tíma.

„Aðstoðarbankastjórinn og einhver annar karl eltu mig, yfir Ráðhústorgið og náðu mér þar sem ég hafði sest í stólinn fyrir framan Borgarsöluna, sem þá var þarna á horninu við Strandgötu,“ rifjar Hrönn upp.

„Þegar ég hafði fullvissað hann um að ég ætlaði ekki að kasta í hann eggjum, þáði hann boðið og mætti til þess að taka við stólnum.“

Lögreglan hafði afskipti af stólaþjófinum. „Þetta er reyndar eina skiptið sem ég hef verið handtekin, en þeir skutluðu mér nú bara upp í skóla aftur.“ Eftir þetta atvik, kviknaði hugmyndin að lokaverkefni Hrannar í skólanum, þar sem hún bjó til háðungarútgáfu af stólnum, skírði hann Hásæti Mammons og færði hann bankanum að gjöf. „Ég bauð bankastjóranum að koma og taka formlega við gjöfinni. Hann spurði hvort ég ætlaði nokkuð að kasta í hann eggjum eða eitthvað slíkt. Þegar ég hafði fullvissað hann um að svo yrði ekki, þáði hann boðið og mætti til þess að taka við stólnum.“ Stóllinn var til sýnis í bankanum í eitt ár. „Sennilega hafa þeir hent honum, ég veit það ekki,“ bætir Hrönn við. 

„Ég er alltaf þessi aktívisti innra með mér, það breytist ekkert,“ segir Hrönn, þegar hún hefur rifjað upp þessa sögu. „Ég hef oft tekið þátt í friðsömum mótmælum, en þetta er reyndar eina skiptið sem ég hef verið með svona læti.“

Listaverk Hrannar einkennast oft af litríkum fígúrum í ævintýralegum og óræðum heimi. 

„Sköpunarþörfin mín lýsir sér best í því að mér líður betur á meðan ég mála. Það er eins og hausinn á mér róist. Hann fer bara á strigann.“

„Þetta eru einhverjar fantasíur úr hausnum á mér,“ segir Hrönn, þegar hún er spurð um myndlistina. „Ég er með ADHD, fékk greiningu á fullorðinsaldri. Það skýrði ýmislegt fyrir mér, þó ég vilji ekki segja að ég sé með ofvirkni. Fólk sem þekkir mig er ekki endilega sammála því!“ Hrönn segist aldrei hafa langað til þess að mála landslag eða raunsæi. „Ég sæki þetta eitthvert í sálarlífið og tilfinningarnar. Sköpunarþörfin mín lýsir sér best í því að mér líður betur á meðan ég mála. Það er eins og hausinn á mér róist. Hann fer bara á strigann.“

Nýlega sótti Hrönn innblástur frá listamanninum Stórval. Þessar tvær eru til sýnis í skúrnum sem Hrönn og Dóri eiga rétt hjá Sólkoti.

„Ég fæ reyndar reglulega kjánahroll. Yfir málverkunum mínum,“ segir Hrönn. Hún glímir við mikla sjálfsgagnrýni og það sýnir sig kannski helst í því að þrátt fyrir að málverkin hennar seljist vel, bæði beint frá henni sjálfri og í galleríum, hefur hún þau ekki uppi á vegg sjálf.

„Ég er með eitt heima á Akureyri. En það er bara af praktískum ástæðum. Til þess að sýna. Mér finnst líka mjög erfitt að selja, það er ekki mín sterka hlið. En ég er ekkert að þröngva þessu upp á neinn,“ segir listakonan og enn sannast það sem oft er, að listamönnum er ekki alltaf gefið að vera klókir sölumenn. Það fer ekki alltaf saman.

Hrönn glímir við mikla sjálfsgagnrýni og það sýnir sig kannski helst í því að þrátt fyrir að málverkin hennar seljist vel, bæði beint frá henni sjálfri og í galleríum, hefur hún þau ekki uppi á vegg sjálf.

