Fara í efni
Mannlíf

Kraftur í heilsueflingu fyrir 60+ hjá Janusi

Ásta Heiðrún Jónsdóttir og Ragna Baldvinsdóttir, heilsuþjálfarar hjá Janus. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

Það er ekki nóg að synda og ganga, styrktarþjálfun er ofboðslega mikilvæg líka á þessum aldri,“ segir Ragna Baldvinsdóttir, annar heilsuþjálfara hjá Janus Heilsueflingu á Akureyri. Ragna heldur utan um hóp af u.þ.b. fimmtíu manns í heilsuþjálfun, á aldrinum 60-80 ásamt kollega sínum, Ástu Heiðrúnu Jónsdóttur. Þær eru íþrótta- og heilsufræðingar og vinna eftir hugmyndafræði Janusar Guðlaugssonar, fyrrum knattspyrnumanns, þjálfara og doktors í íþrótta- og heilsufræði, um þjálfun fólks eftir sextugt. 

Félagslegi þátturinn er stór partur af þessu, fólk er að æfa saman og við erum til dæmis búnar að eignast mjög góða vini hérna

Ragna og Ásta byrjuðu með hópana hérna fyrir norðan síðastliðið haust, en Janus Heilsuefling var stofnuð fyrir sunnan árið 2016 og hefur vaxið jafnt og þétt síðan. „Aðsóknin hefur verið mjög góð og hópurinn er fjölbreyttur,“ segir Ragna. „Félagslegi þátturinn er stór partur af þessu, fólk er að æfa saman og við erum til dæmis búnar að eignast mjög góða vini hérna. Annað slagið er uppbrot í dagskránni og við gerum eitthvað öðruvísi, sem dæmi höfum við farið í göngutúr í Lystigarðinum og endað á Kaffi Lyst í kakóbolla á eftir.“

 

 

Hópnum er skipt upp og það er æft þrisvar í viku í líkamsræktarstöð World Class við Skólastíg. Ásta Heiðrún segir að þegar veðrið fari að verða hliðhollara verði meira um útiæfingar með. „Þegar fólk byrjar hjá okkur, hefst þetta á mjög viðamiklum mælingum,“ segir Ásta. „Fyrir utan þessar hefðbundnu mælingar, blóðþrýsting, hæð og þyngd, erum við með líkamssamsetningartæki sem mælir vöðvamassa og fitumassa. Svo eru gerð ýmis próf til þess að sjá hvar einstaklingurinn er staddur líkamlega.“ Mælingarnar eru gerðar reglulega til þess að halda vel utan um framfarirnar. Ragna bendir á að þjálfunin þurfi að vera svolítið einstaklingsmiðuð, sumir eigi til dæmis liðskiptaaðgerðir að baki og annað sem þarf að taka tillit til.

Takmarkið er, að sögn þjálfaranna tveggja, að fólk verði eins sjálfbært í heilsuþjálfun og kostur er, til þess að geta haldið styrk og þoli lengur inn í efri árin

Notendur fá aðgang að appi sem heldur utan um allar æfingar og mælingar. 

„Fólk bindur sig hjá okkur í sex eða tólf mánuði,“ segir Ragna. „Ástæðan fyrir svona löngu tímabili, er að það tekur tíma að fá fólk til þess að tileinka sér þetta.“ Takmarkið er, að sögn þjálfaranna tveggja, að fólk verði eins sjálfbært í heilsuþjálfun og kostur er, til þess að geta haldið styrk og þoli lengur inn í efri árin. Mikilvægur hluti af þjálfuninni er fræðsla, sem er haldin fjórum sinnum á hverju sex mánaða tímabili. „Rauði þráðurinn í fræðslunni er næring,“ segir Ásta Heiðrún. „Fólk er oft ekki að borða nóg og alls ekki nóg af próteini.“ Rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess að stunda styrktarþjálfun á þessum aldri, og nauðsynlegt er að fá prótein samhliða líkamsræktinni, bendir Ásta á.

Janus Heilsuefling er á opnum markaði á Akureyri eins og í Reykjavík og Kópavogi, en ekki í samstarfi við sveitarfélagið eins og í nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir austan og í Vestmannaeyjum. „Við hefðum viljað vera í samvinnu við sveitarfélagið, það auðveldar t.a.m. tengingu við Heilsugæsluna og samvinnu með læknum ef þess gerist þörf.“ 

- - -

  • Akureyri.net birtir reglulega pistla Janusar Guðlaugssonar sem hann kallar Heilsuefling. Smellið hér til að sjá þann síðasta.