Leggja af stað frá Munkaþverá til Rómar
Á rigningardegi í ágústlok eru þrír vinir staddir í Eyjafirði, til þess að leggja af stað í óvenjulega ferð. Allir eiga þeir tengingu við utanríkisráðuneytið, Ísland og elska að hjóla. Matthías Geir Pálsson er einn þremenninganna, en hann fær far með blaðamanni frá Akureyri að Munkaþverárkirkju, þar sem tæplega 3000 kílómetra pílagrímaferð skal hefjast.
„Ég kynntist Nikulási ábóta á Munkaþverá í ítölskunámi í Háskóla Íslands,“ segir Matthías. Hann ákvað að skrifa lokaritgerð sína í ítölsku um suðurgöngur Íslendinga að kaþólskum sið til Rómar. „Nikulás var einn af þeim, sem gekk frá Íslandi til Rómar í pílagrímaleiðangri, en talið er að það hafi verið í kring um 1150. Árið 1157 skrifaði hann svo bók sem heitir 'Leiðarvísir og borgarskipan' um ferð sína og ég rakst á hana við skrif ritgerðarinnar. Þannig kviknaði þessi áhugi, að feta í fótspor ábótans.“
Í dag förum við frá Munkaþverá í Gásir, þar sem við reiknum með að Nikulás hafi stigið á fjöl og siglt til Noregs
Með Matthíasi eru þeir Harald Aspelund og Stefano Rosatti, en þeir halda upp á sextugsafmæli sitt í ár. Matthías verður svo sextugur líka eftir tvö ár, en vorið 2026 reikna félagarnir með því að ljúka ferðalaginu í talsvert betra veðri í Rómarborg. „Við erum allir í vinnu og með fjölskyldu þannig að það er svolítið púsl að finna tíma sem hentar okkur öllum, en við tökum ferðalagið í skorpum. Í dag förum við frá Munkaþverá í Gásir, þar sem við reiknum með að Nikulás hafi stigið á fjöl og siglt til Noregs. Næst munum við hittast í Danmörku og fara þekkta pílagrímaleið þar í landi sem kallast Hærvejen, en miðað við lýsingu Nikulásar er það nokkurnvegin leiðin sem hann fór.“
Hér eru félagarnir með staðarhaldara á Munkaþverá, Benjamín Baldurssyni.
Harald Aspelund er sendiherra Íslands í Helsinki og Stefano Rosatti er yfir ítölskudeildinni í Háskóla Íslands. Matthías lærði ítölskuna hjá honum, en Stefano tengist Harald og Matthíasi líka í gegn um konu sína, Berglindi Bragadóttur, en hún vinnur líka hjá Utanríkisráðuneytinu og er nýbyrjuð að vinna í Róm, þar sem Matthías var við störf. „Ég var að vinna sem fastafulltrúi hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna þar í borg.“
Ekki hugsað sem syndaaflausn
„Þessar pílagrímaferðir voru fyrr á öldum oft vegna þess að menn þurftu að fara trúarinnar vegna,“ segir Matthías. „Jafnvel höfðu þeir gert eitthvað af sér og ferðin talin einskonar syndaaflausn. Það er nú ekki alveg þannig hjá okkur,“ bætir hann við hlæjandi, „við erum ekki að fara í þetta verkefni af trúarlegum ástæðum, en það er eitthvað við það að geta tvinnað saman söguáhugann og uppáhalds áhugamálið, að hjóla!“