Óður til Stórvals

Fyrir jólin var Hrönn með opna vinnustofu í skúrnum sínum, sem er steinsnar frá verbúðinni. Þar hafa þau Halldór innréttað huggulegt verkstæði með svefnlofti og lítilli verönd bak við húsið. Fleira listafólk tók þátt og enn eru verk til sýnis þar. Nýlega hefur Hrönn farið að mála nýja seríu af myndum, sem virðast vera eins konar óður til listamannsins Stórvals, Stefáns V. Jónssonar frá Möðrudal sem er ekki síst þekktur fyrir málverk af fjalladrottningunni Herðubreið.

Annað verk sem er innblásið af verkum Stórvals. Barnabarn Hrannar var þó ekki á því að amma hans hefði verið að mála hest, segir listakonan. Honum fannst myndin augljóslega vera af belju. 

„Ég er ofboðslega hrifin af verkunum hans Stórvals.“ segir Hrönn. „Ekki öllum, en mörgum. Einhverntíman langaði mig að prófa og fannst það gaman. Á meðan ég er að mála, kemur til mín einhver texti. Ég er ekki að leita að honum, en hann kemur bara og ég mála hann á myndina.“ Hrönn segir að jafnvel komi til hennar einhverjar línur úr sálmum sem hún vissi ekki að hún kynni.

Skúrinn er huggulegur og býður upp á vinnuaðstöðu og afdrep, þar sem Hrönn og Halldór hafa einnig útbúið svefnloft. Hann er laginn smiður og vínbakkarnir á neðri myndinni eru eftir hann.

„Síðan ég varð sextug, eru málverkin af mér og barnabarninu mínu, Atla, hérna á Hjalteyri,“

Myndlist Hrannar er litrík og freyðandi. Fígúrur, dýr, menn og allt þar á milli leika sér á striganum og bera með sér ævintýralegan blæ. Hrönn segir frá nýlegum myndum, sem hún kallar Amma og Atli. „Síðan ég varð sextug, eru málverkin af mér og barnabarninu mínu, Atla, hérna á Hjalteyri,“ segir Hrönn. 

Mynd úr seríunni „Amma og Atli“. Hrönn segir að þær hafi nánast allar selst strax.

„Börnin mín gáfu mér bók í afmælisgjöf, þar sem Olga dóttir mín hafði fengið Atla til þess að setjast niður með sér og segja henni sögur af sér og ömmu,“ segir Hrönn. Atli var fimm ára þegar sögunum var safnað, en í dag er hann í fyrsta bekk í Síðuskóla, sonur Einar Sigþórssonar og Karenar Mistar Kristjánsdóttur. Litla fjölskyldan er nýlega flutt heim til Akureyrar aftur eftir langa dvöl í Danmörku, ömmu til mikillar gleði. „Þetta er hans hugmyndaflug. Atli eldri, sonur minn, skrifaði sögurnar upp og síðan bundu þau þetta saman í þessa fallegu bók með teikningunum hans Atla litla.

„Bókin er um samband okkar,“ segir Hrönn. „Atli bjó í Danmörku, og af því að við gátum svo sjaldan hist, þá ákváðum við að hittast í ‘Speslandi’.

Sextugsafmælisgjöfin sem heldur áfram að gefa: Amma og Atli gera allt vitlaust.

Þegar við fórum að sofa á kvöldin gátum við hist í Speslandi og leikið okkur saman. Þar komu krummarnir, máfarnir og allt hitt. Við vorum að slást við hákarla og alls konar ævintýri.“ Þessi fallega gjöf hafði slík áhrif á ömmuna, að hún fór að mála upp úr sögunum. „Þetta gaf mér eitthvað alveg nýtt,“ segir Hrönn.

Útsýnið frá Sólkoti, Speslandi. Fjaran, hafið þar sem amma og Atli berjast við hákarla og ævintýralegir fjallstindarnir handan við fjörðinn. 

„Ég held þetta sé ekkert voðalega spennandi viðtal,“ segir Hrönn að lokum. „Ég verð ekkert móðguð ef þú vilt ekkert nota þetta.“

Það er skemmst frá því að segja að viðtalið er birt og blaðamaður fullur þakklætis eftir kaffispjall við hógværa listakonu sem skírir hrafnana sína og hittir ömmustrákinn sinn í draumi í Speslandi.