Fara í efni
Mannlíf

Kynnumst Birtu og Sölku í Pálínuboði

Hressir gestir í Pálínuboði í Sölku í Víðilundi. Sparistellið að sjálfsögðu dregið fram. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Það er margt skemmtilegt um að vera í Birtu og Sölku, félagsmiðstöðvum fólksins á Akureyri. Á báðum stöðum er dagskrá virka daga á milli 8.45 og 15.45, en meðal annars er Pálínuboð í Sölku fyrsta föstudag hvers mánaðar, en þar lokar kl 13 á föstudögum. Blaðamaður Akureyri.net lét sig ekki vanta þangað og fékk að forvitnast um starf félagsmiðstöðvanna í leiðinni. Valdís Rut Jósavinsdóttir byrjaði í starfi umsjónarmanns Birtu og Sölku um áramótin, en hún segir að það sem helst einkenni starfið sé í einu orði sagt; kærleikur

Stundum eru einhverjar uppákomur í Pálínuboðum, en í dag er til dæmis tónlistarfólk hjá okkur sem býður sig fram til þess að koma og gera stundina enn betri

Birta er staðsett við Bugðusíðu 1, á neðri hæð Bjargs, og Salka er í Víðilundi 22, mitt á milli blokkanna við botn götunnar. Félagsmiðstöðvarnar voru áður bara fyrir eldri borgara, og þónokkuð margir bæjarbúar halda að svo sé enn, en Valdís segir að það sé alls ekki þannig. „Í dag bera þær titilinn 'Félagsmiðstöðvar fólksins', og eru fyrir 18 ára og eldri. Það er opið á svokölluðum dagvinnutíma, þannig að eðli málsins samkvæmt eru þær mest nýttar af fólki sem ekki er í vinnu á þeim tíma, helst eldri borgurum, öryrkjum, fólki sem er tímabundið utan vinnumarkaðs eða í veikindaleyfi,“ segir Valdís. 

Þetta er fyrsta viðtalið af nokkrum um félagsmiðstöðvarnar. Kynnumst fleirum sem mæta í starfið á næstu dögum á Akureyri.net.

  • Á MORGUN – HEKLAR KOLKRABBA FYRIR LITLAR HENDUR

Málefni líðandi stundar rædd yfir molakaffi á morgnana

„Á morgnana skapast skemmtileg stemning, þar sem molakaffið er í boði hússins klukkan 11 og fólk kemur saman, gluggar í blöðin og fer yfir málefni líðandi stundar,“ segir Valdís. „Það er hádegismatur í boði og hægt að panta sér mat alla virka daga. Fólk er annað hvort að borða á staðnum í góðum félagsskap eða grípa bakka með sér heim. Síðdegiskaffi er svo í boði alla daga nema föstudaga. Sérstaklega vinsælt er að fá heitar vöfflur á þriðjudögum í Birtu og miðvikudögum í Sölku.“

 

Valdís Rut Jósavinsdóttir, umsjónarmaður Birtu og Sölku. Mynd: RH

Pálínuboðið fer að taka á sig mynd

Fólk er byrjað að tínast inn í Pálínuboðið, en starfsfólkið er í óða önn að dekka hlaðborð með kræsingunum sem eru lagðar til. Ef einhverjir lesendur kannast ekki við það, hvað Pálínuboð er, þá er það kaffiboð þar sem hver og einn kemur með eitthvað á borðið og svo njóta öll veitinganna saman. Í þetta skiptið er ein stór og vegleg marsipanterta fyrir miðju borði, en Valdís segir að kona ein hafi komið með tertuna úr bakaríi, en hana langaði svo mikið að sýna þakklæti vegna starfsins í Sölku, sem henni þykir svo vænt um. Allt er mjög girnilegt og áður en blaðamaður veit af er salurinn orðinn fullur af fólki og verið er að bæta við borðum og stólum. 

