Lilja stýrir stærsta pósthúsi landsins
Lilja Gísladóttir tók við sem stöðvarstjóri Póstsins á Akureyri 1. maí síðastliðinn og stýrir allri starfsemi pósthúsa og póstvinnslu á Eyjafjarðarsvæðinu, ásamt „eðalteymi“ eins og hún orðar það. Pósthúsið á Akureyri er það stærsta hérlendis.
Lilja hefur mikla þekkingu á innviðum Póstsins en hún hefur starfað þar frá 2002, fyrst sem þjónustufulltrúi og síðar sem þjónustustjóri.
„Sú þekking og reynsla sem ég hef öðlast úr þjónustudeildinni hefur komið sér vel í þessu nýja hlutverki. Breytingar hafa átt sér stað undanfarin ár, m.a. í takt við óskir viðskiptavina okkar um stafrænar og hraðar lausnir. Við höfum því fengist við mörg spennandi verkefni með nýjum áskorunum og þetta hefur gengið ótrúlega vel. Það er líka frábært teymi starfsfólks hér á Akureyri. Þar starfa um 50 manns og tíu til viðbótar annars staðar í Eyjafirði. Við erum í góðum takti og það er frábær starfsandi hér á pósthúsinu,“ segir Lilja brosandi.
Þjónusta allt frá Siglufirði til Grenivíkur
Hún vekur athygli á því að pósthúsið á Akureyri þjónustar allan Eyjafjörðinn, alveg að innstu bæjum í firðinum.
„Við erum raunar að þjónusta allt frá Siglufirði til Grenivíkur með viðkomu á Stórutjörnum. Á þessu þjónustusvæði eru um 9.500 heimili og 650 fyrirtæki þannig að þetta er nokkuð stórt. Það er eitt pósthús hér á Akureyri, eitt á Dalvík og eitt á Siglufirði og síðan erum við í samstarfi í Ólafsfirði, í Hrísey, Grímsey og á Grenivík.
Við byggjum á mjög góðu samstarfi við hin pósthúsin og samstarfsaðilana okkar og það er auðvitað afar mikilvægt. Auk þess erum við með þrjú póstbox á Akureyri, eitt er í Hrísalundi við Nettó, eitt við Landsbankann og eitt við Hagkaup. Þessi þjónustuleið er mikið notuð enda ætlum við að fjölga póstboxum á Akureyri á næstu misserum. Einnig verða sett upp póstbox á Dalvík, Siglufirði og í Ólafsfirði fljótlega. Það er verið að vinna í að finna heppilega staðsetningu á þessum svæðum,“ segir Lilja.
Lilja fer reglulega um Eyjafjörðinn á kajak. „Hreyfing og útivera er mín besta leið til að hlaða rafhlöðurnar.“
Viðskiptavinir geti nálgast pakkana sína allan sólarhringinn
Miklar breytingar hafa orðið á póstþjónustu undanfarin misseri. Fjöldi bréfasendinga hefur dregist saman um 75% frá 2010 en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. Pósturinn leggur mikla áherslu á að aðlagast hratt og örugglega og kappkostar að þróa þjónustu sína í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda, segir Lilja.
„Það hefur sýnt sig að viðskiptavinir vilja geta nálgast pakkana sína allan sólarhringinn, alla daga ársins. Viðskiptavinir geta valið að láta senda pakka í póstboxið, annað hvort hjá sendanda eða valið afhendingarmáta í gegnum Mínar síður á heimasíðu Póstsins og í gegnum appið. Síðan geta þeir komið og póstlagt sjálfir sendingu í póstboxinu. Þetta er því mikil snilld fyrir þá fjölmörgu sem vilja nýta sér stafræna þjónustu. Og þeim fjölgar sífellt enda er þetta frábær leið til að geta sótt og sent þegar viðkomandi hentar. Og allt á sama stað í póstboxinu.“
Öruggar greiðsluleiðir eru svo í boði í gegnum Mínar síður Póstsins og app fyrirtækisins og með því að nýta þær þá flýtir það öllu flæði sendinga í gegnum kerfið, segir Lilja.
Græn skref Póstsins
Pósturinn er þátttakandi í verkefninu Græn skref á vegum Umhverfisstofnunar. „Þetta er verkefni fyrir fyrirtæki sem vilja efla umhverfisvitund og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar. Í dag dreifum við bréfapósti til einstaklinga á Akureyri eingöngu á rafhjólum. Þannig drögum við úr umhverfisáhrifum. Fljótlega eftir áramót erum við að fá til okkar stóran flutningabíl sem er knúinn metani. Hann mun aka með póstsendingar frá Akureyri til Siglufjarðar með viðkomu á Dalvík og í Ólafsfirði. Við erum einnig með rafbíl hér hjá okkur sem ekur með sendingar innan Akureyrar. Þetta er hluti af þeim grænu skrefum sem Pósturinn er að taka og þau hafa mikið að segja.“
Lilja við eitt póstboxa Póstsins á Akureyri.
Kajakferðir til að safna kröftum
Þjónustudeild Póstsins er staðsett á Akureyri og er starfsfólk deildarinnar hluti af teyminu í pósthúsinu. „Við tölum alltaf um okkur sem eitt teymi og vinnum þannig. Þjónustudeildin hér þjónustar allt landið, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Það er hún Fanney Bergrós Pétursdóttir sem stýrir þessari mikilvægu deild af stakri snilld,“ útskýrir Lilja.
Jólin nálgast nú óðfluga og pakkaflóðið eykst með hverjum deginum enda þurfa Akureyringar og aðrir landsmenn að senda og sækja ófáa jólapakka. „Við erum að sigla inn í jólavertíðina sem er mesti annatími ársins hjá Póstinum og starfsfólkinu hér. Þetta er líka skemmtilegur tími og það er góð stemmning á pósthúsinu í jólaösinni,“ segir Lilja. Þegar hún er spurð að því hvernig hún safni kröftum milli tarna segir hún: „Ég stunda líkamsrækt, dansa og finnst frábært að fara í góðar gönguferðir upp um fjöll og firnindi með mínum, svo ekki sé minnst á kajakferðirnar um fjörðinn okkar. Hreyfing og útivera er mín besta leið til að hlaða rafhlöðurnar.“