Fara í efni
Mannlíf

Klifurparadís opnuð í sumar á Akureyri

Katrín Kristjánsdóttir og Magnús Arturo Batista, tveir af eigendum 600 Klifur. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Katrín Kristjánsdóttir og Magnús Arturo Batista eru útivistarfólk, með bakgrunn í fjallamennsku, leiðsögumennsku og fleira í þeim dúr. Þau eiga og reka 600Klifur ásamt eiginmanni Kötu, Hirti Ólafssyni. Eitt af því sem þeim finnst allra skemmtilegast er klifur. Þau opnuðu klifuraðstöðu á Hjalteyri 2022 sem varð fljótlega vinsæl, en sérstaklega voru það fjölskylduklifurtímarnir á sunnudögum sem kveiktu í fólki. Nú eru þau á fullu að undirbúa opnun á nýrri klifuraðstöðu á Akureyri, sem verður sú fyrsta sinnar tegundar sem er opin almenningi í bænum. Magnús og Kata tóku vel á móti blaðamanni Akureyri.net í nýja húsnæðinu við Dalsbraut 1, og þó að enn sé heldur tómlegt og allt í gangi – er stefnt á opnun í sumar.

Við sjáum fyrir okkur að þetta verði skemmtilegur staður fyrir fjölskylduna að vera saman í hreyfingu

„Aðstaðan sem við ætlum að bjóða upp á er að bandarískri og evrópskri fyrirmynd, þar sem svona klifurhallir eru að rísa á ýmsum stöðum. Það verður fallegt hérna inni, og upplifun að koma. Það er óhætt að segja að við séum langt komin, búin að hanna hvernig allt á að vera og akkurat núna eru framkvæmdir á fullu og breytingar á þessu risastóra húsnæði,“ segir Magnús. „Við erum með neðri hæðina, þar sem Útisport var áður, og líka hæðina fyrir ofan sem er töluvert stærri og hærra til lofts. Í heildina eru þetta 1000 fermetrar. Efri hæðin verður undirlögð í klifur, kaffihús og fjölskyldusvæði. Aðalinngangurinn verður á efri hæðinni, en til þess að komast þangað er keyrt út fyrir húsið og upp fyrir aftan.“ Eins og staðan er núna er töluvert af vinnuvélum og tækjum þar, en Kata og Magnús segja að aðilinn sem á þetta sé að flytja og taki það með, þannig að það verður betra aðgengi fyrir gesti 600Klifur.

 

Hér geta lesendur fengið tilfinningu fyrir því, hversu stórt húsnæðið er, en hér sjáum við efri hæðina. 13 metra klifurveggur mun koma upp úr gólfinu frá neðri hæðinni nokkurnveginn þar sem Kata og Magnús standa. Veggurinn fyrir aftan þau verður tekinn og allt um kring verða 4.5 m háir klifurveggir. Mynd: RH

Efri hæð hússins eins og hún er í dag að utan, en verður gjörbreytt þegar framkvæmdum lýkur. Myndin er tekin í norður. Mynd RH

„Það verður upplagt fyrir fólk sem er að koma í fyrsta skipti, eða þau sem eru að koma með krakka og unglinga, að vera saman á fjölskyldusvæðinu,“ segir Kata. „Það verður leikhorn öðru megin, þar sem yngri börn geta verið örugg að leika sér og fá ekki klifrara ofan á sig. Hinum megin verður klifurveggur með mismunandi erfiðleikastigum og krakkavænum leiðum. Svo verður hægt að fá léttar veitingar og kaffi á kaffihúsinu. Það var ofboðslega góð mæting á fjölskylduklifur á Hjalteyri og þó að krakkarnir byrjuðu kannski að klifra, leið yfirleitt ekki á löngu þar til foreldrarnir voru farin að biðja um skó til þess að prófa líka,“ segir Magnús, en þau segja að margir hafi verið að uppgötva hvað klifur væri í raun skemmtilegt í salnum á Hjalteyri. Vert er að taka fram að sá salur er ennþá opinn, en Kraftlyftingafélag Akureyrar tók yfir umsjón með honum. 

Öll geta fundið klifur við hæfi

Kata og Magnús segja að það verði hægt að finna klifurvegg fyrir öll, en efri hæðin verður að mestu undirlögð undir svokallaða 'grjótglímu', þar sem veggirnir eru upp í 4,5 metra háir og svo eru þykkar dýnur allt um kring. „Þessi tegund af klifri er eiginlega orðin vinsælust í svona klifursölum, en fólk er ekki bundið í línu og er í rauninni bara að stökkva niður eða feta sig niður aftur eftir að klifra upp. Frelsið er meira og fleiri geta klifrað í einu. Erfiðleikastigið verður í rauninni allt frá því að það væri sambærilegt því að labba upp stiga, upp í brjálæðislega erfiðar leiðir þar sem þú þarft að hanga á hvolfi“, segir Kata. „Leiðirnar verða fjölmargar, með lituðum gripum sem vísa veginn. Þau sem eru lofthrædd geta líka prófað klifur, af því að þú getur alveg farið mjög stutt upp á vegginn og fært þig svo til hliðar.“ 