„Pálínuboðin eru hérna í Sölku einu sinni í mánuði, en þau eru alla mánudaga í Birtu í Bugðusíðu. Við reyndum að fækka boðunum, en það var ekki tekið í mál! Þar er svo vel mætt og 20-30 manns mæta í hverri viku,“ segir Valdís. „Stundum eru einhverjar uppákomur í Pálínuboðum, en í dag er til dæmis tónlistarfólk hjá okkur sem býður sig fram til þess að koma og gera stundina enn betri. Stundum eru gátur, stundum býður einhver upp á upplestur eða samsöng. Fólki er velkomið að taka af skarið og deila einhverju með samkomunni og það skapast góð stemning með kaffinu.“ 

 

Borðin eru fallega dekkuð, með sparistellinu, blómum og kertaljósi. Á hverju borði eru söngtextahefti. Mynd: RH

Kakan fína, og hún var ekki bara flott, heldur líka bragðgóð. Mynd: RH

Blaðamaður er alin upp í sveit, og fer í hálfgert nostalgíukast við að heyra Dalakofann spilaðan á harmoniku á meðan hún maular hjónabandssælu og drekkur kaffi úr félagsheimilabolla. Það er svona dæmigerð kaffihlaðborðsstemning, eins og Kvenfélag Þingeyinga bauð upp á í gamla daga í Breiðumýri þar sem hún ólst upp. Skvaldur, hlátur og fallegur dúkur á borðinu fléttast saman við sólargeislana sem læðast inn í byrjun aprílmánaðar. Á borðinu er lítið hefti með söngtextum og þegar flest hafa fengið nægju sína af kruðeríinu er tekið til söngs. Nokkrir læðast fleiri ferðir í kökurnar á meðan, eins og gengur, enda óþarfi að skilja eftir of mikið af afgöngum. 

Félagsleg virkni er mikils virði

„Hver einasta manneskja sem gengur hér inn er ofboðslega dýrmæt,“ segir Valdís. „Við höldum uppi félagsstarfi hérna af ýmsu tagi og við fögnum því þegar fólk kemur og vill vera félagslega virkt. Fyrir mörg getur það verið erfitt skref, að koma hingað og freista þess að kynnast nýju fólki, en það er alltaf þess virði.“ Valdís segir eina dæmisögu um konu sem hringdi í félagsmiðstöðvarnar, áttatíu ára og orðin ein. „Hún sagðist búa hérna rétt hjá en hefði aldrei þorað að koma. Hún kom loksins, tók skrefið, og er búin að koma oft síðan.“ 

„Um daginn kom hérna kona frá Hvíta-Rússlandi sem hefur búið lengi á Íslandi við félagslega einangrun,“ segir Valdís. „Rauðakrossvinur hennar fylgdi henni hingað einn daginn og ég labbaði með þeim um allt húsið og ég sé að það lifnar yfir þessari konu. Það kemur á daginn að hún er mjög listræn og hérna sá hún svo margt sem hana langaði að vinna með. Vinur hennar hjá Rauða krossinum fylgdi henni í nokkur skipti í viðbót og núna er hún að koma hérna sjálf tvisvar í viku fast, málar á postulín og getur ekki beðið eftir leirlistarnámskeiði.“

 

Þessi fallegu tré voru búin til á leirlistarnámskeiði í Sölku. Mynd: RH

Aðstaðan í leirnum. Í Sölku eru margar vinnustofur með mismunandi viðfangsefnum. Mynd: RH

Handverk, list og allskyns námskeið í boði

„Starfið okkar er mjög fjölbreytt,“ segir Valdís. „Sum koma bara til þess að sitja og spjalla. Aðrir koma til okkar til þess að fara í leikfimi, yoga eða til þess að nýta líkamsræktartækin okkar. Svo er fjölbreytt úrval námskeiða sem við bjóðum uppá eins og keramikmálun, prjónanámskeið, hekl, kínaskák, leir, frjáls útsaumur, forn íslenskur útsaumur, víravirki, forn íslenskur útskaurður, postulínsmálun, mósaík og akrýlmálun svo eitthvað sé nefnt. Opnar vinnustofur eru síðan flesta daga vikunnar þar sem starfsfólk okkar er til staðar til að leiðbeina og hjálpa til.“

