Leigubíll, lyklar, fimmta hæðin ... allt í steik!
Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, birti bráðskemmtilega jólasögu á Facebook síðu sinni í dag, þar sem hún segir frá því er þau Jón Björnsson, eiginmaður hennar, hittust fyrsta skipti um jól. Sigrún Björk veitti Akureyri. net góðfúslegt leyfi til að birta söguna.
Jólasaga – dagsönn
Jólin 1993 voru fyrstu jólin okkar Jóns. Við höfðum hist á „Halló Akureyri“ um sumarið og fundum bæði að það var eitthvað gott að gerast.
Ég eyddi jóladögunum í Keflavík og Jón á Akureyri en við höfðum ákveðið að hittast heima hjá Jóni í Stóragerðinu að kvöldi annars í jólum. Hann ætlaði síðan að bjóða mér til New York yfir áramótin þannig að ég var full tilhlökkunar þegar ég keyrði til Reykjavíkur með fullan bíl af mat og annað eins af fötum. Ég rogaðist upp á fjórðu hæðina með töskurnar og matarpokana, setti hvítvínið í kæli og opnaði rauðvínsflösku sem átti að anda næstu þrjá tímana.
Ég þaut um eins og stormsveipur, loftaði út og snurfusaði. Jón hafði gefið mér forláta kertastjaka í jólagjöf og hann naut sín vel á sparidúknum hennar mömmu. Ég pússaði svo glös og hnífapör og braut servéttur. Svo stússaði ég við forréttina og setti hamborgarahrygg í ofninn um fimmleytið. Ég var bókstaflega að kafna úr hamingju og spenningi. Kvöldvélin átti að lenda á Reykjavíkurflugvelli hálfsjö. Hryggurinn lyktaði vel og svaladyrnar voru opnar til að það yrði ekki of mikil stækja. Ég ákvað að slökkva öll ljós og hafa bara logandi kerti í nýja stjakanum þannig að það myndi vera það fyrsta sem hann myndi sjá þegar við kæmum inn. Þetta yrði æðislegt kvöld hjá okkur.
En í hverju átti ég að vera? Peysan og gallabuxurnar var ekki nógu fínt, ég dreif mig í jólakjólinn en í stressinu kom lykkjufall á sokkabuxurnar. Ég fór í sparibuxurnar og fann annan bol sem var aðeins djarfari. Ég var orðin nokkuð ánægð með útlitið þegar sem ég setti á mig rauða varalitinn klukkan rúmlega sex. En úlpan passaði ekki við, ég reif mig úr henni og greip nýju kápuna og stökk svo niður stigann. Á miðri leið fattaði ég að bíllyklarnir og seðlaveskið voru í úlpunni!
Jemundur! Ég hljóp í snarhasti upp stigann aftur en hurðin var harðlæst. Það var enginn heima í íbúðinni við hliðina þannig að ég hljóp upp á hæðina fyrir ofan. Þar var mamma og krakkar heima, ég frussaði út úr mér aðstæðunum og bað um að fá að klifra niður á svalirnar. Hún fylgdi mér út á svalir en vildi frekar hringja í lásasmið. Hann sagðist geta komið um tíu leytið. Ég sagðist ætla að ná í Jón og koma aftur – hann myndi örugglega geta leyst þetta.
Við Austurver beið leigubíll og ég sagði bílstjóranum að ég væri reyndar peningalaus en ef hann myndi skutlast út á flugvöll og til baka þá myndi kærastinn borga.
Jón fékk ekkert alltof hlýlegar móttökur í flugstöðinni, því ég tók óðamála á móti honum, leigubíll, lásasmiður, lyklar, jólin, fimmta hæðin og allt í steik – hann yrði bara að bjarga þessu!
Hann hafði ekki orð á því að ég liti vel út með varalitinn.
Við fórum út á svalirnar með konunni og henni leist ekki á áformin, sagði að þetta væri ekki hægt, ég hinsvegar hreytti í Jón „ætlarðu ekki að drífa þig!“
Hann leit niður og leit svo aftur á mig undarlegu augnaráði um leið og hann sveiflaði sér yfir handriðið og lét sig síga niður með því og sveiflaði sér á einhvern ótrúlegan hátt inn á svalirnar á fjórðu hæðinni. Ég horfði á eftir honum úr átján metra hæð og fékk skyndilega raunveruleikatékk og krampakenndan óttafiðring í magann. Fiðringurinn bærir alltaf á sér þegar ég fer Háaleitisbrautina.