Fara í efni
Mannlíf

Lærir á hjólabretti 48 ára og lögblindur

Richard Bouman á hjólabrettaæfingu í Braggaparkinu. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

„Ég byrjaði að æfa mig á hjólabretti síðasta sumar,“ segir Richard Bouman, 48 ára Hollendingur, búsettur á Íslandi síðustu 12 árin. „Ég varð svo að hætta vegna veðurs, en þá kom sér vel að geta komið hingað inn! Ég byrjaði að mæta í Braggaparkið í desember og hef verið duglegur að æfa mig síðan.“

Richard mætir alltaf á fyrsta miðvikudagskvöldi mánaðarins í Braggaparkið, en þá er hægt að fá leiðsögn frá brettakennara.

Það er kannski eitt, að byrja hjólabrettaferilinn síðla á fimmtugsaldri, en Richard er svo ofan í kaupið lögblindur. „Ég sé ekkert með vinstra auganu, en ég er með 25% hliðarsjón á hægra auga.“ Richard fæddist með sjónskaðann, og þekkir því ekkert annað. „Auðvitað var ég hræddur við að reyna fyrir mér á hjólabretti! En þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt um síðan ég var fimm eða sex ára,“ segir Richard. „Ég fékk hjólabretti þá frá foreldrum mínum, og í fyrstu tilraun datt ég og meiddi mig þannig að hjólabrettið var tekið af mér aftur.“

Ég beygði mig undir óttann í öll þessi ár og þorði ekki fyrir mitt litla líf að stíga aftur á hjólabretti, þrátt fyrir að langa það mikið

„Síðan þá, var ég heltekinn af þeirri trú að þetta væri hættulegt,“ segir Richard. „Ég gæti meitt mig og það er reyndar svolítill möguleiki á því að sjónskerðingin mín geti jafnvel ágerst við harkalegt höfuðhögg. Ég beygði mig undir óttann í öll þessi ár og þorði ekki fyrir mitt litla líf að stíga aftur á hjólabretti, þrátt fyrir að langa það mikið.“

Það er skemmtilegt samfélag í kring um hjólabrettaiðkun á fullorðinsaldri í Braggaparkinu. 

Fyrir ári síðan breyttist líf Richards töluvert, en hann lenti í alvarlegu bílslysi. „Ég hafði aldrei lent í neinu þessu líkt, braut bringubeinið og fingurnir á mér þurftu mikla endurhæfingu. Slysið vakti mig til umhugsunar,“ segir Richard. „Ef ég get meitt mig svona mikið, vegna aðstæðna sem ég hef enga stjórn á, afhverju ekki að prófa eitthvað sem mig hefur alltaf langað að gera - þó að það geti mögulega skaðað mig?“ 

Richard keypti sér hjólabretti síðasta sumar, um leið og endurhæfingin eftir slysið var komin á góðan stað. „Mig langaði að prófa mig áfram sjálfur fyrst, og ég get ekki einu sinni lýst því hvernig tilfinningin var, þegar ég komst yfir hræðsluna við að detta. Ótrúlega frelsandi eftir áralangan ótta.“ 

Hjólabrettið hans Richards er hvatning á fjórum hjólum. 

Eiki Helgason er eigandi og brettakennari í Braggaparkinu.

„Ég vissi ekki af því að Richard hefði keypt sér kort hérna,“ segir Eiki Helgason, eigandi Braggaparksins og brettakennari. „Hann var að mæta seint á kvöldin eða á nóttunni, en með fullorðinskorti getur þú í raun mætt hvenær sem er sólarhringsins. Ég fór að verða forvitinn um hver það væri, sem kæmi svona seint. Ég sá á myndavélum að maðurinn kæmi inn með blindrastaf.“ 

Eiki var ekki lengi að finna Richard og spjalla við hann, hvort hann vildi ekki einhverja leiðsögn eða stuðning. „Hann langaði mest að læra að 'droppa inn í rampinn', sem ég skil að sé skelfileg tilhugsun þegar maður sér ekki neitt. Hann er búinn að vera mjög duglegur að mæta og æfa sig og er búinn að ná þessum áfanga og heldur ótrauður áfram,“ segir Eiki. „Ég sagði honum frá þessum hópi hérna á miðvikudagskvöldum, en þá er leiðsögn með alltaf fyrsta kvöld mánaðarins. Hann mætir vel hérna og hópurinn er mjög virkur og skemmtilegur.“

Það er nett að kalla viðburðinn 'Fullorðinskvöld', en í hópnum er algengara að tala um 'Bumbubretti'

Braggaparkið er innanhúss aðstaða fyrir hjólabretti, línuskauta, hlaupahjól og BMX hjól. „Það er allur aldur að mæta hérna hjá okkur, kannski frá svona sex ára og upp úr,“ segir Eiki. „Við erum með allskonar námskeið, einkakennslu og fullorðinskvöld með leiðsögn eins og í kvöld.“ Það er nett að kalla viðburðinn 'Fullorðinskvöld', en í hópnum er algengara að tala um 'Bumbubretti'. „Þetta er ýmist fólk sem skeitaði á yngri árum, eða þá fólk sem vill prófa á fullorðinsaldri, eins og Richard.“

Eiki aðstoðar hjólabrettanemanda að ná undirstöðuatriðunum. 

Félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur á miðvikudagskvöldum í Braggaparkinu.