Mannlíf
Landsbankinn ei meir við Ráðhústorgið
14.02.2025 kl. 11:30

akureyri.net
Nýtt útibú Landsbankans var opnað í Hofsbót 2-4 í morgun eins og lesendur Akureyri.net vita mætavel. Bankinn hafði verið til húsa í Strandgötu 1 við Ráðhústorg í rúm 70 ár, síðan 1954. Sá sem kemur að húsinu í fyrsta skipti í dag sér þess hins vegar engin merki að þar hafi nokkurn tíma verið bankastarfsemi. Í bítið var hafist handa við að taka niður skiltið – LANDSBANKINN – sem hefur verið áberandi á framhlið hússins í áratugi og það tók ekki langan tíma.
Fjárfestingafélagið Kaldbakur keypti húsið af Landsbankanum síðla árs 2022. Skrifstofur Kaldbaks eru í húsinu, svo og DriftEA, miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á Norðurlandi, sem nýlega var hleypt af stokkunum.