Fara í efni
Mannlíf

Lengi verið draumur að þjálfa leitarhund

Þorgils Guðmundsson, Hjördís Guðmundsdóttir og Andrés Tryggvi Jakobsson á æfingunni um daginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Á dögunum fór fram æfing Norðurhóps leitarhunda Landsbjargar, eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Æfingin fór fram á Svalbarðseyri og níu teymi hunda og manna æfðu þar snjóflóðaleit. Eins og nafnið gefur til kynna þjálfar hópurinn sig í að leita og bjarga.

Andrés Tryggvi Jakobsson og hundurinn Fídel eru meðlimir í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri. Andrés Tryggvi byrjaði í Súlum árið 2004 og er þaulreyndur björgunarsveitarmaður. Hann hefur starfað á flestum sviðum innan sveitarinnar, en að þjálfa leitarhund hefur lengi verið draumur.

Fídel

Fídel er tæplega þriggja ára Border Collie-hundur sem er vinnusamur og duglegur í leik og starfi. Hann er með B-gráðu í snjóflóðaleit og C-gráðu í víðavangsleit. Í samtali við Akureyri.net sagði Andrés Tryggvi að Fídel hefði komið með á sína fyrstu æfingu þegar hvolpurinn var fimm mánaða en þeir byrjuðu svo af fullum krafti að þjálfa fyrir snjóflóðaleit þegar Fídel var átta mánaða.

Þjálfun leitarhunda mjög tímafrek

En hvaða áskoranir takast leitarhundaeigendur helst við?

„Að gefa sér mikinn tíma í þetta“, svarar Andrés Tryggvi, „svo margt annað þarf að leggja á hilluna. Nokkrar fórnir sem þarf að færa. Alveg hellingur af klukkustundum sem fara í að þjálfa. Það er mikilvægt að byggja upp gott samband milli manns og hunds, en þetta er mikil samvinna.“

Andrés Tryggvi og Fídel hafa ekki enn farið í snjóflóðaútkall, sem betur fer mætti segja, og Fídel er ekki enn orðinn fullgildur í víðavangsleit.

Nánast sama tækni í snjóflóðaleit og víðavangsleit

Þegar rætt er við eigendur leitarhunda heyrast orðin tvö, snjóflóðaleit og víðavangsleit mjög oft. Akureyri.net spurði Andrés Tryggva um muninn á þessu tvennu.

„Það er auðveldara að koma hundunum af stað í þjálfun í snjóflóðaleit en nánast sama tækni er notuð. Stærsti munurinn er kannski hvernig hundarnir láta vita þegar þeir finna einhvern“, svarar Andrés Tryggvi og útskýrir: „Víðavangsleit er oft kölluð sumarleit og þá er jafnan leitað á fjölbreyttum stöðum. En í snjóflóðaleit, eða vetrarleit, er verið að leita undir snjónum eins og nafnið kannski segir til um. Þegar hundur hefur fundið manneskju í víðavangsleit kemur hundurinn til hundaþjálfarans og lætur vita og fær hann til að elta sig til hinnar týndu manneskju. En þegar hundur telur sig hafa fundið manneskju í snjóflóðaleit, lætur hann vita með því að byrja að grafa þar sem lyktin er sterkust. Að auki komast hundarnir yfir stærra svæði í víðavangsleit. Þá berst lyktin eftir yfirborðinu en aftur á móti í snjóflóðum þarf lyktin fyrst að koma upp á yfirborðið og svo berast um svæðið.“

Fídel fullgildur leitarhundur 2023

Og að lokum: Hvenær áttu von á að Fídel verði orðinn fullgildur leitarhundur?

Áætlað er að Fídel taki A-próf í snjóflóðaleit í mars og verði þá fullgildur snjóflóðaleitarhundur. Seinna í vor mun Fídel taka B-próf í víðavangsleit og þá getur hann tekið A-próf ári síðar, eða 2023“, segir Andrés Tryggvi að lokum.