Tónar sem gleymast ekki þó líði ár og öld – MYNDIR
Fortíðarþráin var nánast áþreifanleg í menningarhúsinu Hofi í gærkvöldi og fjölmennt í Hamraborginni þegar Haukur Pálmason og hans fólk buðu upp á tónlistardagskrána Þó líði ár og öld, þar sem saga Tónaútgáfu Pálma Stefánssonar, föður Hauks, var rakin í tali og tónum.
Pálmi gaf út fjölda goðsagnakenndra platna, m.a. þá fyrstu sem hetjan Björgvin Halldórsson sendi frá sér, þar sem einmitt var að finna lagið Þó líði ár og öld, eitt hans þekktasta.
Erna Hrönn Ólafsdóttir, Magni Ásgeirsson, Stefán Jakobsson, Stefán Elí Hauksson (Pálmasonar Stefánssonar) og Summi Hvanndal sungu gömlu, góðu lögin í gær og um hljóðfæraleik sáu Eyþór Ingi Jónsson, sem spilaði á orgel og önnur hljómborð, Haukur Pálmason á trommur, Kristján Edelstein á gítar, Magni á gítar og Summi á bassa.
Þorsteinn Gretar Gunnarsson stiklaði á stóru í sögu Tónaútgáfunnar, þess merkilega fyrirtækis, sem Pálmi heitinn stofnaði á sínum tíma þar sem hann fékk ekki að selja íslenskar hljómplötur á Akureyri vegna einkasölusamnings annarar verslunar í bænum við helstu útgefendur í höfuðborginni.
Samkoman í Hofi var afar vel heppnuð, viðstaddir skemmtu sér augljóslega konunglega, sungu með og trölluðu þar sem það átti við og klöppaðu listafólkinu lof í lófa; það var svo sannarlega verðskuldað lófaklapp.