Mynd frá klifurhöll í München i Þýskalandi, sem Kata og Magnús horfa til og er lík því sem þau eru að hanna. Sama fyrirtæki smíðar fyrir báðar hallir. Mynd: aðsend

Tölvuteikning af hluta rýmisins á efri hæðinni. Hái klifurveggurinn er þarna fyrir miðju, en kaffihúsið fremst til hægri. Mynd: 600klifur.is

„Stærsti klifurveggurinn mun ná alveg frá gólfi á neðri hæðinni, 13 metra upp í gegn um gólfið í miðjum salnum á efri hæðinni. Við erum í rauninni að jafna hæsta vegginn sem er í boði fyrir sunnan, en hann er líka 13 metrar,“ segir Magnús. „Á þessum vegg er bara í boði að stunda línuklifur, þar sem þú ert í belti og hangir í línu á meðan þú klifrar. “

Fjölbreytt aðstaða í boði

„Á neðri hæðinni verður ræktaraðstaða fyrir upphitun og styrk,“ segir Kata. „Svo verður salur hérna sem getur nýst fyrir námskeið, jógatíma, barnaafmæli eða hvað sem okkur dettur í hug. Við verðum líka með búningsklefa og sturtur. Þau sem verða með áskrift í klifrið geta nýtt þessa aðstöðu, en við erum ennþá í hugmyndavinnu með það hvernig við höfum þjónustuna. Það verður hægt að koma bara eitt og eitt skipti að klifra, eða kaupa klippikort og svo einhverjar áskriftarleiðir. Eins langar okkur að bjóða upp á námskeið.“ Á planinu er að bjóða upp á aðstöðu til afmælishalds, eins og er í boði í mörgum íþróttamannvirkjum bæjarins, t.d. fimleikahúsinu við Giljaskóla og Skautahöllinni. „Þá sjáum við fyrir okkur að það væri hægt að leyfa hópnum að klifra í klukkustund og færa sig svo í salinn okkar til þess að bjóða upp á veitingar eftir á“, segir Kata.

Það þarf ekki að vera einhver Rambó til þess að klifra!

„Hugmyndin er í rauninni, að bjóða upp á klifur, íþróttastarf og fjölskyldustað,“ segir Magnús. „Við sjáum fyrir okkur að þetta verði skemmtilegur staður fyrir fjölskylduna að vera saman í hreyfingu, ekki bara skutla krökkunum og fara, heldur geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Kaffihúsið lengir vonandi dvalartímann hjá fólki, þar sem er hægt að flæða aðeins á milli svæða og fá sér eitthvað gott. Við erum að vonast til þess að þetta verði staður þar sem bæði er hægt að stunda háklassa íþróttaþjálfun og njóta og hafa gaman með fjölskyldu, vinum eða vinnufélögum. Þetta er frábært sport fyrir hópefli, til dæmis.“

Kata er ekki bara að græja risastóra klifurhöll, heldur er hún líka þriggja barna móðir og með yngstu skottuna í fæðingarorlofi. Hún vaknaði eftir lúrinn sinn á meðan viðtalið fór fram og leist vel á að fá umfjöllun! Mynd: RH

Góð viðbóð við útivistarbæinn Akureyri

„Okkur finnst í rauninni að klifursalurinn okkar verði frábær viðbót í flóruna í útivistarbænum Akureyri,“ segir Magnús. „Hér er frábært skíðasvæði, fjallahjólabrautir, útiklifursvæðið við Munkaþverá og margt fleira. Svo má alveg undirstrika að klifur er í rauninni bara hefðbundin líkamsrækt, það þarf ekki að vera einhver Rambó til þess að klifra!“

Katrín og Magnús reka 600Klifur, sem er dótturfélag 600Norður, ásamt eiginmanni Katrínar, Hirti Ólafssyni. 600Norður var stofnað með það fyrir sjónum að efla útivist og fjallamennsku á Norðurlandi. „Nokkur verkefni hafa verið unnin í átt að þessu markmiði s.s Sigló Freeride, KEAx600Norður fjallaskíðanámskeið, uppbygging klifursvæða utandyra og klifuraðstaðan á Hjalteyri - og núna í sumar á Akureyri,“ segir Kata að lokum. 

Áhugasöm um framvindu mála hjá 600Klifur er bent á að fylgjast með á samfélagsmiðlum og á heimasíðunni.

Heimasíða 600Klifur
Instagram
Facebook

Önnur mynd frá klifurhöllinni í München. Það verður líka kaffihús með útsýni yfir klifursalinn í 600Klifur. Mynd: aðsend