Félagsskapurinn sem myndast í þessum hópum er mjög dýrmætur

„Hér hittast oft í viku allskonar hópar sem hafa myndast í gegnum árin og njóta þess að sitja saman í fallegu umhverfi,“ segir Valdís. Fólk er alltaf velkomið og er hægt að dunda sér út um allt hús eins og í pílu, púsla, tefla, lita, fara í snóker eða billiard, pútta eða sauma á saumavél. Mikill fjöldi fólks vinnur að góðgerðarmálum hér í félagsmiðstöðvunum, prjónar t.d. bangsa fyrir sjúkrabílana, kolkrabba fyrir fæðingardeilina á SAk eða sokka og vettlinga fyrir þá sem þurfa á því að halda og sjáum við um að dreifa því. Margar hafa kannski engan til þess að prjóna á, og þarna er hægt að búa eitthvað til sem nýtist til góðra verka. Félagsskapurinn sem myndast í þessum hópum er mjög dýrmætur.“
 

Þessar handlögnu konur sátu í saumastofunni við skraf og saum. Mynd: RH

Nærmynd af saumaverkefni, en þetta er 'veski' fyrir saumnálar. Falleg gjöf handa einhverri góðri vinkonu sem á upphafsstafinn F og finnst gaman að sauma. Mynd: RH

„Eins og ég sagði áðan, þá er hér mikill kærleikur,“ segir Valdís. „Sum eru reynslumikil í einhverju handverki eða listgrein og þá eru þau óþreytandi við að leiðbeina og koma öðrum inn í hlutina. Fólk er saman í þessu og allir eru velkomnir.“ Að lokum minnir Valdís á að fólk sé velkomið að koma og fá að skoða aðstöðuna, og endilega fylgja félagsmiðstöðvunum á Facebook

 

Kræsingar, pönnsur og allt upp á tíu í Pálínuboðinu. Samkvæmt Vísindavefnum er ekki vitað hver Pálína er/var - en hún hefði orðið stolt ef hún væri til. Mynd: RH

Vindum okkur aftur í Pálínuboðið góða, áður en viðtalinu lýkur. Nú er blaðamaður búin að klára af diskinum, sötrar sterkan og góðan uppáhelling og fylgist með spjalli ókunnugs fólks sem situr nærri. Það kemur á daginn að þau eru gamlir sveitungar, en höfðu ekki áttað sig á því strax. Konan spyr um heilsuna, eins og gjarnan er gert þegar fólk er komið á vissan aldur, og maðurinn svarar að því miður sé ekki gott að frétta af konunni sinni. Hún er nú komin á aðra stofnun og hann ætli að heimsækja hana síðdegis. Konan hallar höfði og rifjar upp, þegar hún fór í berjamó með henni áður fyrr. Hann segir að hún fari líklega ekki aftur í berjamó, en það hafi hún alltaf elskað. Svo halda þau áfram að rifja upp sögur úr sveitinni og deila sögum. Fallegt samtal og hlýtt, og harmonikkan syngur í bakgrunni. 

Félagsmiðstöðvarnar eru aldeilis ekki bara fyrir eldri borgara, þó að gestir Pálínuboðsins hafi mörg verið í heldri kantinum. Blaðamaður er ekki einu sinni orðin miðaldra, en hún tekur með sér kærleiksdass út í daginn eftir góða stund í Sölku. 


Þetta var fyrsta umfjöllun af sex um heimsókn blaðamanns í Sölku. Á næstu dögum birtum við viðtöl við handavinnukonur, púlara, postulínsmálara svo eitthvað sé nefnt. Margt er skapað í saumastofunni sem nýtist til góðgerðarmála, en á morgun birtist viðtal við Kristínu Ólafsdóttur sem heklar kolkrabba sem fara á fæðingardeildina á SAk. Nýfædd börn sem þurfa að dvelja á spítalanum lengur en í sólarhring fá einn slíkan að gjöf.