Lék óvænt hlutverk í True Detective
„Ég var bara í vinnunni, á fæðingardeildinni, þegar síminn hringdi,“ segir Edda Guðrún Kristinsdóttir, ljósmóðir á Akureyri sem gerðist óvænt leikkona í True Detective seríunni sem tekin var upp við Eyjafjörð fyrir réttu ári og skartaði Hollywood stjörnunni Jodie Foster í aðalhlutverki.
„Það var framleiðsluteymið sem var á línunni og óskaði eftir ljósmóður í þrjá til fjóra tíma. Þá var von á foreldrum sem voru að koma með nýfædd börn í prufur fyrir atriði í seríunni, þar sem kona fæðir barn.“
Sería fjögur af vinsælli sjónvarpsþáttaröð HBO, True Detective, hefur undirtitilinn Night country og á að gerast í litlum bæ í Alaska sem heitir Ennis. Serían var hins vegar tekin upp á Íslandi og Dalvík var um stundarsakir breytt að hluta til í lítinn, amerískan smábæ. Atriðið, sem Edda Guðrún endaði á að leika í, var tekið upp í gömlu Húsasmiðjunni á Lónsbakka, sem hafði verið breytt í kvikmyndaver tímabundið.
Skjáskot af sjónvarpinu, þegar Stöð 2 sýndi 3 .þátt af True Detective. Edda er önnur frá hægri við fæðingarlaugina. Mynd: Edda Guðrún.
Upphaflega, mætti Edda á staðinn til þess að tryggja öryggi þeirra nýfæddu barna sem komið var með í prufur. „Þau vildu hafa ljósmóður á staðnum til stuðnings við foreldrana. Auk þess höfðu þau einhverjar spurningar varðandi atriðið. Börnin sem komið var með voru á aldrinum átta daga til fjögurra eða fimm vikna og ég átti að vera til staðar fyrir þau og mér fannst bara spennandi að koma,“ segir Edda. „Þau velja svo barn sem er mjög ungt og í framhaldi af því báðu þau mig að vera á staðnum á meðan barnið væri í tökum til þess að hjálpa þeim að passa upp á barnið.“
Það þarf að nota endurlífgun og þar kom ég inn, og gat leiðrétt þau vegna þess að handritið gerði ráð fyrir aðferð til endurlífgunar sem er ekki rétt.
Atriðið sem um ræðir er þannig, að kona fæðir barn í laug, með ljósmæður í kring um sig. „Í atriðinu gerist það, að barnið fæðist og andar ekki,“ segir Edda. „Það þarf að nota endurlífgun og þar kom ég inn, og gat leiðrétt þau vegna þess að handritið gerði ráð fyrir aðferð til endurlífgunar sem er ekki rétt. Með nýfætt barn er aldrei farið beint í hjartahnoð, eins og þau ætluðu sér að gera. Fyrst er öndunaraðstoð reynd. Svo þróaðist þetta einhvernvegin út í að ég var spurð hvort ég gæti ekki bara séð um þetta!“ Edda segist hafa hugsað með sér strax að svona tækifæri bjóðist ekki á hverjum degi og hafi slegið til.
Starf Eddu við tökurnar endaði á því að taka fjóra daga og var því augljóslega komið aðeins framyfir þessa þrjá til fjóru tíma sem hún reiknaði með þegar hún mætti fyrst á staðinn. „Ég náði að redda mér í vinnunni með því að nota sumarfrí og skipta við vinnufélagana, og hellti mér út í þetta. Þau voru mikið að ráðfæra sig við mig varðandi allskonar atriði sem tengjast fæðingarhjálp, til dæmis höfðu þau ætlað að klippa naflastrenginn alveg kolvitlaust og ég gat sýnt þeim hvernig ætti að bera sig að.“ Edda segir að ráðgjafahlutverkið hafi verið farið að ná töluvert út fyrir handritið, þar sem fólk var farið að fá ráð um allt mögulegt. „Ég var til dæmis að kenna einhverjum úr tökuliðinu hvernig væri best að losa aðskotahlut úr hálsi ungabarna á milli atriða!“
Hjólhýsið hennar Eddu við tökustað. Mynd: Edda Guðrún
„Ég fékk lítið hjólhýsi sem var aðstaðan mín í tökum,“ segir Edda. „Þar var búningurinn minn og úlpa sem ég gat notað til þess að fara á milli staða. Ég var með einkabílstjóra sem skutlaði mér frá hjólhýsinu á tökustað, sem var bókstaflega í svona 20 metra fjarlægð. Þetta var allt svolítið sérstakt og mjög skemmtileg upplifun.“
Í tökunum sjálfum, hélt Edda fyrst að hún væri ekkert í mynd. „Ég hélt einhverveginn að ég væri aðallega þarna til þess að passa upp á barnið, en svo fóru þau að leikstýra mér og segja mér að standa vegna þess að ég hefði staðið áðan þegar það var klippt. Þá rann það nú eiginlega upp fyrir mér að ég væri í mynd og ímyndaði mér þá að þetta yrði nú allt klippt út örugglega.“ Það kom svo á daginn að tökuliðið vildi að Edda væri sú sem myndi lífga barnið við.
Edda og önnur leikkona í atriðinu, þar sem barnið er endurlífgað. Myndin er skjáskot frá Eddu Guðrúnu af þættinum sýndum á Stöð 2.
„Ég er búin að horfa á þáttinn sem ég birtist í,“ segir Edda. Vinkona hennar horfði á þetta á netinu, áður en þættirnir eru sýndir á Stöð 2, þannig að hún gat látið Eddu vita að hún myndi birtast í þriðja þætti. „Það sást alveg helling í mig, miklu meira en ég átti von á.“ Edda segir að fólk sem þekki hana vel hafi horft á þáttinn án þess að þekkja hana. „Maður býst náttúrulega ekkert við því að sjá kunningja sína í svona sjónvarpsþætti! Mér fannst þetta mjög gaman og ég væri alveg til í að gera eitthvað svona aftur,“ segir Edda að lokum.